Verklagsreglur

um fjáröflun

Ábyrg fjáröflun

UNICEF hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við treystum eingöngu á frjáls framlög og leggjum mikið upp úr gagnsæi í fjármálum og ábyrgri fjáröflun.

Til að tryggja ábyrga fjáröflun höfum við sett okkur skýrar verklagsreglur sem starfsfólki okkar og hverjum þeim sem aflar fjár í nafni UNICEF ber að fara eftir í einu og öllu.

Gerð er sú ófrávíkjanlega krafa að öll útgjöld til fjáröflunar skili sér margfalt til baka í framlögum og þannig aukist heildarráðstöfun til verkefna fyrir börn.

Verklagsreglur UNICEF á Íslandi um

fjáröflun eru eftirfarandi:

Hver sá starfsmaður eða sjálfboðaliði UNICEF á Íslandi sem aflar fjár fyrir landsnefndina skal ávallt sýna ráðvendi og vönduð vinnubrögð í störfum sínum.

Allir fjármunir sem UNICEF á Íslandi áskotnast skulu nýttir til að uppfylla markmið UNICEF um að standa vörð um réttindi barna um allan heim

Í allri fjáröflun skal vera skýrt í hvaða tilgangi söfnunarfé skal notað. Allar upplýsingar skulu falla að hinu raunverulega markmiði fjáröflunarinnar og skal nafn UNICEF koma fram. Hver sá sem aflar fjár í nafni UNICEF skal geta upplýst um markmið UNICEF og tilgang söfnunarinnar

Gerð er sú ófrávíkjanlega krafa að öll útgjöld til fjáröflunar skili sér margfalt til baka í framlögum og þannig aukist heildarráðstöfun til verkefna fyrir börn.

Við skipulagningu og framkvæmd fjáraflana skal ávallt halda grundvallarmannréttindi og íslensk lög í heiðri. Sérstaklega skal Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna virtur í hvívetna.

Gjafafé skal aldrei afla með því að beita óeðlilegum þrýstingi. Leiki á því vafi að styrktaraðili hafi veitt styrk af fúsum og frjálsum vilja eða að fjárins hafi verið aflað með heiðarlegum hætti skal styrkurinn afþakkaður.

Ef stofnað er til samtarfs eða tekið á móti gjafafé frá fyrirtæki skal ávallt gerð skýlaus krafa um að fyritækið virði í hvívetna siðareglur UNICEF um a. vopnasölu, b. tóbakssölu, c. áfengissölu, d. barnaþrælkun, e. markaðssetningu á þurrmjólk í þróunarlöndunum, f. brot gegn viðskiptabönnum Sameinuðu þjóðanna, g. meiriháttar lögbrot.

Ávallt er UNICEF á Íslandi starfar með börnum skal megintilgangurinn vera að fræða og efla börn. Börnum er frjálst að styrkja UNICEF að eigin frumkvæði og eins geta skólar, frístundamiðstöðvar, félagasamtök og aðrir aðilar sem vinna með börnum skipulagt fjáröflun fyrir UNICEF með aðstoð og aðkomu barna

Öll samskipti tengd fjáröflun skulu einkennast af kurteisi og virðingu af hálfu þess er aflar fjár fyrir UNICEF eða hefur samskipti við styrktaraðila samtakanna.

Leitast skal við að þakka styrktaraðilum fyrir gjöf sé því komið við. Skal þá horft til kostnaðar en einnig til mikilvægi þess að styrktaraðili fái staðfestingu á gjöf sinni.

Persónuupplýsingar styrkveitanda skulu ekki veittar óviðkomandi án samþykkis styrkveitandans.

Á vefsíðu UNICEF á Íslandi skulu vera ítarlegar upplýsingar um starf og fjárreiður landsnefndarinnar. Styrktaraðilum skulu veitt skjót og skýr svör við fyrirspurnum er varða fjáröflun og meðferð gjafafjár.

Gjafafé skal afþakkað ef þess er aflað með óeðlilegum hætti (sbr. verklagsreglur nr. 3 og 6), gjöfin nýtist ekki til að uppfylla markmið UNICEF (sbr. verklagsreglu nr. 2), fyrirséður kostnaður landsnefndarinnar við gjöfina er í óeðlilegu hlutfalli við stærð hennar (sbr. verklagsreglu nr. 4) eða ef styrkveitandinn er fyrirtæki sem hefur brotið gegn siðareglum UNICEF (sbr. verklagsreglu nr. 7)