07. september 2016

Nærri 50 milljón börn rifin upp með rótum á heimsvísu

Annar hver flóttamaður er á barnsaldri, þótt börn séu ekki nema um þriðjungur jarðarbúa. Á heimsvísu hafa nærri 50 milljónir barna verið rifin upp með rótum – 28 milljónir þeirra á flótta undan átökum og ofbeldi heima fyrir. Milljónir til viðbótar eru á faraldsfæti í leit að betra og öruggara lífi. Þá hefur sífellt fjölgað þeim börnum sem flýja fylgdarlaus yfir landamæri, en þeim hópi er sérstaklega hætt við að verða fyrir misnotkun og ofbeldi eða að verða fórnarlömb smyglara og mansals.

7.9.2016

Annar hver flóttamaður er á barnsaldri, þótt börn séu ekki nema um þriðjungur jarðarbúa. Á heimsvísu hafa nærri 50 milljónir barna verið rifin upp með rótum – 28 milljónir þeirra á flótta undan átökum og ofbeldi heima fyrir. Milljónir til viðbótar eru á faraldsfæti í leit að betra og öruggara lífi. Þá hefur sífellt fjölgað þeim börnum sem flýja fylgdarlaus yfir landamæri, en þeim hópi er sérstaklega hætt við að verða fyrir misnotkun og ofbeldi eða að verða fórnarlömb smyglara og mansals.





Viðamikil skýrsla sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, birtir í dag dregur upp dökka mynd af lífi og aðstæðum milljóna barna og fjölskyldna sem standa frammi fyrir ómögulegum valkostum: Að búa við svo slæmar aðstæður að það virðist öruggara að leggja allt í sölurnar fyrir erfiða og hættulega ferð en að halda sig heima fyrir.

Börn á flótta hafa oftar en ekki orðið fyrir miklum sálrænum áföllum í tengslum við átökin og ofbeldið sem þau eru á flótta undan, en til viðbótar standa þau frammi fyrir ótal hættum í leit sinni að öryggi. Hætturnar felast meðal annars í því að geta drukknað á leið sinni yfir hafið, að fá hvorki nóga næringu né vatn, lenda í klóm mannræningja, lenda í mansali og verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Bæði á þeim svæðum sem börnin ferðast í gegnum og á áfangastað sínum mæta þau oft útlendingahatri og mismunun.



















Breytum samhug í aðgerðir
„Heiminn hefur ítrekað sett hljóðan við að sjá börn í þessum aðstæðum. Við munum öll eftir myndinni af Aylan litla Kurdi, eftir að hann drukknaði á flótta yfir Miðjarðarhafið, og Omran Daqneesh þar sem hann sat blóðugur og í losti í sjúkrabíl eftir að heimili hans var sprengt í loft upp,“ segir Anthony Lake, framkvæmdastjóri UNICEF. „En á bak við hverja mynd, hverja stúlku og hvern dreng, eru milljónir barna í hættu. Þetta kallar á að við virkjum samhug okkar með þeim börnum sem við sjáum til að ná fram aðgerðum í þágu allra barna.“

Skýrsla UNICEF er gefin út í aðdraganda fundar Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn og farandfólk og fundar Bandaríkjaforseta um flóttamannamál. Lagt er til að gripið sé tafarlaust til aðgerða á sex sviðum til að vernda og hjálpa börnum sem eru á flótta eða á faraldsfæti:

  • Tryggja að börn á flótta, sérstaklega fylgdarlaus börn, verði ekki fyrir misnotkun og ofbeldi, til dæmis með því að styrkja barnaverndarkerfi, berjast skipulega gegn mansali og tryggja börnum sérstaka talsmenn til að bestu hagsmunir þeirra séu hafðir í fyrirrúmi.
  • Hætta að hneppa börn sem sækja um stöðu flóttamanns í varðhald.
  • Halda fjölskyldum saman til að tryggja hagsmuni barna, auðvelda fjölskyldusameiningu og tryggja skráningu og lagalega stöðu barna.
  • Tryggja öllum börnum á flótta og faraldsfæti aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu.
  • Þrýsta á aðgerðir gegn þeim aðstæðum sem valda því að stórir hópar fólks neyðast til að leggja á flótta.
  • Vinna gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa.

„Vandinn hefur vaxið á undanförnum árum en við megum ekki einblína of mikið á tölurnar. Á bak við allar þessar tölur eru börn. Börn sem ekkert hafa gert til að valda þeim aðstæðum sem þau eru að flýja – hvort sem þau flýja stríð, fátækt, ójöfnuð eða neikvæð áhrif loftslagsbreytinga,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Börn á flótta eru fyrst og fremst börn. Börn sem okkur ber skylda til að vernda og tryggja öruggt og gott líf. Heimsforeldrar hafa veitt okkur ómetanlega hjálp við að berjast fyrir réttindum þeirra, þar á meðal 27.000 heimsforeldrar hér á landi. Fyrir það erum við afar þakklát.“

Skýrsluna má nálgast sem pdf hér: http://www.unicef.org/videoaudio/PDFs/Uprooted(1).pdf
Sérstök vefsíða með niðurstöðum skýrslunnar: www.unicef.org/uprooted

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn