06. maí 2022

Fötluð börn og aðrir viðkvæmir hópar orðið illa úti vegna stríðsins

Fyrir stríð voru hvergi í Evrópu fleiri börn í umsjá stofnana en í Úkraínu. Yfir 90 þúsund börn – Nær helmingur þeirra fötluð börn

Ungur drengur í rústum skólabyggingar í Chernihiv í Úkraínu. Mynd/UNICEF

Við höfum líklega aldrei fyrr séð barnaverndarkrísu af þeirri stærðargráðu og við stöndum nú frammi fyrir vegna stríðsins í Úkraínu, segir Aaron Greenberg, barnaverndarfulltrúi svæðisskrifstofu UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu, á upplýsingafundi UNICEF í Genf í dag. Og þá er nú mikið sagt.

„Á tveimur mánuðum hafa 7,7 milljónir neyðst til að flýja heimili sín og eru á vergangi innanlands, 5,5 milljónir hafa flúið yfir landamærin, þar á meðal nærri tvö af hverjum þremur börnum í Úkraínu. Hundruð barna hafa látið lífið og ótalmörg særst. Nærri 200 árásir á heilbrigðisstofnanir og skóla hafa verið skráðar,“ sagði Greenberg í erindi sínu á fundinum. Hann lagði áherslu á að þó stjórnvöld í Úkraínu og mannúðarsamtök geri allt hvað þau geti til að vernda viðkvæmustu hópana, þá sé þörfin gríðarleg.

„Leyfið mér að minna á það sem í okkar huga er afar mikilvægt. Fyrir stríð voru hvergi í Evrópu fleiri börn í umsjá stofnana en í Úkraínu. Yfir 90 þúsund börn bjuggu á stofnunum, munaðarleysingjaheimilum, heimavistarskólum og öðrum umönnunarstofnunum. Nærri helmingur þessara barna eru fötluð.“

Stríðið tekið sálrænan toll á öllum börnum

Greenberg segir að afleiðingar stríðsins á þennan viðkvæma hóp barn hafi verið sérstaklega skelfilegar.

„Stríðið hefur tekið sálrænan toll á velferð allra barna. Börn hafa verið tekin af heimili sínu, aðskilin umönnunaraðilum og skyndilega varpað á vígvöll stríðsins. Börn eru hrædd eftir sprengingar og sírenuvæl. Nær öll þeirra eru að takast á við þetta án föður, eldri bræðra og karlkyns ættingja þar sem allir karlar á aldrinum 18-60 ára þurfa að gegna herskyldu. Og það sem verra er hafa mörg börn orðið vitni að eða upplifað líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi.“

Greenberg sló þó vonarnótu í erindi sínu og benti á að reynslan sýni að börn sem koma úr stríði séu þrautseig. Meirihluti þeirra nái sér aftur á strik ef þau komast aftur í skóla, viðhaldi tengingu við fjölskyldu og ástvini og endurheimti einhvers konar eðlilegt líf á ný. Önnur börn muni þurfa á mikilli sálrænni aðstoð og stuðningi að halda og svo sé enn minni hópur sem þróað getur með sér áfallastreituröskun, vanalega 2-4 mánuðum eftir upplifun sína, og þurfi mikla sérfræðiaðstoð og stuðning.

UNICEF vinnur á yfirsnúning

„UNICEF er á yfirsnúning við að styðja stjórnvöld, samhæfa samstarfsaðila á sviði barnaverndar og auka fjármögnun frjálsra félagasamtaka á svæðinu sem og opinberra þjónustuaðila. Hér eru nokkrar tölur frá okkar hlið. Frá 24. febrúar hafa UNICEF og samstarfsaðilar náð til yfir 140 þúsund barna og aðstandenda þeirra með geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu. Rúmlega 34 þúsund börn hafa notið góðs af sérstakri færanlegri félagsþjónustu þar sem félagsráðgjafar, barnasálfræðingar, hjúkrunarfólk og lögfræðingar veita aðstoð. Við erum nú með 56 færanleg teymi um allt land, þar af 12 í austurhluta Úkraínu. Við höfum náð til 7 þúsund kvenna og barna með ofbeldisforvörnum, áhættumildun og viðbragðsteymi ofbeldismála- þar á meðal við kynbundnu ofbeldi. En þetta er bara ekki nóg. Þó við vinnum á yfirsnúning þá tel ég að við þurfum að vera tilbúin með sértækari sérfræðiþjónustu fyrir börn sem verða fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Og börn sem glíma við fötlun, og hafa orðið sérstaklega illa úti vegna stríðsins, þurfa nauðsynlega á stuðningi að halda. Stjórnvöld, UNICEF og samstarfsaðilar vinna nú að því að auka þjónustu við þessa börn,“ segir Greenberg að lokum í erindi sínu.

Svona styrkir þú UNICEF

Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til að tryggja áframhald á þessu mikilvæga starfi UNICEF vegna stríðsins í Úkraínu, STYRKTU ÞÁ NEYÐARSÖFNUN UNICEF Á ÍSLANDI.

Sendu SMS-ið UNICEF í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 kr.
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102060 kt. 481203-2950.
Þá tökum við sömuleiðis við AUR greiðslum í númerið 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn