01. júlí 2021

Meirihluti fjölskyldna í Líbanon eiga ekki efni á mat fyrir börnin sín

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varaði við því í dag að efnahagsástandið í Líbanon sé orðið það slæmt að meirihluti heimila í landinu eiga ekki efni á að kaupa mat fyrir börnin sín.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varaði við því í dag að efnahagsástandið í Líbanon sé orðið það slæmt að meirihluti heimila í landinu eiga ekki efni á að kaupa mat fyrir börnin sín. Samkæmt rannsókn sem UNICEF birti í dag er um að ræða eitt versta efnahagshrun í heiminum síðustu áratugina og eru það börnin sem bera þungann af. Djúp fjármálakreppa, áhrif kórónaveirunnar, pólitískur óstöðugleiki og eftirmálar sprengingarinnar sem varð í höfuðborginni Beirút í ágúst í fyrra hefur skilið börn og fjölskyldur eftir í mikilli neyð og nánast enga félagsþjónustu að fá. Gengi líbanska pundsins hefur hríðfallið og verð á matvælum að sama skapi margfaldast.

„Fleiri og fleiri fjölskyldur hafa neyðst til þess að grípa til örþrifaráða eins og að sleppa máltíðum, senda börnin sín út að vinna eða gifta barnungar dætur sínar,” segir Yuki Mokuo, talsmaður UNICEF í Líbanon.“

UNICEF gerði rannsókn í lok apríl á stöðu heimila í Líbanon þar sem kom meðal annars fram að:

  • Yfir 30 prósent barna fara svöng að sofa eða neyddust til að sleppa máltíðum síðasta mánuðinn;
  • 77 prósent heimila eiga ekki efni á að kaupa nægan mat. Í tilviki sýrlenskra flóttamanna í landinu er hlutfallið 99 prósent;
  • 60 prósent heimila þurfa að fá lánað fyrir mat;
  • 30 prósent barna fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa og 76 prósent heimila segjast upplifa miklar verðhækkanir á lyfjum;
  • Eitt af hverjum tíu börnum hafa verið send út að vinna;
  • 40 prósent barna tilheyra fjölskyldum þar sem allir eru atvinnulausir og 77 prósent tilheyra fjölskyldum sem fær enga félagsþjónustu;
  • 15 prósent fjölskyldna hafa tekið börnin sín úr skóla.

UNICEF eykur aðstoð og sendir ákall til stjórnvalda

Fleiri og fleiri fjölskyldur í Líbanon festast nú í vítahring fátæktar og mikil þörf er á að stórauka aðstoð við fjölskyldur í landinu. Verst sett eru þær 1,5 milljónir fólks á flótta frá Sýrlandi. Þökk sé stuðningi frá meðal annars Heimsforeldrum hefur UNICEF náð að auka hjálparstarf í þágu barna í Líbanon til þess að bregðast við ástandinu en samtökin senda um leið ákall til líbanskra stjórnvalda um að stórauka félagslegan stuðning, tryggja aðgengi barna að menntun og að styrkja heilbrigðisþjónustu og barnavernd.

Á síðastliðnum mánuðum hafa UNICEF og samstarfsaðilar meðal annars lagt áherslu á að veita fjölskyldum í mjög viðkvæmri stöðu fjárhagslegan stuðning, þar á meðal fjölskyldum á flótta frá Sýrlandi og Palestínu, tryggja börnum aðgang að heilbrigðisþjónustu og næringaraðstoð, hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Áhersla er lögð á að hjálpa börnum sem hafa verið neydd út að vinna og börn sem hafa verið beitt ofbeldi. UNICEF og samstarfsaðilar vinna nú í kappi við tímann við að tryggja öryggi barna og fjölskyldna þeirra vegna kórónaveirunnar og hefur UNICEF meðal annars staðið fyrir fræðsluátaki um mikilvægi bólusetninga. Auk þess hefur UNICEF stutt endurbyggingu á vatnsveitukerfum, barnaspítölum og skólum sem skemmdust í sprengingunni í Beirút.

„Líðan og öryggi barna verður að vera í algjörum forgangi til þess að hægt sé að tryggja að réttindi þeirra séu virt undir hvaða kringumstæðum sem er. Líbanon hefur ekki efni á því að börn þurfi að sleppa máltíðum, geti ekki farið í skóla og búi við hættu á obeldi, misnotkun og misbeytingu. Börn eru fjárfesting í framtíð þjóðarinnar,” segir Yuki Mokuo.

Heimsforeldrar UNICEF hjálpa börnum um allan heim á hverjum einasta degi og gera UNICEF kleift að bregðast við þegar neyðarástand skapast eins og í Líbanon. Hægt er að skrá sig sem Heimsforeldri UNICEF hér.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn