13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða

Hlutfall barna sem láta lífið fyrir fimm ára aldur lækkað um 51% á heimsvísu frá árinu 2000 og aldrei færri en árið 2022 – Árangurinn gefur von, en enn láta of mörg börn lífið á hverju ári

Hin fjögurra ára gamla Aitano Valentina með heilsufarsbók sína eftir að hafa fengið bólusetningu gegn m.a. mænusótt á Roosevelt barnasjúkrahúsinu í Guatemala borg. Mynd/UNICEF

Fleiri börn eru að lifa af fyrstu fimm ár ævi sinnar en nokkru sinni fyrr og hefur dánartíðni barna undir fimm ára aldri í heiminum dregist saman um 51% frá árinu 2000. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu samræmingarhóps Sameinuðu þjóðanna um málefnið, United Nations Inter-Agency Group for Child Mortality Estimation (UN IGME).

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir að baki þessum árangri séu sögur ljósmæðra og annars heilbrigðisstarfsfólks sem taki á móti börnum, veiti þeim þá grunnþjónustu sem þau þurfa á að halda, bólusetningar gegn hættulegum sjúkdómum og mæðrum og fjölskyldum nauðsynlegan stuðning og fræðslu.

„Með áratugaskuldbindingu einstaklinga, samfélaga og þjóða að ná til barna með ódýrri, góðri og árangursríkri heilbrigðisþjónustu höfum við sýnt fram á að þekking og geta til að bjarga lífum er til staðar,“ segir Russell í tilkynningu vegna hinnar nýútkomnu skýrslu.

4,9 milljónir létu lífið árið 2022

Þó mikill árangur hafi náðst og þróunin síðustu áratugi gefi von í baráttunni gegn dauðsföllum barna sem hægt er að koma í veg fyrir með aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu, þá er tala látinna barna enn allt of há. 4,9 milljónir barna, fimm ára og yngri, létu lífið árið 2022, eða sem nemur einu barni á sex sekúndna fresti. En víða hefur árangurinn sannarlega verið eftirtektarverður.

Í mörgum lág- og millitekjuríkjum hefur hlutfallið lækkað enn meira en um þessi 51% frá aldamótum. Í Kambódíu, Malaví, Mongólíu og Rúanda hefur barnadauði dregist saman um 75% frá árinu 2000 sem sýnir vel hversu góðum árangri má ná þegar nægu fjármagni er veitt til að veita grunnheilbrigðisþjónustu til að tryggja velferð og réttindi barna.

Og fyrir liggur að hægt er að koma í veg fyrir meirihluta þessa dauðsfalla, sem rekja má til meðal annars fyrirburafæðinga, vandkvæða í fæðingu, lungnabólgu, niðurgangspesta og malaríu. Mörgum lífum má bjarga með bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og bólusetningum.

„Á sama tíma og við tökum þessum árangri fagnandi þá þurfa milljónir fjölskyldna að þjást á hverju ári vegna barnsmissis, oft á fyrstu dögum eftir fæðingu,“ segir Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í tilkynningunni. „Hvar barn fæðist í heiminum á ekki að hafa áhrif á hvort það lifir eða deyr. Það er nauðsynlegt að bæta aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu fyrir hverja einustu konu og barn, líka í neyðartilfellum og á afskekktum svæðum.“ 

Það að bæta aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu og bjarga börnum frá sjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir útheimtir fjárfestingu í menntun, störfum og betri starfsskilyrðum heilbrigðisstarfsfólks. Rannsóknir sýna að ef börn og fjölskyldur hafa aðgengi að úrræðum í nærsamfélögum sínum megi draga verulega úr barnadauða. Milljónum lífa mætti bjarga með því að veita þeim þjónustu nær heimili sínu. Þörf er á samþættri stjórnun á meðhöndlun barnasjúkdóma– sérstaklega helstu dánarorsaka nýbura eins og öndunarfærasýkinga, niðurgangs og malaríu– til að bæta heilsu, velferð og afkomu barna.

Margar ógnir og Heimsmarkmið í hættu

Í tilkynningu UN IGME segir að þrátt fyrir að alþjóðlega megi greina jákvæða þróun þá sé afkomu barna víða ógnað. Helstu ógnir séu aukinn ójöfnuður og efnahagslegur óstöðugleiki, ný og langdregin stríðsátök, aukin skaðleg áhrif loftslagsbreytinga og eftirmálar heimsfaraldurs COVID-19 sem hæglega geti stöðvað eða jafnvel snúið við þessari jákvæðu þróun ef ekkert er að gert.

Börn sem fæðast í efnaminnstu fjölskyldur heims eru tvöfalt líklegri til að deyja fyrir fimm ára aldur en börn efnamestu fjölskyldnanna. Og börn sem búa á átakasvæðum eða við annars konar viðkvæmar aðstæður eru þrefalt líklegri til að deyja fyrir fimm ára afmæli sitt en börn sem fæðast annars staðar. 

Eins og staðan er núna munu 59 ríki ekki ná markmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um dánarlíkur barna undir fimm ár aldri og 64 ríki ekki ná markmiðunum varðandi dánarlíkur nýbura. Með sama áframhaldi megi því áætla að 35 milljónir barna undir fimm ára muni láta lífið fyrir árið 2030. Meirihlutinn frá Afríkuríkjum neðan Sahara og Suður-Asíu.

Nálgast má skýrsluna og gögn í heild sinni hér.

Um UN IGME

Var stofnað árið 2004 til að taka saman, halda utan um, bæta og deila gögnum um dánartíðni barna í heiminum. Hópurinn er leiddur af UNICEF en meðlimir eru einnig WHO, The World Bank Group og Population Division of the United Nations Department of Economic and Social Affairs.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn