20. maí 2021

Getur Ísland orðið fyrirmynd í réttindum barna?

Markmið fundarins var að ræða mikilvægi þess að setja málefni barna í forgang og að hvetja íslensk stjórnvöld til að setja metnað sinn í að gera gott enn betra.

Á opnum fundi UNICEF á Íslandi tókust þingmenn og ráðherrar á um þær áskoranir sem blasa við börnum á Íslandi. UNICEF spurði hvort Íslandi geti orðið alþjóðleg fyrirmynd í málefnum barna og kynnti Sandie Blanchet yfirmaður Brussel-skrifstofu UNICEF nýja og metnaðarfulla áætlun Evrópusambandsins um réttindi barna. Þá kynnti Hjördís Eva Þórðardóttir sérfræðingur hjá Félagsmálaráðuneytinu nýja stefnu íslenskra stjórnvalda um Barnvænt Íslands.

“Það var gleðilegt að heyra augljósan samhljóm meðal þingmanna og ráðherra um að setja málefni barna í forgang og var ljóst á umræðunni að stuðningur ríkir við nýja stefnu um Barnvænt Ísland sem er nú til meðferðar hjá Alþingi. Það gefur okkur góða von um að stjórnvöld haldi áfram á sömu braut eftir að kosningum lýkur í haust,” segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Stefna stjórnvalda um Barnvænt Ísland er í 11 liðum og tekur til helstu þátta í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Félags- og barnamálaráðherra upplýsti á fundinum að stefnan sé fullfjármögnuð.

Líflegar pallborðsumræður kjörinna fulltrúa

En þingmenn bentu einnig á þær áskoranir sem bíða stjórnvalda varðandi réttindi barna. Í pallborði voru samkomin fulltrúar allra flokka á þingi, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og þingmennirnir Andrés Ingi Jónsson, Oddný G. Harðardóttir, Inga Sæland, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Fundarstjórinn, Óttarr Proppé, beindi þar völdum spurningum að viðstöddum.

Sú fyrsta var yfirskrift fundarins, hvort Ísland geti orðið fyrirmynd í réttindum barna.

Fyrstur tók til máls Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem svaraði spurningunni játandi og sagði Ísland tvímælalaust vera leiðandi á margan hátt í málefnum barna

„Það er mjög gott að vera barn á Íslandi í alþjóðlegu samhengi en líka ljóst að við getum alltaf gert betur. Áskoranirnar eru velferðarkerfið okkar og hvernig við stöndum með börnum þegar kemur að því. Þar erum við að stíga stór skref sem vert er að fylgja eftir.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með Ásmundi Einari og sagði allar forsendur til staðar til að Ísland gæti orðið fyrirmynd annarra þjóða er varðar réttindi barna. Ein þeirra væri sá mikli samhljómur sem er til staðar milli allra stjórnmálaflokka að gæta og bæta hag barna, þó áherslumunur kunni að vera á.

„Samfélag sem horfir út frá sjónarhorni barna er samfélag sem ég vil búa í og vinna að,“ sagði Oddný. „Því það rúmar svo margt um velferð og hag barna. Það er aðgengi að mennta- og heilbrigðiskerfi. Þar skiptir máli að foreldrarnir hafi vinnu og heimilið peninga til að framfleyta sér. Að afarnir og ömmurnar fái að lifa áhyggjulaust ævikvöld og stjórnvöld vinni að því að ná tökum á loftlagsvandanum. Það er eiginlega allt sem skiptir máli fyrir gott samfélag.“

Lög og stefnur marklaus án þekkingar á réttindum barna

Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var því næst spurð hvar hún teldi helstu hindranir í vegi fyrir réttindum barna liggja. Ráðherra benti á að sú vinna sem nú hefði farið fram í ráðuneytum og með samstarfsaðilum hefði vissulega fækkað þeim hindrunum.

„En það er ekki nóg að setja lög og samþykkja stefnur um réttindi barna, það þarf að tryggja að fólk þekki þau og virði. Það er ekki síður hindrunin sem tekur við þegar við höfum fylgt þessu öllu eftir, að allir þekki réttinda barna og geti brugðist við þegar brotið er gegn þeim.“

Einnig lagði ráðherra áherslu á að breyta þyrfti almennu viðhorfi til barna og orðræðunnar um réttindi þeirra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði um sömu spurningu varðandi mögulegar hindranir að hún teldi gríðar jákvætt að þennan málaflokk sé hægt að taka út fyrir hið „almenna pólitíska karp“ eins og hún orðaði það. Þrátt fyrir áherslumun milli flokka væri viljinn til staðar hjá öllum, þvert á þá flokka.

„En það þarf að fylgja því eftir með stuðningi og fjárveitingu. Við höfum reynslu af því að pólitískur vilji hafi verið þvert á þingið. En efndir þurfa að fylgja fallegum orðum.“

Benti hún á að kerfið þurfi að aðlaga sig þörfum barna en staðan í dag væri að enn væru langir biðlistar á barna- og unglingageðdeildir, hjá talmeinafræðingum og eftir sálfræðiþjónustu. Læra þurfi af reynslunni. Forvirkar aðgerðir og snemmtæka íhlutun þurfi til og að aðlaga til að geta tekið á móti börnum með alls konar þarfir.

Hver eru næstu skref?

Þriðja spurningin sem varpað var til pallborðs kjörinna fulltrúa á fundinum var um hver næstu skref væru.

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði óendanlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að lyfta þessum málaflokki upp fyrir hið pólitíska karp.

„Við reynum í ríkari mæli að skoða allt sem við gerum með augum barnanna. Hvernig hafa þessar ákvarðanir sem við höfum tekið haft áhrif á börn?“ sagði Ólafur og sagði næstu skref að klára þau stóru barnamálafrumvörp sem fyrir lægju og tryggja aukið samstarf milli ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum svo ákvarðanir lendi ekki á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Inga Sæland, þingmaður Flokks Fólksins, tók líkt og aðrir undir með því að hér á landi væri verið að vinna að góðum hlutum fyrir börnin okkar. En næstu skref gætu verið að hætta að skattleggja fátækt og að börn fátækra hætti að líða fyrir það á sviði tómstunda og menntunar og þar hugsanlega til frambúðar. Benti hún á mikilvægi þess að löggilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hópur fatlaðra barna hér á landi sé jaðarsettur í samfélaginu og geti ekki tekið þátt.


„Þetta eru mannanna verk, það er í höndum stjórnvalda. Það er ekki nóg að það sé þverpólitísk sátt um að börnin okkar eigi allt það besta skilið. Við þurfum að standa við það og sína það í verki, ekki bara í orði,“ sagði Inga á fundinum.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, kvaðst þakklát fyrir fundinn og að hún væri mikils vísari eftir hann. Hún lagði í máli sínu áherslu á geðheilbrigðismál barna þar sem horfa þyrfti til landsbyggðarinnar allrar. Aðstoðin væri of oft aðeins á höfuðborgarsvæðinu. „Það hafa verið stigin skref til að eyða biðlistum og veita þá hjálp sem þarf, en í mínum huga erum við að færa hindrunina,“ sagði Anna Kolbrún og vísað til þess að aðstoðin væri oftar en ekki í boði á höfðborgarsvæðinu og þegar hjálpin hafi verið veitt þar snúi börnin heim til sín úti á landi aftur og þar geti reynst erfitt að fylgja henni eftir.

Breyta þurfi menningunni og virkilega hlusta á börn

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði ofboðslega mikið jákvætt búið að gerast í málefnum barna hér á landi og staðan væri gjörbreytt frá því sem var fyrir áratug síðan. Stærstu verkefnin séu samt framundan. Ekki aðeins að fylla út tékklista með laga- og reglubreytingum. Heldur að breyta menningunni, sem væri lúmskara og erfiðara.

„Ég held að það verði áskorun að uppfylla 12. grein Barnasáttmálans um virðingu fyrir skoðunum barna, sérstaklega hjá okkur fullorðna valdafólkinu, að koma aðeins niður úr fílabeinsturninum og hlusta í alvöru á það sem börn hafa að segja og taka tillit til skoðana þeirra,“ sagði Andrés Ingi.

Tiltók hann dæmi af barnaþinginu sem haldið var 2019 þar sem barnaþingmenn hefðu eðlilega haft miklar og sterkar skoðanir á kennslu og mikilvægi þess að auka valáfanga í grunnskólum. Andrés gagngrýndi að níu mánuðum síðar hefði menntamálaráðherra komið með tillögu um að breyta viðmiðunarstundarskrá þar sem hafi nánast verið búið að þurrka val út. Þveröfugt við vilja barnanna.

„Sem betur fer náðist að snúa þessu við eftir mótmæli barna. Þarna var ekki verið að hlusta.“

Annað dæmi frá barnaþinginu var sterk krafa frá börnunum um að auka stuðning við flóttafólk og hætta endursendingum á fólki.

„Hvað er að gerast í dag? Núna er ríkisstjórnin farin að endursenda fólk á fullu aftur til Grikklands í ólíðandi aðstæður sem UNICEF og fleiri hafa ítrekað gagnrýnt og sagt að grísk stjórnvöld geti ekki tryggt grunnmannréttindi fólks, geti ekki tryggt að börn njóti verndar barnasáttmálans og íslensk stjórnvöld senda fólk í þessar aðstæður þrátt fyrir það. Það dugar ekki bara að samþykkja stefnu um málefni barna ef allar hinar stefnurnar taka ekki mið af því líka,“ sagði Andrés Ingi ómyrkur í máli.

Mjög líflegar en góðar umræður sköpuðust á fundinum í framhaldinu og hvetjum við alla til að horfa á fundinn í heild sinni HÉR á Facebook.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn