30. apríl 2023

Börn í Fossvogsskóla gefa UNICEF 16 vatnsdælur

Börnin söfnuðu fyrir dælunum með því að dansa í sex klukkutíma

Fullur salur af stoltum börnum Fossvogsskóla tók á móti fulltrúum UNICEF í vikunni til að afhenda afrakstur dans maraþons skólans á dögunum. Börnin söfnuðu áheitum og dönsuðu í sex klukkustundir til að tryggja jafnöldrum sínum aðgengi að hreinu vatni. Marmið maraþonsins var að ná að safna fyrir þremur vatnsdælum en útkoman var langt fram úr björtustu vonum. Alls dönsuðu börnin fyrir 16 vatnsdælum – alveg ótrúleegt afrek! Dans maraþonið var hluti af alþjóðlegu Erasmus verkefni skólans þar sem börnin hafa lært um mikilvægi vatns fyrir allt líf á jörðinni.

Vatnsdælur skipa samfélög í efnaminni ríkjum heimsins gríðarlega miklu máli, þá sérstaklega börn. Án öruggs vatns og hreinlætisaðstöðu fjölgar sjúkdómum sem berast með vatni, til dæmis kólera og niðurgangspestir, sem börn eru mun viðkvæmari fyrir. Víða eru það einnig börnin sem þurfa að ganga langar vegalengdir til að sækja vatn fyrir heimilið, sem setur þau bæði í hættu og gerir það að verkum að þau missa úr skóla.

UNICEF vinnur þrotlaust að nýsköpun í samstarfi við sérfræðinga til að tryggja sjálfbært aðgengi samfélaga að hreinu vatni. Milljónum barna og samfélaga þeirra er tryggt öruggt drykkjarvatn á ári hverju, meðal annars með því að setja upp vatnsdælur og sólarknúin vatnskerfi . Ein vatnsdæla getur útvegað heilu þorpi hreint drykkjarvatn og munu dælurnar 16 frá Fossvogsskóla því gagnast ótal mörgum börnum sem þurfa ekki að ganga langar vegalengdir til að sækja vatn fyrir heimilið og geta í stað þess haldið skólagöngu sinni áfram. UNICEF mun nú sjá til þess að vatnsdælurnar þeirra verði settar upp þar sem þörfin er mest.

Fyrir öll áhugasöm þá er hægt að kaupa vatnsdælur hjá UNICEF hér.

 

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn