03. september 2021

Hamfarirnar á Haítí: Skortur á hreinu vatni ógnar hálfri milljón barna

Skortur á skjóli, hreinu vatni og hreinlætisvörum ógnar nú velferð um 540 þúsund barna á suðvesturströnd Haítí í kjölfar jarðskjálftans stóra sem skók eyjuna í síðasta mánuði.

3. september 2021 Skortur á skjóli, hreinu vatni og hreinlætisvörum ógnar nú velferð um 540 þúsund barna á suðvesturströnd Haítí í kjölfar jarðskjálftans stóra sem skók eyjuna í síðasta mánuði. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varar við að vatnsbornir sjúkdómar á borð kóleru, malaríu, auk niðurgangs og öndunarfærasýkinga eigi nú greiða leið að börnum og fjölskyldum þeirra vegna ástandsins sem skapast hefur í kjölfar hamfaranna.

„Lífi þúsunda barna og fjölskyldna þeirra á jarðskjálftasvæðunum er nú ógnað af því að þau hafa ekki aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu,“ segir Bruno Maes, fulltrúi UNICEF á Haítí, í tilkynningu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. „Engin kólerusmit höfðu verið tilkynnt á Haítí síðan í febrúar 2019 en við óttumst að án tafarlausra aðgerða aukist ógnin á alvarlegum faraldri með degi hverjum.“

Fyrir jarðskjálftann hafði aðeins um helmingur heilbrigðisstofnana þeirra svæða sem verst urðu úti aðgengi að vatni. Í kjölfar jarðskjálftans hefur nærri 60 prósent almennings á þessum svæðum ekki aðgengi að hreinu vatni. Þúsundir sem misstu heimili sín í skjálftanum hafa ekki aðgengi að hreinlætisaðstöðu.

UNICEF vinnur hörðum höndum að úrbótum á þessu í samstarfi við stjórnvöld og samstarfsaðila á Haítí. Þetta hefur áunnist:

  • 73.600 manns hafa fengið aðgengi að hreinu vatni.
  • 35.200 manns hafa notið góðs af dreifingu hjálpargagna á borð við vatnshreinsitaflna, sápu, vatnstanka, handþvottastöðva og dömubinda.

Viku eftir jarðskjálftann sendi UNICEF tugi þúsunda vatnshreinsitaflna, tugi vatnsgeymslutækja, þrjár vatnshreinsistöðvar og fjölmarga hreinlætispakka til Haítí, auk þess að panta á fjórða tug þúsunda til viðbótar. UNICEF, sem er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem náð hefur að tryggja hreint drykkjarvatn á hamfararsvæðum, stefnir á að ná til 500 þúsund manns með hreinlætisvöruaðstoð, svokallað WASH (sem stendur fyrir Water, Sanitation and Hygiene).

Tryggja þarf öryggi mannúðarsamtaka

„Við gerum okkar allra besta að tryggja fólki hreint drykkjarvatn en neyðin er mikil og enn er mikið starf fyrir höndum,“ segir Maes. „Almenningur upplifir sig afskiptan og höfum við upplifað aukna gremju meðal íbúa sem er skiljanlegt. En það hjálpar ekki að hindra hjálparstarf. Undanfarna daga hefur þurft að stöðva tímabundið dreifingu á nauðsynlegum hreinlætisvörum vegna ólgu á vettvangi. Skortur á fjárhagslegum stuðningi í bland ótryggt ástand á vettvangi hefur því miður hægt á neyðaraðgerðum,“ bætir Maes við.

UNICEF hefur biðlað til stjórnvalda á þessum svæðum að tryggja öryggi og starfsaðstæður mannúðarsamtaka og setja neyðarastoð í forgang.

Jarðskjálftinn, sem varð 14. ágúst síðastliðinn, hefur enn frekar aukið á viðvarandi vandamál á Haítí þar sem pólitískur óstöðugleiki, efnahagsvandamál, takmarkað fæðuöryggi, vannæring og glæpir hafa leikið þjóðina grátt.

UNICEF hafði áætlað að fyrir árið 2021 þyrfti um 49 milljónir dala, eða sem nemur um 6,2, milljörðum króna, til að veita grunnþjónustu á Haítí en nú gera áætlanir ráð fyrir að aukalega vanti rúmar 73 milljónir dala nú til að bregðast við afleiðingum jarðskjálftans. Sem stendur hefur innan við 1 prósent af þeirri upphæð safnast.

UNICEF biðlar til alþjóðasamfélagsins að auka fjárveitingar til neyðarstarfsins á Haítí.

Það er meðal annars með hjálp Heimsforeldra sem UNICEF getur brugðist hratt við þegar neyðarástand skapast líkt og á Haítí og verið til staðar fyrir börn og fjölskyldur þeirra hvar sem er í heiminum. Þú getur skráð þig sem Heimsforeldri UNICEF hér.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn