13. júní 2024

Þúsund dagar af brotum gegn rétti stúlkna til náms í Afganistan

Yfirlýsing frá Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Hin 16 ára gamla Zainab lærir ensku heima hjá sér. Hún hefur ekki mátt stunda nám í þrjú ár núna en hún var í sjöunda bekk þegar bann við námi stúlkna var sett á í Afganistan. Mynd/UNICEF

Eitt þúsund dagar eru nú síðan tilkynnt var að stúlkum í Afganistan yrði bannað að stunda nám á unglingastigi. Framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir þetta sorgleg tímamót og skýrt brot á réttindum barna til náms en þetta jafngildir því að 1,5 milljónir stúlkna í landinu hafi verið sviptar alls þremur milljörðum námsstunda á þessu tímabili.

„Þetta er ekki aðeins klárt brot gegn réttindum stúlkna til náms heldur takmarkar þetta einnig tækifæri þeirra í framtíðinni og hefur skaðleg áhrif á andlega heilsu þeirra,“ segir Russell í yfirlýsingu sinni.

„Réttindi barna, og þá sérstaklega stúlkna, mega aldrei vera í gíslingu stjórnmála. Líf þeirra, framtíð, vonir og draumar hanga í lausu lofti.“

„Áhrif þessa banns ná lengra en til stúlknanna sjálfra. Það gerir illt verra í yfirstandi mannúðarkrísu landsins og hefur alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag og þróunarmarkmið Afganistan.“

Mennt er máttur

„Menntun veitir ekki aðeins aukin tækifæri. Rannsóknir sýna að hún verndar stúlkur fyrir því að ganga í hjónaband á barnsaldri, vannæringu og öðrum heilsuvanda og eykur þrautseigju þeirra til takast á við náttúruhamfarir sem plagað hafa afganska þjóð á borð við flóð, þurrka og jarðskjálfta. Samstarfsfólk mitt hjá UNICEF vinnur hörðum höndum að því að styðja börn í Afganistan. Með samstarfsaðilum tryggjum við grunnnám 2,7 milljóna barna, höldum úti samfélagsmiðuðu námi fyrir 600 þúsund börn – sem þar af eru tveir þriðju hlutar stúlkur– þjálfum kennara og gerum allt sem við getum til að halda innviðum menntakerfisins gangandi.“

„Á þessum hryggilegu tímamótum skora ég á byltingarstjórn landsins að leyfa öllum börnum tafarlaust að halda námi sínu áfram. Ég skora á alþjóðasamfélagið að viðhalda þrýstingi og styðja þessar stúlkur sem þurfa á stuðningi okkar að halda nú sem aldrei fyrr. Engin þjóð getur tekið skref fram á við þegar helmingur íbúa er skilinn eftir,“ segir Russell að lokum.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn