02. október 2017

UNICEF hefur neyðarsöfnun fyrir börn Rohingja sem flýja ofbeldisöldu í Mjanmar

Á síðastliðnum vikum hafa yfir 429 þúsund Rohingjar flúið ofbeldisöldu í Rakhine héraði í Mjanmar og leitað skjóls í Bangladess, þar af um 60% börn. Þúsundir til viðbótar koma örmagna í bátum eða fótgangandi yfir landamærin á hverjum einasta degi. UNICEF er á staðnum til að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í bráðabirgða flóttamannabúðum sem hafa byggst upp á landamærum Bangladess og Mjanmar.

Á síðastliðnum vikum hafa yfir 429 þúsund Rohingjar flúið ofbeldisöldu í Rakhine héraði í Mjanmar og leitað skjóls í Bangladess, þar af um 60% börn. Þúsundir til viðbótar koma örmagna í bátum eða fótgangandi yfir landamærin á hverjum einasta degi. UNICEF er á staðnum til að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í bráðabirgða flóttamannabúðum sem hafa byggst upp á landamærum Bangladess og Mjanmar.

Neyðin er gífurleg og börn eru í hættu. UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun til að veita þessum börnum hjálp og fjöldi fólks hefur lagt henni lið um helgina. Með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 renna 1.500 krónur til neyðaraðgerða UNICEF. Einnig er hægt að styðja neyðarsöfnunina hér.

„Þörfin er yfirþyrmandi, börnin eru hrædd, veik og svöng og þurfa öryggi og vernd. Við hjá UNICEF á Íslandi höfum þegar ákveðið að senda rúmar fimm milljónir til Bangladess, þökk sé stuðningi heimsforeldra, en ljóst er að mikil þörf er fyrir stórauknar neyðaraðgerðir á svæðinu”, segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF áætlar að á milli þrjú og fjögur þúsund börn séu alvarlega vannærð. Þau þurfa að fá meðhöndlun tafarlaust. Meira en þúsund börn eru í mjög viðkvæmri stöðu eftir að hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og eiga á hættu að vera misnotuð.

Starfsfólk UNICEF dreifir nú hjálpargögnum í Cox‘s Bazar í Bangladess þangað sem Rohingjar hafa flúið frá Myanmar á síðustu vikum. Allt kapp er lagt í að ná til vannærða barna og barna sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma.

Rohingjar eru ríkisfangslaus minnihlutahópur múslima sem búa í Rakhine héraði í Mjanmar, rétt við landamæri Bangladess. Þeir hafa í áratugi orðið fyrir mismunun og útskúfun í landinu. Stigvaxandi og öfgafullt ofbeldi gegn Rohingjum síðustu vikur hefur leitt til einnar mestu mannúðarkrísu fyrir börn síðustu ár. Meira en 250.000 börn hafa flúið yfir til Bangladess, en slíkur fjöldi barna á flótta hefur ekki sést þar áður og er meira en ríkisstjórn Bangladess og hjálparstofnanir ráða við án aðstoðar.

Með því að flýja hafa börnin náð að bjarga lífi sínu en ekki bíður þeim mikið betra. “Bráðabirgða flóttamannabúðirnar sem hafa byggst upp í Cox Bazar eru á einu viðkvæmasta svæði Bangladess þar sem flóð og náttúruhamfarir eru algeng. Hætta er á að smitsjúkdómar breiðist hratt út ef ekki er brugðist við strax. Auk þess er mikill skortur á vatni, mat og öruggu skjóli fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Við biðlum því til almennings að hjálpa okkur að veita þessum börnum þá aðstoð sem þau þurfa” segir Bergsteinn.

UNICEF hefur nú þegar sent yfir 100 tonn af hjálpargögnum til Bangladess, meðal annars vatnshreinsitöflur og hreinlætisvörur, veitt börnum sálræna aðstoð og komið vannærðum og veikum börnum undir læknishendur. Auk þess er UNICEF að undirbúa bólusetningarátak gegn mislingum, rauðum hundum og mænusótt sem ná mun til 150.000 barna.

Hægt er að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið UNICEF í nr 1900 (1500 krónur), gefa með kreditkorti hér eða leggja inn á reikning 701-26-102050, kt 481203-2950.

Framlög heimsforeldra hafa einnig runnið til neyðaraðgerða UNICEF fyrir börn á flótta frá Mjanmar.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn