26. janúar 2021

Ofsaveður ógnar lífi barna í Mósambík

Einungis tæpum tveimur árum eftir að fellibylirnir Idai og Kenneth ollu gífurlegri eyðileggingu í Mósambík eru börn enn á ný í hættu eftir að fellibylurinn Eloise gekk á land um helgina. UNICEF er á staðnum og tekur þátt í neyðaraðgerðum.

Einungis tæpum tveimur árum eftir að fellibylirnir Idai og Kenneth ollu gífurlegri eyðileggingu í Mósambík eru börn enn á ný í hættu eftir að fellibylurinn Eloise gekk á land um helgina. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlar að um 90 þúsund börn þurfi á neyðaraðstoð að halda og að hætta sé á útbreiðslu vatnsborinna smitsjúkdóma á borð við kóleru og niðurgangspestir.

Fellibylurinn Eloise gekk yfir sama svæði og eyðilagðist árið 2019, þar á meðal í hafnarborgina Beira þar sem íbúar eru enn í sárum. Þúsundir heimila, auk heilsugæslustöðva, skóla og uppskeru skemmdust í þeim miklu flóðum sem fylgdu í gjölfar óveðursins og mörg börn og fjölskyldur eru nú á vergangi. UNICEF er á staðnum og hefur þegar hafið neyðaraðgerðir. Í forgangi er að tryggja öryggi og heilsu barna og útdeila vatnshreinsitöflum, hreinlætisvörum, grímum og mat.

Börn bera hitann og þungann af áhrifum loftslagsbreytinga

„Fyrir tæpum tveimur árum sá ég af eigin raun skelfilegar afleiðingar fellibylsins Idai á börn og fjölskyldur í mið-Mósambik – afleiðingar sem halda áfram að hafa áhrif í dag,“ sagði Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Þessi nýjasti stormur sýnir okkur það að börn halda áfram að bera hitann og þungann af ofsaveðri af völdum loftslagsbreytinga. Við þurfum að taka aðgerðir í loftslagsmálum alvarlega og fjárfesta í aðgerðum til að styrkja viðkvæm samfélög,“ segir Fore.

Náttúruhamfarir á borð við mikla storma, þurrka of flóð eru orðnar tíðar í Mósambík. Á sama tíma glímir landið við átök í mið- og norðurhlutanum sem hafa hrakið meira en hálfa milljón íbúa á flótta. Þessi endurteknu áföll gefa fjölskyldum fá tækifæri til þess að jafna sig, sérstaklega þær fjölskyldur sem nú þegar lifa undir fátæktarmörkum.

Stuðningur frá Heimsfreldrum og þeim fjölmörgu einstaklingum sem studdu neyðaraðgerðir UNICEF í kjölfar Idai og Kenneth fyrir tveimur árum gerði okkur kleift að bregðast við hamförunum, koma í veg fyrir skæðan kólerufaraldur með hreinu drykkjarvatni og bólusetningum og bregðast við fæðuóöryggi og vannæringu. Þökk sé stuðningi Heimsforeldra voru hjálpargögn nú þegar á svæðinu áður en fellibylurinn Eloise gekk á land, en ljóst er að mikil uppbygging er framundan. Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF á hamfarasvæðum líkt og í Mósambík í gegnum neyðarsjóð UNICEF hér.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn