19. ágúst 2016

Umfangsmikið hjálparstarf í Aleppo þrátt fyrir erfiðar aðstæður

UNICEF heldur úti umfangsmiklu hjálparstarfi í Aleppo þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Vegna nýlegra bardaga í vesturhluta borgarinnar flúðu 30.000 manns að heiman og UNICEF hefur unnið hörðum höndum að því að veita þeim hjálp. UNICEF sér fyrir hreinu vatni í Aleppo á hverjum einasta degi, fyrir 300.000 manns.

UNICEF heldur úti umfangsmiklu hjálparstarfi í Aleppo þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Vegna nýlegra bardaga í vesturhluta borgarinnar flúðu 30.000 manns að heiman og UNICEF hefur unnið hörðum höndum að því að veita þeim hjálp. UNICEF sér fyrir hreinu vatni í Aleppo á hverjum einasta degi, fyrir 300.000 manns.

„Margir halda kannski að það sé varla hægt að veita hjálp í Aleppo, staðan sé svo erfið. Staðreyndin er sú að UNICEF er bæði með starfsfólk og skrifstofu í borginni. Við erum til dæmis líka einn stærsti veitandi sjúkragagna og annarra nauðsynja fyrir sjúkrahús í Aleppo,” segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur ásamt samstarfsaðilum sínum fylgst grannt með vannæringu barna í borginni og hefur frá því í janúar kannað ástand 14.000 barna og veitt öllum þeim börnum meðferð sem hafa þurft á henni að halda. Það sama hefur verið gert við 7.000 ófrískar konur og konur sem nýverið hafa átt börn.

Hægt er að styðja hjálparstarf UNICEF í Sýrlandi með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 kr)​.

Árangur á hverjum degi

Neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum eru þær stærstu sem samtökin hafa nokkru sinni haldið úti. Meðal þess sem UNICEF hefur gert á þessu ári er að hjálpa 12 milljónum manna að fá hreint vatn, bólusetja meira en tvær milljónir barna gegn mænusótt til að koma í veg fyrir að faraldur brjótist út, veita meira en 200.000 börnum sálrænan stuðning og hjálpa mörg hundruð þúsund börnum að halda áfram menntun sinni. Frá upphafi stríðsins árið 2011 hefur UNICEF hjálpað milljónum og aftur milljónum barna.

„Yfirmaður UNICEF í Sýrlandi sagði mér í vor að hún óttaðist stöðugt um starfsfólkið sitt í Aleppo. En hún sagði að í Sýrlandi ætlaði hún ekki að gefast upp því hún sæi árangur af baráttu UNICEF á hverjum einasta degi,” segir Sigríður Víðis hjá UNICEF á Íslandi.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna er afar þakklát fyrir þann víðtæka stuðning sem hún hefur fengið við að veita börnum og fjölskyldum í Sýrlandi lífsnauðsynlega hjálp.

„Ekkert af þessu hefði verið hægt nema af því að með okkur í liði er fólk um allan heim sem vill vernda réttindi barna og standa fast með þeim á erfiðum tímum. Þar á meðal eru þúsundir manna hér á landi, bæði heimsforeldrar og fólk um allt land sem stutt hefur neyðarsöfnunina okkar,” segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Hægt er styðja hjálparstarf UNICEF í Sýrlandi á www.unicef.is/syrland eða með því að leggja inn á reikning 701-26-102040 kt. 481203-2950

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn