UNICEF

Hreyfingin

UNICEF - Hreyfingin

Börnin sem taka þátt í UNICEF - Hreyfingunni fá vandaða fræðslu um réttindi sín og ólíkar aðstæður jafnaldra sinna í öðrum löndum. Þau láta til sín taka með áheitasöfnun sem nær hámarki á sérstökum viðburðadegi sem skólinn eða frístundin skipuleggur. 

UNICEF - Hreyfingin hæfir öllum börnum, jafnt stórum sem smáum. Verkefnið samræmist grunnþáttum námsskrár um heilbrigði, velferð, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Markmiðið er að börnin fræðist um réttindi sín og allra barna og finnist þau um leið hafa áorkað einhverju í þágu jafnaldra sinna, sem búa við lakari lífskjör eða hafa þurft að leggja á flótta vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara. Mikilvægt er að börnin upplifi að hægt sé að leysa vandamál ef gripið er til aðgerða.

Viðfangsefni UNICEF - Hreyfingarinnar hafa meðal annars verið stríðið í Sýrlandi, menntun í neyðaraðstæðum, loftslagsbreytingar og bólusetningar.

UNICEF - Hreyfingin 2023

Hér að neðan finnur þú allt sem þarf til þess að undirbúa þátttöku í UNICEF - Hreyfingunni 2023: Fræðslumynd og verkefni, ásamt framkvæmdabæklingi og bréfi til aðstandenda. Þegar tilkynning um þátttöku skólans hefur borist UNICEF sendum við heimspassa og límmiðaspjöld sem þið nýtið á viðburðardaginn.

Nýjasta fræðslumynd UNICEF - Hreyfingarinnar fjallar sérstaklega um 2. grein Barnasáttmálans – að öll börn séu jöfn. Fengum við til liðs við okkur frábæra leikara til að kafa ofan í viðfangsefnið með aðstoð barna frá Sýrlandi og Úkraínu. Lokalag myndarinnar er endurgerð af laginu Enga fordóma með Pöllapönk þar sem hátt í 40 börn tóku þátt. Þar má einnig heyra þekktar raddir eins og Sölku Sól, Unnstein Manuel, Jón Jónsson og Heiðar úr Pöllapönk.

Myndin var unnin í samráði við börn þar sem 40 börn úr Réttindaráðum þriggja skóla voru í rýnihóp áður en handritavinnan fór af stað. Afraksturinn er metnaðarfull og stórskemmtileg mynd fyrir alla aldurshópa.

Myndin er bæði á radd- og táknmáli.

Áheitablað
Lesa meira
Ratleikur

Spennandi ratleikur UNICEF - Hreyfingarinnar þar sem við ferðumst til sex landa

Lesa meira
Svarblað

Hér eru svör við ratleiknum

Lesa meira

„Við viljum styrkja með börnunum þá tilfinningu að öll geti þau lagt hönd á plóg, hvert með sínum hætti, að hvert framlag skipti máli og að margt smátt geri eitt stórt.“

Ævar Þór með UNICEF

Ævar Þór Benediktsson er sendiherra UNICEF á Íslandi. Hann hefur aðstoðað UNICEF - Hreyfinguna við að fræða börn um hvernig réttindi barna hafa tengingu við daglegt líf þeirra. 

„Ég tek þátt í UNICEF - Hreyfingunni vegna þess að öll börn skipta máli. Það er ekkert flóknara en það,“ segir Ævar Þór þegar hann er spurður að því hvers vegna hann vill leggja sitt af mörkum til UNICEF - Hreyfingarinnar. 

Ævar hefur verið óþreytandi við að fræða börn um flókin málefni á snjallan og skiljanlegan hátt í hlutverki Ævars vísindamanns. Við erum svo sannarlega glöð og stolt af því að vera með Ævar í okkar liði. 

Fræðslumyndir fyrri ára

Hér að neðan má finna allar fræðslumyndir UNICEF - Hreyfingarinnar frá upphafi. Myndirnar hafa fjallað um efni á borð við Sýrland, menntun, loftslagsbreytingar, ofbeldi , bólusetningar og fleira.

Viljið þið slást í hópinn?

Ertu með spurningar um Hreyfinguna? Sendu okkur línu eða hringdu í okkur í síma 552-6300! Ef skólinn þinn vill taka þátt getur þú látið okkur vita hér. Sendu okkur nafn skólans ykkar, fjölda barna sem taka þátt og tengilið hjá ykkur vegna verkefnisins. Vinsamlega sendið okkur þetta í seinasta lagi þremur vikum fyrir framkvæmdina. 

Hafðu samband

Svör við algengum spurningum

UNICEF - Hreyfingin er fræðslu- og fjáröflunarverkefni fyrir grunnskólabörn á Íslandi. Markmið þess er að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virkja þau til samstöðu með jafnöldrum sínum víða um heim. 

Börnin fá vandaða fræðslu um réttindi sín, baráttu UNICEF í þágu allra barna og ólíkar aðstæður jafnaldra sinna í öðrum löndum. Þau láta síðan til sín taka með áheitasöfnun sem nær hámarki á sérstökum viðburðadegi sem skólinn skipuleggur. Hugmyndin er að þau átti sig á að öll börn eigi sömu réttindi og að saman geti þau lagt sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. 

Söfnunarfé UNICEF - Hreyfingarinnar rennur til jafns í neyðaraðstoð UNICEF og í innanlandsstarf UNICEF á Íslandi. 

Hvernig hjálpar UNICEF börnum um allan heim? 

... við veitum börnum meðferð við vannæringu.  

... við dreifum námsgögnum og komum börnum aftur í skóla.  

... við bólusetjum börn gegn mislingum og öðrum lífshættulegum sjúkdómum. 

... við veitum fólki hreint vatn.  

... við setjum upp barnvæn svæði og veitum börnum sálrænan stuðning. 

... við útvegum fjölskyldum heilsugæslu.  

... við sinnum afar umfangsmikilli barnavernd og leggjum áherslu á að sameina fjölskyldur. 

Í hverju felst innanlandsstarf UNICEF á Íslandi? 

UNICEF á Íslandi berst fyrir réttindum barna hér á landi með víðtækri hagsmunagæslu og réttindafræðslu. Starfsfólk UNICEF vinnur meðal annars að því að greina stöðu barna á Íslandi, efla þekkingu á réttindum barna í samfélaginu, gera hagnýtt fræðsluefni um réttindi þeirra, innleiða Barnasáttmálann innan sveitarfélaga og skóla og veita stjórnvöldum aðhald í málefnum barna. 

Við hjá UNICEF á Íslandi viljum vekja hjá börnum þá tilfinningu að þau geti lagt sitt af mörkum til að hjálpa jafnöldrum sínum í öðrum löndum. Grunnhugsunin er sú að margt smátt geri eitt stórt og að saman geti þau haft jákvæð áhrif. 

Fræðsluhluti verkefnisins gerir börnunum kleift að setja þau áheit sem þau safna í samhengi við þá hjálp sem UNICEF veitir börnum um allan heim. Þannig öðlast þau betri skilning á því hverju þau geta komið til leiðar með því að taka þátt í UNICEF - Hreyfingunni. 

Börnin geta þó að sjálfsögðu tekið þátt án þess að nokkur heiti á þau. Í leiðbeiningum sem UNICEF á Íslandi sendir þeim skólum sem taka þátt kemur fram að engin skylda sé að börnin safni áheitum og að þátttakan ein og sér sé mikilvæg. Lögð er áhersla á að þau geti sýnt velvilja sinn með því að láta sig málefnið varða og tala um það við fjölskyldu sína og vini. 

Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar geta tekið þátt í UNICEF - Hreyfingunni. Skipuleggjendur fá fræðsluefni frá UNICEF á Íslandi. Að fræðslu lokinni stendur skólinn eða frístundin fyrir viðburðadegi sem helgaður er verkefninu. Markmið hans er að gefa börnunum kost á að leggja sitt af mörkum með því að safna áheitum úr sínu nánasta umhverfi. Lagt er út frá því að margt smátt geri eitt stórt. Áhersla er því alls ekki lögð á háar upphæðir heldur að börnin upplifi samtakamáttinn sem felst í því að allir vinni saman og leggi sitt af mörkum til mannúðarmála. 

Hver skóli skipuleggur eftir eigin höfði viðburðadaginn sem fram fer að lokinni fræðslunni. Margir skólar hafa t.d. valið að halda áheitahlaup. Við hvetjum þó skólana til að hugsa út fyrir rammann og bjóða upp á fjölbreytta möguleika til þátttöku. Til dæmis er hægt að skipuleggja ýmis konar þrautabrautir og bjóða börnunum að safna áheitum með því að mála myndir, syngja, gera góðverk, spila á hljóðfæri og þar fram eftir götunum. Þannig styrkjum við enn frekar þá tilfinningu hjá börnunum að þau geti lagt hönd á plóg, hvert með sínum hætti, að hvert framlag skipti máli og að margt smátt geri eitt stórt. 

UNICEF á Íslandi sendir þátttökuskólum verkefnisgögn þeim að kostnaðarlausu. Þau innihalda fræðslumyndband sem unnið var í samstarfi við Ævar vísindamann, heimspassa (áheitakver), límmiða, áheitaumslög og framkvæmdar- og kynningarbæklinga.