03. nóvember 2023

Yfirlýsing UNICEF: Blóðbað í flóttamannabúðum

Aðstæður í Jabaliya flóttamannabúðunum skelfilegar eftir árásir síðustu daga

„Heimili fólks hafa verið jöfnuð við jörðu, heilu fjölskyldurnar látið lífið og því börn meðal fallinna. Tala látinna og særðra í kjölfar árásarinnar á Jabaliya flóttamannabúðirnar hefur enn ekki verið staðfest,“ kemur fram í yfirlýsingu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í kjölfar skelfilegra árása á Gaza, þar sem aðstæðum er líkt við blóðbað.

„Þessar tvær árásir á búðirnar eiga sér stað í kjölfar 25 daga af sprengjuárásum og hryllilegum átökum á Gaza sem leitt hafa til dauða 3.500 barna. Meira en 6.800 börn hafa særst sem jafngildir 400 særðum börnum á dag, í 25 daga samfleytt. Þetta ástand má ekki verða samþykkt sem hið nýja viðmið,“ segir UNICEF.

„Flóttamannabúðir eru gerðar fyrir fólk og óbreytta borgara sem neyðist til þess að flýja heimili sín. Þessir einstaklingar eiga rétt á að njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Því ber ágreiningsaðilum skylda að virða og vernda fólk sem þar dvelur fyrir öllum árásum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Árásir af þessari stærðargráðu á þéttbýl íbúðarhverfi eru algjörlega óviðunandi. Fólk á flótta nýtur sérstakrar verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og ber stríðandi fylkingum að fara eftir þeim“.

„Börn á Gaza hafa þegar þurft að þola of mikið og því verður að stöðva árásir á börn. Börn eiga ekki að vera skotmörk í stríði“.

„UNICEF ítrekar ákall sitt til allra aðila deilunnar um tafarlaust vopnahlé í þágu mannúðarsjónarmiða, til þess að tryggja vernd allra barna og til þess að tryggja um öruggan og óhindraðan mannúðaraðgang svo veita megi neyðar- og björgunaraðstoð á Gaza-svæðinu, samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. ”

Neyðaraðstoð sem UNICEF hefur veitt við erfiðar aðstæður

Frá 1. nóvember hefur eftirfarandi mannúðarbirgðum verið dreift á Gaza.

  • 34 vörubílar á vegum UNICEF hafa farið inn á Gaza í gegnum Rafah landamærin frá 21. október. Alls hefur því 227 vörubílum verið hleypt inn á Gaza frá upphafi átakanna.
  • Engu eldsneyti hefur verið hleypt inn á svæðið.
  • UNICEF afhendir neyðarbirgðir á spítala og skýli fyrir fólk á flótta, sem hluta af víðtækari neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna, í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) meðal annarra.
  • 7 vörubílar bíða eftir leyfi til þess að fara inn á svæðið með sjúkragögn og vatnsbirgðir

Þetta er þó langt frá því að mæta þörfum særðra á Gaza sem er gríðarleg, þá sérstaklega fyrir mat, vatni, lyfjum og eldsneyti. Mannúðarstofnanir verða að geta veitt börnum og fjölskyldum örugga, viðvarandi og fyrirsjáanlega neyðaraðstoð, hvar sem þau eru stödd.

Eldsneyti er mikilvægt til þess að hægt sé að halda sjúkrahúsum og vatnshreinsunarstöðvum gangandi. Fyrirburar sem þurfa á aðstoð hitakassa að halda eru í mikilli hættu ef eldsneyti berst ekki til sjúkrahúsanna. Án eldsneytis eru börn í gríðarlegri hættu.

Mannfall á Gaza

Upplýsingar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, herma að um 1.400 Ísraelar og erlendir ríkisborgarar hafi látið lífið og að minnsta kosti 5.431 særst. Nöfn um 1.100 þeirra hafa verið birt og af þeim sem hafa verið aldursgreind voru um 31 börn.

Tæplega 8.800 Palestínumenn hafa verið drepin og þar af að minnsta kosti 3.648 börn. Meira en 22.000 manns hafa særst og af þeim eru í það minnsta 7.234 börn.

Rúmlega 1.900 manns er saknað og talið að þau séu í húsarústum í kjölfar árása. Enn á eftir að bera kennsl á hundruð látinna.

Björgunarsveitir og almannavarnir Palestínu eiga í erfiðum með að sinna hlutverki sínu vegna stöðugra loftárása, alvarlegs eldsneytisskorts, og fjarskiptaleysis.

Frá því að átök hófust hafa 70 starfsmenn Hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínska flóttamenn í nær austurlöndum (e. United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East, UNRWA) verið drepin og í það minnsta 16 heilbrigðisstarfsmenn verið drepnir við störf sín.

Þú getur stutt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn vegna átakanna á Gaza:

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur (Síminn, Hringdu, Nova).  

Frjáls framlög: 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950 

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn