Réttindaskóli og -frístund UNICEF

Réttindaskóli UNICEF (e. Child Right Schools) er hugmyndafræði og hagnýtt verkefni fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálanum eins og hann er iðulega nefndur, og miðar að því að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna verkefnið leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfi sínu; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum.  

Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annars starfsfólks.  

Fjöldi Réttindaskóla UNICEF eru starfræktur víðsvegar um heiminn en UNICEF aðlagar verkefnið hverju landi fyrir sig. Fyrstu Réttindaskólarnir á Íslandi hlutu viðurkenningu árið 2017 og þeim fer hratt fjölgandi.  

Fimm mælanleg langtímamarkmið Réttindaskóla UNICEF eru:
  • Aukin þekking á mannréttindum – starfsfólk og börn auka þekkingu sína á réttindumbarna.
  • Lýðræði – börn fá reglubundin tækifæri til þess að taka þátt í ákvarðanatöku.
  • Eldmóður fyrir mannréttindum – börn eru hvött til þess að beita sér fyrir réttindum sínum og annara.
  • Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi – stjórnendur vinna með markvissum hætti að því að gera sáttmálann að viðmiði í stjórnsýslu skóla- og frístundastarfs.
  • Samstarf – samstarf skóla við alla sem koma að uppeldi barnsins með það að markmiði að raungera réttindi barnsins.

Í Réttindaskólum UNICEF notum við hugtakið heildarskólanálgun (e. Whole School Approach) til þess að skýra hugmyndafræði verkefnisins, en hún skiptist í fjögur skref sem lýsa heildrænni nálgun á innleiðingu réttinda barna í skólastarfið.   

  • Fyrsta skref er að börnin njóti þeirra réttinda að mennta sig. AÐ LÆRA ERU RÉTTINDI 
  • Skref tvö er að börn og fullorðin þekki og læri um réttindi barna. AÐ LÆRA UM RÉTTINDI 
  • Í skrefi þrjú læra börn um réttindi sín í umhverfi sem styður við réttindi þeirra. AÐ LÆRA Í RÉTTINDAUMHVERFI 
  • Lokaskrefið er að börn iðki réttindi fyrir sig sjálf og aðra. AÐ LÆRA AÐ IÐKA RÉTTINDI 

Hvernig virkar verkefnið?

Í Réttindaskóla og -frístund er unnið markvisst að einum af grunnþáttum íslenskrar menntunar, lýðræði og mannréttindi. Áhersla er lögð á mannréttindafræðslu fyrir jafnt börn og fullorðna, og að börn búi sig undir að verða virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Með innleiðingu Réttindaskóla og -frístundar felast mörg tækifæri til að vefa mannréttindi og lýðræði inn í starfið og styrkja þannig samspil á milli aðalnámskrár, skóla og frístundastarfs.

Innleiðingarhringurinn felur í sér átta skref; að byggja upp grunninn; stöðumat; aðgerðaráætlun; innleiðingu; úttekt; viðurkenningu; úttekt; og fræðslu í gegnum allt ferlið. Skrefin leiða þátttakendur í gegnum hvern hluta innleiðingarinnar með skýrum leiðbeiningum og gátlistum. Þegar fyrsta hring er lokið hefst sá næsti og svo koll af kolli.

Að byggja upp grunninn

Byggja þarf góðan grunn undir verkefnið áður en sótt er um. Stjórnendur tryggja góða kynningu á verkefninu meðal starfsfólks og að vilji sé til þess að vinna að verkefninu. Til þess er m.a. hægt að nýta kynningarefni frá UNICEF, bóka kynningu og leggja fyrir könnun meðal starfsfólks.

Innleiðing verkefnisins gerir ráð fyrir samstarfi skóla, frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar. Því er mikilvægt að stjórnendur sæki í sameiningu um þátttöku í verkefninu. Þá þarf að skipa umsjónarmenn verkefnisins og tryggja að þeir hafi nægan tíma til þess að sinna því. Þá er skipað í eitt sameiginlegt réttindaráð með börnum úr öllum árgöngum.

Stöðumat

Stöðumat er könnun á þekkingu barna og starfsfólks á réttindum barna, ásamt öryggis- og aðgengiskönnununum sem börn gera í skólanum, í frístundaheiminu og félagsmiðstöðinni. Stöðumatið kannar þekkingu og aðstæður við upphaf verkefnisins og er svo endurtekið áður en viðurkenning er veitt. Stöðumatið er jafnframt grundvöllur fyrir umræðu og ákvarðanir í tengslum við aðgerðaáætlun sem er á forræði réttindaráðs.

Aðgerðaáætlun

Aðgerðaáætlun er unnin af réttindaráði í samstarfi við stjórnendur skólans. Áætlunin endurspeglar niðurstöður stöðumatsins og forgangsraðar réttindaráðið verkefnum og viðburðum og skipar ábyrgðaraðila. Stjórnendur skóla- og frístundastarfs bera höfuðábyrgð á að fylgja aðgerðaáætluninni eftir.

Réttindaráðið setur saman auðlesna útgáfu af áætluninni og kynnir fyrir öllum börnum skólans. Gott er að setja auðlesna útgáfu á heimasíðu og hafa sýnilega innanhúss.

Innleiðing

Á þessu stigi er aðgerðaáætluninni komið í framkvæmd og öllum aðgerðum lokið áður en til úttektar á verkefninu kemur. Stjórnendur, í samstarfi við réttindaráð, tryggja að upplýsingar um framkvæmdina séu kynntar fyrir börnum og starfsfólki. Í Réttindaskóla- og frístund fá allir tækifæri til að tjá sig og láta í sér heyra. Börn vita hvert þau geta leitað ef eitthvað er ekki eins og það á að vera, og fullorðnir eru til staðar, hlusta og taka tillit til viðhorfa barna.

Jafnréttisáætlun þarf að vera til staðar og vel kynnt, ásamt eineltisáætlun.

Úttekt

Þegar skóli, frístundaheimili og/eða félagsmiðstöð eru tilbúin að sækja um viðurkenningu er stöðumat endurtekið og réttindaráð skilar greinargerð um framkvæmd verkefnisins til UNICEF. Þegar öruggt þykir að skóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð fái viðurkenningu er úttektarheimssókn skipulögð.
Í úttektarheimsókn tekur starfsfólk UNICEF viðtöl við börn úr réttindaráði, umsjónarmenn, stjórnendur, starfsfólk og stjórnendur um framkvæmd verkefnisins. Eftir úttekt skilar starfsfólk UNICEF greinargerð um verkefnið með gagnlegum ábendingum sem nýtast í áframhaldinu.

Viðurkenning

Vúhú! Eftir úttekt eru skóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð viðurkennd sem Réttindaskóli og -frístund.

Viðurkenningarathafnir eru haldnar í kringum alþjóðadag barna 20. nóvember ár hvert. Viðurkenningin er gild í þrjú ár og geta skólar, félagsmiðstöðvar og frístundaheimili sótt um endurmat á viðurkenningunni.

Endurmat

Á þriggja ára fresti geta skóli, frístundaheimili og/eða félagsmiðstöð sótt um endurmat á viðurkenningunni sem Réttindaskóli og -frístund. Endurmatið byggir á sama ferli og áður, réttindafræðslu, seinna stöðumatinu, aðgerðaráætlun sem byggir á stöðumati, framkvæmd og úttekt.

Með aukinni fræðslu, æfingu og auknu lýðræði innan skólans og frístundar ættu réttindi barna að verða að leiðarljósi í allri starfsemi með aukinni þekkingu á réttindum barna, meira lýðræði, eldmóði fyrir réttindum barna, virðingu fyrir réttindum í daglegu starfi og auknu samstarfi.