Menu

Ársfundur UNICEF á Íslandi var haldinn í dag

Rætt um niðurstöður ársins 2016, barnvæn sveitarfélög og störf UNICEF í Írak.

 

19. júní 2017

Ársfundur UNICEF á Íslandi var haldinn fyrr í dag í fundarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þar kom fram að UNICEF á Íslandi safnaði alls rúmlega 630 milljónum króna árið 2016. Líkt og undanfarin ár safnaði íslenska landsnefndin hlutfallslega hæsta framlagi allra landsnefnda. Langstærsti hluti söfnunarfjársins, eða um 80%, kom frá einstaklingum sem láta sig málefni barna varða: Heimsforeldrum UNICEF

Ársskýrslu UNICEF á Íslandi fyrir árið 2016 má nálgast hér, sem og fyrri ársskýrslur. 

 

Dagskrá fundarins hófst með því að Guðrún Ögmundsdóttir, formaður stjórnar UNICEF á Íslandi, bauð gesti velkomna.

Þá hélt Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, tölu og fór yfir starf UNICEF á síðasta ári. Þar kom meðal annars fram að þjónustuver UNICEF var sett á laggirnar snemma á árinu, þar sem þjónustufulltrúar eiga í samskiptum við heimsforeldra og aðra sem láta sig málið varða.

Þá gaf UNICEF út skýrslu í upphafi árs um börn sem líða efnislegan skort á Íslandi, en um hana hefur mikið verið fjallað í opinberri umræðu. Í henni kom fram að um 6,100 börn á aldrinum 1-15 ára líða efnislegan skort hér á landi. Höfundur skýrslunnar er Lovísa Arnardóttir en ritstjóri Sigríður Víðis Jónsdóttir.

Auk þess var tilraunaverkefninu réttindaskólar komið á laggirnar á árinu með góðum árangri, en verkefnið felst í að þátttökuskólar leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi. 

Guðrún Ögmundsdóttir, formaður stjórnar UNICEF á Íslandi.

Þá sagði Bergsteinn Jónsson frá vel heppnuðum söfnunarátökum ársins 2016. Þar á meðal var herferðin Segjum stopp þar sem safnað var fyrir börn frá Sýrlandi og átakið Ekki horfa  fyrir vannærð börn í Nígeríu. Þá gekk sala sannra gjafa fyrir jólin framar öllum vonum, en landsmenn keyptu sannar gjafir að andvirði rúmlega 24 milljóna króna. Það er um 71% vöxtur frá árinu 2015.

Ungmennaráð UNICEF réðst einnig í átak á árinu sem bar nafnið #30sek þar sem þau vöktu athygli á því að á hálfrar mínútu frest neyðist barn til að leggja á flótta sökum stríðs, fátæktar eða umhverfisáhrifa. 

71% vöxtur var í sölu sannra gjafa á árinu 2016. 

Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarna- og frístundamála Akureyrarbæjar, sagði frá þátttöku bæjarins í verkefninu barnvæn sveitarfélög, sem er samstarfsverkefni UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna. Barnvæn sveitarfélög er innleiðingarlíkan sem styður sveitarfélög í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er Akureyri fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að taka þátt í verkefninu.

Samstarfið við Akureyrarbæ hefur gengið vonum framar og standa vonir til að fleiri sveitarfélög bætist í hópinn á næstu misserum. 

Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarna- og frístundamála Akureyrarbæjar sagði frá þátttöku bæjarins í innleiðingarferli barnvænna sveitarfélaga.

Að lokum sagði Gísli Einarsson frá ferð sinni til Íraks, en þangað fór hann á vegum RÚV í samstarfi við UNICEF og kynntist baráttu UNICEF fyrir börn á flótta frá Mósúl. Gísli heimsótti flóttamannabúðir og heyrði sögur barna sem höfðu orðið vitni að atburðum sem ekkert barn ætti að upplifa.

Hann sagði frá starfi UNICEF á svæðinu, meðal annars því að UNICEF heldur úti barnvænum svæðum þar sem börn geta leikið sér, fengið menntun, heilsugæslu og sálfræðilega aðstoð á öruggu svæði.  

Á aðalfundi UNICEF á Íslandi, sem haldinn var fyrir ársfundinn, sat Pétur Einarsson sinn seinasta stjórnarfund. Í hans stað tók sæti Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Norrænnar stofnunar um fólksflutninga (NIM). UNICEF á Íslandi þakkar Pétri hjartanlega fyrir vel unnin störf og býður Ernu Kristínu velkomna til starfa. 

 

Starfsfólk UNICEF á Íslandi þakkar öllum kærlega fyrir komuna á ársfundinn.