10. janúar 2024

Þúsundir barna heimilislaus eftir eldsvoða í Cox‘s Bazar-búðunum

Cox‘s Bazar er stærstu flóttamannabúðir veraldar þar sem um ein milljón Róhingja heldur til á einu þéttbýlasta svæði jarðar við þröngan kost í viðkvæmum híbýlum. 

Eldurinn kom upp í búðum nr. 5 í Cox's Bazar þar sem Róhingjar halda til. Mynd/UNICEF

Eldur kom upp í Cox‘s Bazar-búðunum fyrir fólk á flótta í Bangladess á sunnudag með þeim afleiðingum að fimm þúsund Róhingjar sem þar búa misstu húsnæði sín. Ríflega 3.500 börn eru meðal þeirra sem misstu heimili sín.

Cox‘s Bazar eru stærstu flóttamannabúðir veraldar þar sem um ein milljón Róhingja heldur til á einu þéttbýlasta svæði jarðar við þröngan kost í viðkvæmum híbýlum. 

Tímabundnar skólastofur settar upp og brugðist við neyð

Sheldon Yett, fulltrúi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Bangladess, hefur fyrir hönd UNICEF vottað öllum þeim fjölskyldum sem misstu heimili sín í eldsvoðanum samúð sína.

„Við erum þakklát fyrir að enn sem komið er hafa engar tilkynningar borist um að fólk hafi látið lífið í eldsvoðanum en á sama tíma þá misstu þúsundir heimili sín og minnst 1.500 börn misstu aðgengi að menntun þar sem 20 skólaaðstöður gjöreyðilögðust. Við vinnum að því að meta umfang skemmdanna en á sama tíma vinnur UNICEF og samstarfsaðilar að því að koma upp tímabundnum skólatjöldum svo hægt sé að tryggja börnum menntun meðan skólastofur þeirra eru endurbyggðar.“ 

Yett segir að UNICEF og samstarfsaðilar leggi sömuleiðis áherslu á að veita börnum og fjölskyldum stuðning í þessu mikla áfalli.

„Við skulum ekki gleyma að þetta eru börn sem hafa þegar flúið ofbeldi og áföll. Náið samstarf við yfirvöld, aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila á svæðinu er því mikilvægt til að tryggja þessum viðkvæma hópi fólks skjól, mæta grunnþörfum og tryggja öryggi þess og velferð.“

Fleiri
fréttir

23. febrúar 2024

Sameiginlegt ákall til stjórnvalda vegna Gaza 
Lesa meira

23. febrúar 2024

Tvö ár af stríði í Úkraínu: Sögulegur stuðningur við neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi
Lesa meira

20. febrúar 2024

Borgarstjóri afhenti styrk frá Reykjavíkurborg fyrir börn á Gaza  
Lesa meira
Fara í fréttasafn