20. ágúst 2021

Hamfarahlýnun er stærsta ógnin sem steðjar að börnum og ungmennum heimsins

UNICEF kynnir í fyrsta sinn sérstakan barnamiðaðan loftslagsáhættustuðul þar sem kemur fram að 1 milljarður barna er í mjög mikilli hættu - UNICEF kallar eftir því að ríkisstjórnir og fyrirtæki heimsins grípi til róttækra aðgerða og minnki tafarlaust losun gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðarleysi er ekki í boði.

Hamfarahlýnun grefur undan réttindum barna á hverjum einasta degi. Nánast hvert einasta barn í heiminum verður nú fyrir að minnsta kosti einu áfalli af völdum hamfarahlýnunar – loftmengun, hitabylgjur, vatnsskortur, gróðureldar, flóð og ofsaveður setja börn um allan heim í mikla hættu. Um það bil 1 milljarður barna - næstum helmingur allra barna í heiminum - er mjög berskjaldaður vegna hamfarahlýnunar sem ógnar heilsu þeirra, menntun og öryggi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, ‘The Climate Crisis Is a Child Rights Crisis: Introducing the Children’s Climate Risk Indexsem kom út í dag. Þar kynnir UNICEF í fyrsta sinn sérstakan barnamiðaðan loftslagsáhættustuðull (e. child-focused climate risk index) sem er heildræn greining á þeim áhættum sem steðja að börnum vegna hamfarahlýnunar, unnin út frá sjónarhóli barnsins.

 „Í fyrsta sinn höfum við heildarmynd af því hvar og hvernig börn eru viðkvæm fyrir hamfarahlýnun og sú mynd er skelfileg,“  segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. UNICEF kallar eftir því að ríkisstjórnir og fyrirtæki heimsins grípi til róttækra aðgerða og minnki tafarlaust losun gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðarleysi er ekki í boði.

Aðgerðir strax!

Börn bera enga ábyrgð á hækkandi hitastigi á heimsvísu en það eru þau sem munu bera mestan skaða af. Í skýrslunni er löndum heimsins raðað eftir því hvar mesta hættan er á því að börn verði fyrir loftslags- og umhverfisáföllum og áhættan borin saman við aðgengi þeirra er að nauðsynlegri þjónustu.

Í efstu sætum listans eru 33 lönd sem flokkast undir „mjög mikla hættu“ og búa þar um 1 milljarður barna. Þetta eru til að mynda börn í Miðafríkulýðveldinu, Tsjad, Afganistan, Bangladess, Jemen, Haítí og Nígeríu. Þessi börn standa frammi fyrir banvænni blöndu af margvíslegum áföllum og miklu varnarleysi vegna skorts á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, heilsugæslu og menntun. Niðurstöður skýrslunnar endurspegla fjölda þeirra barna sem eru í hættu í dag en sú tala mun að öllum líkindum hækka eftir því sem áhrif hamfarahlýnunar verða meiri. Ísland er í neðsta sæti listans þar sem áhættan er talin lítil og almennt gott aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Skýrslan er unnin í samvinnu við Fridays for Future sem eru samtök ungra umhverfissinna um allan heim, meðal annars á Íslandi, sprottin upp frá loftslagsverkfalli Gretu Thunberg frá Svíþjóð.

Í yfirlýsingu frá hópnum segir meðal annars: „Það er verið að eyðileggja framtíð okkar, brjóta á réttindum okkar og kröfur okkar eru hunsaðar. Í stað þess að búa við öryggi og ganga í skóla standa börn frammi fyrir hungursneyð, átökum og banvænum sjúkdómum vegna loftslags- og umhverfisáfalla. Þessi áföll festa yngsta, fátækasta og viðkvæmasta hóp barna í vítahring fátæktar sem gerir það enn erfiðara fyrir þau að jafna sig þegar næsti skógareldur kviknar eða fellibylur skellur á.“

UNICEF sendir ákall til ríkisstjórna heimsins

Í þrjú ár hafa börn og ungmenni um allan heim staðið upp og krafist aðgerða með vikulegum loftslagsverkföllum. „Það eru komin þrjú ár síðan skólaverkföllin byrjuðu og síðan þá hafa milljónir barna tekið þátt í baráttunni, til að berjast fyrir öruggri framtíð og öruggri nútíð. Eins og niðurstöður þessarar skýrslu sýna, eitthvað sem við vitum nú þegar, er að börn eru þau sem verða fyrir mestum áhrifum vegna loftslagskrísunnar og það eru þau sem munu þjást hvað mest jafnvel þó að við berum ekki ábyrgðina. En við erum ekki bara fórnarlömb, við erum þau sem leiða baráttuna, en við þurfum ykkar hjálp,  “ sagði Greta Thunberg meðal annars á blaðamannafundi við útgáfu skýrslunnar.

UNICEF styður ákall Fridays for Future um aðgerðir og hvetur stjórnvöld og fyrirtæki til að hlusta á börn, forgangsraða aðgerðum sem vernda þau gegn áföllum og draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Með skýrslunni sendir UNICEF ákall til stjórnvalda, atvinnulífsins og annarra hlutaðeigandi aðila:

  1. Auka fjárfestingu til loftslagsaðgerða: Til þess að vernda börn, samfélög og þá hópa sem eru viðkæmastir fyrir áhrifum hamfarahlýnunar þá verður að aðlaga mikilvæga þjónustu að þeim breytingum sem eru óhjákvæmilegar, þar á meðal vatns- og hreinlætiskerfi, heilbrigðisþjónustu og skóla.
  2. Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda: Til þess að afstýra verstu áhrifum hamfarahlýnunar þarf yfirgripsmiklar og brýnar aðgerðir. Lönd verða að skuldbinda sig til að minnka losun sina um að minnsta kosti 45% fyrir árið 2030 til þess að  koma í veg fyrir að hitastig hækki um meira en 1,5 gráður.
  3. Veita börnum fræðslu um loftslagsmál sem er gagnleg fyrir aðlögun þeirra og undirbúning undir áhrif loftslagsbreytinga. Börn og ungmenni munu þurfa að kljást við hinar hrikalegu afleiðingar hamfarahlýnunar og vatnsóöryggis þó að þau beri minnsta ábyrgð. Okkur ber skylda til að hjálpa öllum börnum og komandi kynslóðum.
  4. Tryggja þátttöku ungmenna í öllum innlendum og alþjóðlegum lofstlagsviðræðum og ákvörðunum, þar með talið á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26). Börn og ungmenni verða að vera þátttakendur í öllum ákörðunum er snúa að loftslagsmálum.  
  5. Tryggja sjálfbæra og jafna uppbyggingu eftir COVID-19 svo að hæfni komandi kynslóða til að takast á við og bregðast við hamfarahlýnun verði ekki skert.

UNICEF er til staðar fyrir börn um allan heim. Það er með hjálp Heimsforeldra sem við getum tryggt börnum í viðkvæmri stöðu hreint vatn, hreinlætisaðstöðu, næringu og vatn og sett upp barnvæn svæði eftir náttúruhamfarir svo nokkuð sé nefnt. Ljóst er að mikið verk er framundan til að bregðast við auknum áföllum af völdum hamfarahlýnunar.

Skýrsluna í heild má lesa hér og hægt er að skoða tölfræðina hér.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn