03. mars 2022

Bláir punktar UNICEF taka á móti börnum við landamæri Úkraínu

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að rúmlega ein milljón íbúa Úkraínu hafi flúið land síðustu vikuna. Börn og konur eru þar í miklum meirihluta. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur unnið að því hörðum höndum undanfarna daga að endurvirkja Bláa punktinn svokallaða (e. Blue Dot) við landamæri nágrannaríkja Úkraínu

3. mars 2022 Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að rúmlega ein milljón íbúa Úkraínu hafi flúið land síðustu vikuna. Börn og konur eru þar í miklum meirihluta. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur unnið að því hörðum höndum undanfarna daga að endurvirkja Bláa punktinn svokallaða (e. Blue Dot) við landamæri nágrannaríkja Úkraínu, Pólland, Rúmeníu og Moldóvu. Blái punkturinn er eins konar miðstöð þar sem tekið er á móti börnum og fólki á flótta, barnvæn svæði þar sem börn og fjölskyldur fá sálræna aðstoð, heilbrigðisþjónustu, hjálpargögn, upplýsingar, skjól og vernd. Þá hafa Bláu punktarnir reynst mikilvægir til að bera kennsl á fylgdarlaus börn sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar.

Og ekki ætti að vanmeta mikilvægi barnvænna svæða sem þessara sem varða flóttafólki leið úr hörmulegum aðstæðum. Börn hætta ekki að vera börn þó þau séu á flótta undan átökum. Börn eiga alltaf rétt á að hafa öruggan stað til að fá að vera börn, leika sér, læra og eiga samskipti hvort við annað. Ofan á alla hina mikilvægu þjónustuna sem á þessum stoppistöðvum er veitt.

Bláu punktarnir reyndust mikilvægir í flóttamannakrísunni 2015-2016 þegar til Evrópu leitaði gríðarlegur fjöldi fólks frá Mið-Austurlöndum og víðar. Svæðin eru sett upp í nánu samstarfi við stjórnvöld á hverjum stað fyrir sig og meðfram helstu umferðaræða fólksfjöldans. Mismunandi þjónusta verður svo veitt á milli miðstöðva eftir þörfum.

UNICEF ætlar sér að að koma upp 26 Bláum punktum á næstunni sem munu hver um sig hafa bolmagn til að taka á móti og aðstoða á bilinu 3-5 þúsund einstaklinga á dag í Moldóva, Rúmeníu, Hvíta-Rússlandi, Slóvakíu, Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi. UNICEF vinnur með stjórnvöldum og samstarfsaðilum að því að koma þeim öllum upp á næstu sólarhringum. Í Póllandi hefur UNICEF lagt til sérfræðiþekkingu sína í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í Moldóvu vinnur UNICEF ásamt fimm stærstu barnaverndarsamstarfsaðilum sínum að því að setja upp að minnsta kosti sjö Bláa punkta með fram landamærum Úkraínu.

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, heimsótti einn þessara Bláu punkta á landamærum Úkraínu og Rúmeníu í gær og hrósaði rúmenskum stjórnvöldum og almenningi þar fyrir að taka svo vel á móti flóttafólki frá Úkraínu. Meðfylgjandi myndir eru frá þeirri heimsókn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur um árabil verið á vettvangi í Úkraínu á ófriðartímum í austurhluta landsins að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð. UNICEF er nú á vettvangi stríðsátaka að tryggja hreint vatn, hjálpargögn, skólagögn, félags- og sálfræðiþjónustu og fjárhagsaðstoð. Milljónir barna eru nú í skotlínu stríðsátaka og staða þeirra versnar með hverri mínútunni. UNICEF ítrekar ákall sitt um vopnahlé, að lífi óbreyttra borgara og nauðsynlegum innviðum verði hlíft, að alþjóðalög um að vernd barna í stríði séu virt og öruggt aðgengi hjálparstofnana til mannúðarstarfs á vettvangi verði tryggt.

Neyðarsöfnun fyrir börn í Úkraínu er í fullum gangi. Hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar um styrktarleiðir hér á vef UNICEF á Íslandi.

Fleiri
fréttir

07. desember 2024

Búðu til pláss: TAKK
Lesa meira

06. desember 2024

Yfir helmingur barna á Íslandi nýtur góðs af verkefnum UNICEF 
Lesa meira

05. desember 2024

Gleðisprengja úr söngleiknum Hairspray sett í nýjan búning 
Lesa meira
Fara í fréttasafn