Menu

Börn á Íslandi sem líða efnislegan skort

Hvaða börn eru líklegust til að líða skort á Íslandi? UNICEF á Íslandi kynnir hér nýja og spennandi leið til að fylgjast með efnislegum skorti meðal barna á Íslandi. Niðurstöður skortgreiningar UNICEF má sjá bæði í skýrslu hér að neðan og á sérstöku mælaborði.

Gera má ráð fyrir að rúmlega 6.100 börn á aldrinum 1-15 ára líði efnislegan skort hér á landi. Þar af líða tæplega 1.600 börn verulegan skort.

Skýrsla

Við höfum tekið allar niðurstöðurnar um börn sem líða efnislegan skort saman í viðamikilli skýrslu. Þar getur þú meðal annars séð hvaða börn eru líklegust til að líða skort, hvernig bakgrunnur foreldra hefur áhrif og á hvaða sviðum börn líða skort.

Mælaborð

Hér að neðan getur þú farið inn í gagnasett greiningarinnar og borið saman ólíkar bakgrunnsbreytur, séð á hvaða sviðum börn líða skort, hversu mörg börnin eru og þar fram eftir götunum. Við unnum mælaborðið í samstarfi við DataMarket.

Barnaréttarnefnd SÞ hefur ítrekað bent íslenskum yfirvöldum á skort á víðtækri gagnaöflun um stöðu barna á Íslandi. Það verður að taka alvarlega.

Svið

Svörin við spurningunum úr lífskjararannsókninni eru flokkuð með skortgreiningu UNICEF eftir sjö sviðum:

Næring: Hér eru flokkuð saman svör við spurningum um það hvort börn fái ávexti eða
grænmeti daglega og hvort þau fái a.m.k.eina kjöt- eða fiskmáltíð eða sambærilega grænmetismáltíð á hverjum degi.

Klæðnaður: Hér eru flokkuð saman svör við spurningum um það hvort barnið eigi föt sem það hefur fengið ný, þ.e. föt sem enginn annar hefur
átt, og hvort það eigi a.m.k. tvö pör af skóm.

Menntun: Hér eru flokkuð saman svör við spurningum um það hvort barnið geti tekið þátt í ferðum eða viðburðum á vegum skólans sem
kosta peninga og hvort aðstaða sé til heimanáms á heimilinu.

Upplýsingar: Hér eru flokkuð saman svör við spurningum um það hvort börn hafi aðgang að tölvu og sjónvarpi á heimilinu.

Húsnæði: Hér eru tekin saman þröngbýli, hvort salerni sé í húsnæðinu, aðgangur að baðkeri eða sturtu og hvort næg dagsbirta komi inn um
gluggana á húsnæðinu.

Afþreying: Hér eru flokkuð saman svör við spurningum um það hvort barnið eigi bækur sem henta aldri, hvort það eigi leiktæki, leikföng eða
íþróttabúnað til að vera með utan dyra og hvort það eigi leikföng, spil, tölvuleiki eða aðra hluti til að leika sér með innandyra.

Félagslíf: Hér eru flokkuð saman svör við spurningum um það hvort barnið geti haldið upp á afmæli eða önnur tímamót í lífi sínu og hvort það
geti boðið vinum sínum heim til að leika við eða borða með.

Nákvæmar spurningar má sjá í viðauka II í skýrslunni sjálfri. 

Það er von UNICEF á Íslandi að með skortgreiningunni verði auðveldara að koma til móts við þau börn sem líða skort hér á landi.

Bakgrunnsbreytur

Með skortgreiningu UNICEF má greina þann skort sem börn líða eftir margvíslegum bakgrunnsbreytum. Bakgrunnsbreyturnar eru eftirfarandi:

Kyn barns: Stúlkur og drengir.

Menntunarstig foreldra: Grunnmenntun; þau sem hafa lokið grunnskólaprófi. Framhalds- eða starfsmenntun; þau sem lokið hafa framhaldsskólaprófi, iðnskólaprófi eða öðru starfstengdu námi. Háskólamenntun; þau sem lokið hafa háskólaprófi.

Uppruni foreldra: Foreldrar sem fæddir eru á Íslandi. Foreldrar sem fæddir eru erlendis.

Heimilisgerð: Einstætt foreldri með barn eða börn. Tveir fullorðnir með eitt barn. Tveir fullorðnir með tvö börn. Tveir fullorðnir með fleiri en tvö börn.

Staða á húsnæðismarkaði: Foreldrar í eigin húsnæði. Foreldrar á leigumarkaði.

Búseta: Höfuðborgarsvæðið. Stærri bæir. Dreifbýli.

Tekjur foreldra: Tekjubilin eru fimm: 1-20% (lægsta tekjubil), 21-40%, 41-60%, 61-80% og 81-100% (hæsta tekjubil).

Hlutfallsleg atvinnuþátttaka foreldra: Foreldrar sem vinna minna en 50% (þar með talið þeir sem eru atvinnulausir). Foreldrar sem vinna meira en 50% (þar með talið þeir sem eru í fullri vinnu).

Aldur foreldra: Yngri en 30 ára. 30-39 ára. 40-49 ára. Eldri en 50 ára. 

UNICEF berst fyrir réttindum allra barna, bæði á Íslandi og erlendis. Við viljum að íslensk stjórnvöld fylgist vandlega með efnislegum skorti barna og setji sér skýr og mælanleg markmið um að draga úr honum.

Láttu þig réttindi barna varða!

Þú getur tekið þátt í baráttu UNICEF fyrir öll börn. Fyrsta skrefið er að fylgjast með. Skráðu þig hér að neðan og fylgstu með því hvernig UNICEF berst fyrir réttindum barna á Íslandi og um allan heim.