14. apríl 2023

Húnaþing vestra ætlar að verða Barnvænt sveitarfélag

Börnin lýstu yfir miklum vilja til þess að taka þátt og hafa áhrif

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, við undirritun samningsins.

Sá ánægjulegi viðburður átti sér stað á miðvikudag, að Húnaþing vestra bættist í hóp þeirra sveitarfélaga sem vinna nú að því að fá viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag. Undirritun samnings þess efnis fór fram í nýjum og endurbættum Grunnskóla Húnaþings vestra að viðstöddum nemendum í 5.-10. bekk. Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri verkefnisins hjá UNICEF og sérfræðingur í réttindum barna, fræddi börnin um Barnasáttmálann, verkefnið og hvað þessi ákvörðun sveitarfélagsins þeirra þýðir. Börnin lýstu yfir miklum vilja til þess að taka þátt og hafa áhrif og nýta sér þær þátttökuleiðir verkefnið býður upp á. Á sama tíma lýsti fullorðna fólkið yfir miklum vilja til þess að hlusta og nýta raddir þeirra með markvissum hætti. 

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög UNICEF er stutt af mennta- og barnamálaráðuneytinu en það snýst um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga með stuðningi frá UNICEF á Íslandi. 

Í Húnaþingi vestra búa í dag um 245 börn á aldrinum 0-17 ára en um helmingur þeirra býr í byggðakjarnanum Hvammstanga og helmingur í dreifbýlinu í kring. Öll ganga börnin í grunnskóla á Hvammstanga en rekin er umfangsmikil þjónusta skólabíla. Á Hvammstanga er einnig góður leikskóli, tónlistarskóli, íþróttamiðstöð og sundlaug. Þar er einnig til staðar öflugt ungmennaráð. 

UNICEF á Íslandi óskar öllum börnum og íbúum Húnaþings vestra til hamingju með ákvörðunina og velfarnaðar á komandi vegferð. 

Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri Barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF fræddi börnin um Barnasáttmálann og hvað þessi ákvörðun sveitarfélagsins þeirra þýðir.

Nánar um verkefnið Barnvæn sveitarfélög 

Meðal þeirra markmiða sem sveitarfélög vinna að í verkefninu er að: 

  • auka þekkingu barna og fullorðinna á réttindum barna; 
  • auka tækifæri barna til þess að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif á málefni og ákvarðanir sveitarfélagsins sem hafa áhrif á börn; 
  • auka jafnræði með því að afla gagna um velferð barna og byggja á þeim; 
  • koma því inn í verklag og stefnur að það sem er barninu fyrir bestu sé sett í forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á börn; 
  •  gera úrbætur á umhverfi og þjónustu sveitarfélagsins út frá barnvænni nálgun. 

Sveitarfélög móta sér aðgerðaáætlun þar sem aðgerðum sem snúa að þessum markmiðum er forgangsraðað. Þegar allar aðgerðir hafa verið unnar getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Verkefnið er hugsað sem hringrás en ekki átaksverkefni en það er eilífðarverkefni að hlúa að réttindum barna. Þannig felur viðurkenning UNICEF ekki í sér vottun, heldur er hún staðfesting á því að átt hafi sér stað ákveðin vinna, réttindum barna til hagsbóta. Í dag hafa tvö sveitarfélög hlotið viðurkenninguna, Akureyri árið 2020 og Kópavogur 2021. 

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er hluti af opinberri stefnu um  Barnvænt  Ísland sem Alþingi hefur samþykkt en markmiðið er að öll sveitarfélög innleiði Barnasáttmálann á markvissan hátt. Mikilvægt er að öllum sveitarfélögum standi til boða markviss ráðgjöf og fræðsla við innleiðinguna og því styður hið opinbera við verkefnið Barnvæn sveitarfélög. 

NÁNARI UPPLÝSINGAR UM BARNVÆN SVEITARFÉLÖG ERU AÐGENGILEGAR Á VEFSÍÐU VERKEFNISINS.   

 

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn