03. júlí 2023

Fyrst Íslendinga í Alþjóðaráð UNICEF

§  Karen Olga Ársælsdóttir fær inngöngu í ráðgjafarhóp stærstu einstaklingsfjárfesta í verkefnum UNICEF í heiminum – Hugsjónakona sem fjárfestir í framtíð barna af heilum hug, segir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Karen Olga Ársælsdóttir og Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri UNICEF á Íslandi. Mynd: UNICEF/Gerður

Karen Olga Ársælsdóttir er í dag orðin fyrsti Íslendingurinn til að taka sæti í Alþjóðaráði UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðaráðið er vettvangur innan UNICEF fyrir stærstu einstaklingsfjárfesta í verkefnum stofnunarinnar þar sem þeim gefst tækifæri til að hafa áhrif, ekki einungis í formi framlaga, heldur einnig hugmynda, ráðlegginga og ráðfærslu. Það er landsnefnd UNICEF á Íslandi sannur heiður að tilkynna um inngöngu Karenar Olgu í Alþjóðaráðið.

Karen Olga hefur til margra ára stutt af miklum myndarskap við verkefni UNICEF með kjarnaframlögum, framlögum til sérverkefna á Fílabeinsströndinni og Madagaskar sem og í neyðarsafnanir UNICEF á Íslandi. 

Í nýlegri skýrslu UNICEF, Core Resources for Results 2022, er einmitt rætt við Karen Olgu um hugsjón hennar um betri framtíð fyrir öll börn og hvað varð til þess að hún ákvað að láta gott af sér leiða. Þar segist hún hafa fengið gildi sín og hugsjón í vöggugjöf frá foreldrum sínum sem ólust upp við mikinn skort, en ólíkar aðstæður. Faðir hennar í litlu sjávarþorpi hér á landi en móðir hennar í Varsjá í seinni heimsstyrjöldinni og var Karen Olga alin upp við mikilvægi þess að leggja sitt af mörkum í þágu jöfnuðar. 

Þegar hugbúnaðarfyrirtækið Rauðás, sem Karen Olga stofnaði ásamt eiginmanni sínum, fór að njóta mikillar velgengni var það þessi hugsjón sem bjó að baki ákvörðun hjónanna að láta 30 prósent af hagnaði fyrirtækisins renna til góðgerðarmála, þar á meðal UNICEF. 

Aðeins nokkrum árum áður höfðu þau fyrir tilviljun kynnst starfsemi UNICEF eftir að hafa tekið spjall við sjálfboðaliða á vegum samtakanna á förnum vegi. Verkefni og hugsjón UNICEF um réttindi og velferð fyrir öll börn töluðu til Karenar Olgu og eftir því sem fyrirtæki þeirra hjóna óx og dafnaði, jókst framlag þeirra og áhugi á mannúðarstarfi.

Þegar eiginmaður Karenar Olgu féll frá leitaði hún að tilgangi og hvatningu til að halda starfsemi fyrirtækis þeirra áfram í skugga harmleiksins. Hún fann að eigin sögn þann tilgang í UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Innganga hennar í Alþjóðaráðið nú er viðurkenning á einstökum stuðningi hennar og hugsjón um betri framtíð fyrir börn um allan heim.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:

„Við erum ákaflega stolt af því að Karen Olga fái sæti í Alþjóðaráði UNICEF, fyrst allra Íslendinga. Karen Olga fjárfestir í framtíð barna af heilum hug, hún er hugsjónakona sem tekst á einstakan hátt að vera bæði sterk og auðmjúk, og það er ljóst í mínum huga að ef það væru fleiri eins og hún væri heimurinn svo sannarlega betri staður. Karen Olga er virkilega vel að því komin að fá sæti í Alþjóðaráðinu og við vitum sem er að það er mikill akkur fyrir ráðið að njóta krafta Karenar. Við hlökkum til framhaldsins.“  

Karen Olga Ársælsdóttir:

„Það er mér mikill heiður að geta lagt mitt af mörkum í Alþjóðaráði UNICEF og til þess mikilvæga starfs sem UNICEF vinnur. Ég vona líka að þetta verði öðrum hvatning, sem staðið hafa í mínum sporum og finna kannski ekki hugsjón sinni farveg, um að taka samtalið við félög á borð við UNICEF. Ég mæli heilshugar með því.“

Nánar má lesa um Alþjóðaráð UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, hér.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn