Persónuvernd

Persónuverndarstefna

UNICEF á Íslandi

Allt okkar starf byggir á trausti og því leggjum við mikla áherslu á að gæta upplýsinganna þinna með öruggum og ábyrgum hætti. Í persónuverndarstefnu okkar hér að neðan má lesa um hvernig og hvers vegna við öflum, notum og geymum persónuupplýsingar.

Meðferð persónuupplýsinga

UNICEF á Íslandi vinnur að því að bæta hag barna um allan heim, og gerir það með ómetanlegum stuðningi fyrirtækja og einstaklinga hér á landi. Allt okkar starf byggir á trausti og því leggjum við mikla áherslu á að gæta upplýsinganna þinna með öruggum og ábyrgum hætti. Í persónuverndarstefnu okkar hér að neðan má lesa um hvernig og hvers vegna við öflum, notum og geymum persónuupplýsingar. Það getur komið fyrir að stefnan verði uppfærð svo við hvetjum þig til að kíkja á hana með reglulegu millibili.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða athugasemdir varðandi meðferð persónuupplýsinga hvetjum við þig til að hafa samband við okkur í síma 562-6262, senda tölvupóst á unicef@unicef.is eða koma til okkar á skrifstofuna að Strandgötu 75, Hafnarfirði. Skrifstofa UNICEF á Íslandi er opin alla virka daga á milli 9 og 15.

Hver erum við?

UNICEF á Íslandi eru frjáls félagasamtök og allt okkar starf byggist á frjálsum framlögum. Meirihluti framlaganna kemur frá einstaklingum, svokölluðum heimsforeldrum, sem styrkja baráttu UNICEF fyrir börn með mánaðarlegum framlögum.  Í ársskýrslunni okkar má fræðast um það hvernig við söfnum og notum framlögin.

Hvernig söfnum við upplýsingum?

Söfnun upplýsinga er nauðsynleg til að tryggja að við getum tekið við frjálsum framlögum einstaklinga og veitt reglulegar upplýsingar af starfi okkar og í hvað framlögin fara. Með því að veita okkur persónuupplýsingar, til dæmis í gegnum síma, tölvupóst, heimasíðu eða samfélagsmiðla, gefur þú samþykki þitt fyrir söfnun og notkun á upplýsingunum í samræmi við þessa stefnu. Upplýsingarnar hjálpa okkur að vinna á eins skilvirkan hátt og völ er á og tryggja að samskipti við okkar stuðningsaðila séu viðeigandi og sérsniðin að þeim. Við gætum safnað upplýsingum með eftirfarandi leiðum:

 • Þegar þú átt samskipti við okkur, í gegnum síma, tölvupóst, heimasíðu eða samfélagsmiðla eins og t.d með því að skrá þig sem heimsforeldri, gefur frjálst framlag í neyðarsöfnun, eða skráir þig á póstlista hjá okkur. Með því að veita okkur persónuupplýsingar samþykkir þú notkun þeirra upplýsinga í samræmi við þessa stefnu;
 • Þegar þú átt samskipti við þriðja aðila, svo sem með því að gefa framlag á vefsíðu þriðja aðila og veitir leyfi fyrir því að upplýsingum sé deilt með okkur;
 • Opinberar upplýsingar, eins og nafn og símanúmer eins og það er skráð í opinberum gagnagrunni, gætum við notað til að kynna starf UNICEF. Við höfum aldrei samband við bannmerkta í þjóðskrá nema samþykki hafi verið gefið fyrir því í samræmi við þessa stefnu.

Upplýsingar sem við söfnum

Upplýsingarnar sem við söfnum ráðast af því hvernig samskipti þú átt við okkur. Þegar þú t.d skráir þig sem heimsforeldri skráum við í flestum tilfellum nafnið þitt, heimilisfang, netfang, símanúmer, fæðingardag, kyn (þegar það er viðeigandi) og bankaupplýsingar. Við gerum þetta til þess að taka við mánaðarlegri gjöf þinni og til þess að veita þér reglulegar upplýsingar um í hvað framlögin þín fara. Þú getur alltaf kosið að við höfum ekki samband við þig.

Hvernig notum við

upplýsingarnar þínar?

Tilgangur upplýsingaöflunar okkar er að styðja við baráttu UNICEF fyrir öll börn og bæta samskipti við okkar stuðningsaðila. Við gætum haft samband við þig með bréfpósti, síma, tölvupósti eða SMS-i. Þú getur hvenær sem er gert breytingar á því hvernig samskipti þú átt við okkur eða óskað eftir því að við eigum ekki samskipti við þig, einfaldlega með því að hafa samband við þjónustuverið okkar.

Þær upplýsingar sem þú veitir okkur getum við meðal annars notað til þess að:

 • Senda þér upplýsingar sem þú hefur óskað eftir;
 • Taka við framlagi þínu og staðfesta eða breyta greiðsluupplýsingum;
 • Athuga hvort við getum veitt þér aðstoð eða leyst vandamál sem þú hefur rekist á, til dæmis á heimasíðunni okkar;
 • Ganga frá pöntunum, afhenda vörur og eiga samskipti við þig um pantanir, til dæmis þegar þú kaupir Sannar gjafir eða minningakort;
 • Deila með þér upplýsingum um baráttu okkar fyrir börn, þau áhrif sem þinn stuðningur hefur og hvernig er hægt að hjálpa frekar;
 • Til þess að kanna áhuga þinn á þátttöku í könnun eða rannsókn;
 • Til að betur sníða samskiptaefni okkar og vefsíðu að okkar stuðningsaðilum og veita þannig persónulega þjónustu;
 • Til þess að vinna úr starfsnemaumsóknum eða starfsumsóknum.

Með hverjum deilum við upplýsingum?

Við kaupum þjónustu frá samstarfsaðilum og þjónustuveitendum til að geyma gögn og persónuupplýsingar með öruggum hætti. Hér er til dæmis átt við hýsingu á vefsíðu og vefverslun, greiðsluþjónustu, þjónustu við gagnagrunn og samskiptakerfi. 

Þessir samstarfsaðilar starfa eftir kröfum okkar og fyrirmælum um öryggi þitt og munu ekki nota upplýsingarnar þínar í eigin tilgangi. Við leggjum áherslu á að tryggja öryggi upplýsinga þinna og við munum aldrei selja upplýsingar þínar til annarra stofnana eða fyrirtækja.

Við notfærum okkur þjónustu Facebook, Instagram, Twitter og YouTube fyrir stafræna markaðssetningu. Ef þú vilt ekki sjá sérsniðnar auglýsingar frá okkur á samfélagsmiðlum ráðleggjum við þér að fylgja leiðbeiningum viðkomandi vefsíðna eða forrita, svo sem á FacebookTwitterInstagram og Google.

Ef þú hefur gefið upp greiðsluupplýsingar, s.s. kreditkortanúmer eða númer bankareiknings, til þess að skrá þig sem heimsforeldri, gefa frjálst framlag eða versla Sannar gjafir eða minningarkort, þá þarf UNICEF á Íslandi að miðla þeim upplýsingum til banka eða kortafyrirtækis sem annast greiðslumiðlun til þess að geta gengið frá greiðslu þinni. Með því að veita okkur þessar greiðsluupplýsingar gefur þú samþykki þitt fyrir því. Sá starfsmaður UNICEF á Íslandi sem hefur aðgang að slíkum upplýsingum skilur mikilvægi þess að tryggja öryggi þeirra á öllum stundum, fær þjálfun í því og starfar eftir skýrum verkferlum.

UNICEF á Íslandi lútar að sjálfsögðu lögum og reglum hverju sinni. Komi upp dæmi um ólögmæta háttsemi, gætum við þurft að deila persónuupplýsingum með viðeigandi aðilum, til að vernda hagsmuni þína og UNICEF á Íslandi.

Við tryggjum öryggi upplýsinganna þinna

Við göngum úr skugga um að viðeigandi öryggisráðstafanir séu til staðar er kemur að geymslu persónuupplýsinga sem þú velur að deila með okkur. Allt starfsfólk UNICEF á Íslandi sem hefur aðgang að persónuupplýsingum skilur mikilvægi þess að tryggja öryggi þeirra á öllum stundum, fær þjálfun í því og vinnur eftir skýrum verkferlum. Við tryggjum að viðbótar öryggisráðstafanir séu til staðar fyrir fjárhagslegar og viðkvæmar upplýsingar og uppfyllum reglubundnar og lagalegar kröfur um hvernig fara á með slíkar upplýsingar.

Hversu lengi geymum við upplýsingarnar þínar?

Við geymum persónuupplýsingarnar þínar eins lengi og nauðsynlegt er fyrir starfsemi UNICEF á Íslandi og samskipti okkar við stuðningsaðila. Við geymum upplýsingar um þig til þess að geta veitt þér þá þjónustu, vörur og upplýsingar sem þú hefur beðið um, til þess að eiga viðeigandi samskipti við þig og til að tryggja að við höfum ekki samband við þig ef þú hefur beðið okkur um að gera það ekki og til þess að geta fylgt lögum og reglum.  Þú getur alltaf beðið um að slíkum samskiptum sé hætt eða upplýsingum eytt.

Þú getur óskað eftir afriti af þeim persónuupplýsingum sem við geymum um þig á grundvelli 18. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Vinsamlegast sendu lýsingu á þeim upplýsingum sem þú vilt óska eftir ásamt staðfestingu á auðkenni þínu á skrifstofuna að Strandgötu 75, Hafnarfirði. Skrifstofan er opin alla virka daga á milli 9 og 16.

Viltu gera breytingar á

samskiptum þínum við okkur?

Við viljum að þú sért ánægð/ur með samskipti þín við okkur. Ef þú vilt breyta því hvernig þú heyrir frá okkur eða uppfæra upplýsingar um þig hvetjum við þig til að hafa samband. Þú getur breytt því hvernig við höfum samband við þig á eftirfarandi hátt:

 • Með því að smella á „afskrá af póstlista“ í tölvupósti frá okkur og hætta að fá tölvupósta;
 • Senda okkur skilaboð í gegnum heimasíðu;
 • Með því að hafa samband við þjónustuverið okkar í síma 562-6262, senda tölvupóst á unicef@unicef.is eða koma til okkar á skrifstofuna að Strandgötu 75, Hafnarfirði.

Ef þú tilkynnir okkur að þú viljir ekki lengur heyra frá okkur í markaðslegum tilgangi skaltu hafa í huga að við gætum samt haft samband við þig vegna annarra atriða, svo sem vegna framlaga sem þú gefur UNICEF á Íslandi eða til að senda þér upplýsingar sem þú hefur óskað eftir.

Hvað ef ég er undir 18 ára aldri?

Ef þú ert yngri en átján ára skaltu ganga úr skugga um að þú hafir leyfi foreldra eða forráðamanna áður en þú veitir persónuupplýsingar á vefsíðunni okkar.

Breytingar á stefnunni

Stefnan var síðast uppfærð í apríl 2022. Við gætum gert breytingar á stefnunni eftir þörfum og við hvetjum þig því til að lesa hana reglulega. Uppfærð stefna gildir frá því að hún er birt á síðunni og stýrir meðferð persónuupplýsinga framvegis.