23. október 2023

Fyrstu neyðarbirgðirnar fyrir börn berast inn á Gaza

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna ítrekar ákall sitt um áframhaldandi öruggt aðgengi að Gaza svo hægt sé að koma neyðarbirgðum til barna og fjölskyldna í neyð, í samræmi við alþjóðalög, sama hvar þau eru

Um 44 þúsund flöskur af drykkjarvatni frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem nægir fyrir um 22 þúsund manns í einn dag, var ekið í gegnum Rafah, landamæri Egyptalands og Gaza í fyrradag. Alls fengu tuttugu flutningabílar sem hlaðnir voru neyðarbirgðum, leyfi til þess að fara í gegnum landamærin til þess að mæta þörfum barna og fjölskyldna á Gaza.  

„Afhending vatns til Gaza er spurning upp á líf og dauða. Hver mínúta skiptir máli í þessari mannúðarkreppu,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Þessar fyrstu birgðir sem berast til Gaza, munu bjarga mannslífum en þörfin er áfram gríðarleg, þar sem ekki er bara þörf á vatni, heldur mat, eldsneyti og lyfjum. Ef ekki er hægt að standa stöðugan straum af neyðaraðstoð, þá stöndum við frammi fyrir raunverulegri ógn lífshættulegra sjúkdóma,“ segir Russell.  

Stærstu innviðir Gaza, þar á meðal vatnshreinsunarkerfi, hafa verið lagðir í rúst síðustu vikur. Vatnsframleiðslugeta Gaza er þessa stundina um 5 prósent af því sem áður var en rúmlega 2,3 milljónir manns búa á Gaza og lifa nú á 3 lítrum af vatni á mann á dag.  

Ríflega milljón manns eru þegar á vergangi á svæðinu og um helmingur þeirra eru börn. Mörg hafa leitað sér skjóls í yfirfullum skýlum þar sem aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu er afar takmarkaður. Slíkar aðstæður eru sérstaklega hættulegar ungum börnum.  

„Hvert barn verður að vernda og mannúðarstofnanir eins og UNICEF þurfa að geta veitt börnum og fjölskyldum neyðaraðstoð á Gaza á öruggan máta,“ segir Russell. „Umfram allt verða allir aðilar að vernda börn gegn skaða og tryggja börnum þá sérstöku vernd sem þau eiga rétt á samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum,“ segir Russell að lokum.  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur komið neyðarbirgðum fyrir 250 þúsund manns til Rafah landamæranna og vonast eftir því að gefið verði leyfi fyrir frekari innflutningi birgða á Gaza. UNICEF ítrekar ákall sitt um öruggt aðgengi að svæðinu svo hægt sé að koma neyðarbirgðum til barna og fjölskyldna í neyð, í samræmi við stríðsreglur, sama hvar þau eru.  

UNICEF kallar eftir því að fleiri landamærastöðvar að Gaza verið opnaðar fyrir flutning neyðaraðstoðar, að þau sem þarfnist brýnnar læknisaðstoðar fái að yfirgefa svæðið og fái aðhlynningu utan Gaza, að UNICEF og öðrum mannúðarstofnunum verði veiddur öruggur aðgangur að Gaza til að tryggja börnum og fjölskyldum vatn, mat, heilbrigðisþjónustu og eldsneyti, að virðing sé borin fyrir borgaralegum innviðum svo sem vatnshreinsunarstöðvum, og að heilbrigðisstarfsfólk sé verndað svo hægt sé að koma í veg fyrir útbreiðslu á banvænum sjúkdómum og tryggja umönnun særðra.  

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn