03. febrúar 2016

Milljónir barna frá Sýrlandi fara á mis við menntun

Milljónir sýrlenskra barna og ungmenna fá litla sem enga menntun nú þegar átökin í Sýrlandi hafa staðið í nærri fimm ár. UNICEF hefur myndað breiðfylkingu með öðrum hjálparsamtökum til að koma í veg fyrir að heil kynslóð Sýrlendinga verði af því að njóta góðrar grunnmenntunar.



Milljónir sýrlenskra barna og ungmenna fá litla sem enga menntun nú þegar átökin í Sýrlandi hafa staðið í nærri fimm ár. UNICEF hefur myndað breiðfylkingu með öðrum hjálparsamtökum til að koma í veg fyrir að heil kynslóð Sýrlendinga verði af því að njóta góðrar grunnmenntunar.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi er enn í fullum gangi. Hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 (1.900 krónur). Á síðasta ári skilaði samstillt átak stjórnvalda og hjálparsamtaka þeim árangri að meira en ein milljón barna og ungmenna innan Sýrlands nutu menntunar sem þau hefðu annars misst af. Þrátt fyrir mikinn árangurinn við afar erfiðar aðstæður ganga fjölmörg sýrlensk börn og ungmenni þó ekki í skóla. Vandinn er einfaldlega það umfangsmikill.

Rúmlega tvær milljónir barna innan Sýrlands hafa engan aðgang hafa að skólum vegna stríðsins og um 700.000 sýrlensk flóttabörn eru utan skóla í Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi. Brýnt er að mæta þörfum þeirra.

Fundað um lausnir

Í dag hefst ráðstefna í London þar sem fulltrúar fjölda ríkisstjórna, alþjóðasamtaka og hjálparstofnana hittast til að ræða leiðir til að styðja fólk í Sýrlandi og nágrannaríkjum. Meðal þeirra sem taka þátt í fundinum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. UNICEF og önnur hjálparsamtök munu nota fundinn til að halda No Lost Generation-átakinu á lofti, en þar er meðal annars lögð þung áhersla á að tryggja öllum sýrlenskum börnum menntun. Átakið hefur staðið í þrjú ár, en það var sett af stað til að koma í veg fyrir að heil kynslóð Sýrlendinga fari á mis við menntun og önnur mikilvæg réttindi. Viðfangsefnið er gríðarstórt, enda er áætlað að sex milljónir barna þurfi mannúðaraðstoð vegna stríðsins í Sýrlandi.

Auk UNICEF stendur breiðfylking hjálparsamtaka að No Lost Generation, svo sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), International Medical Corps, Save the Children og World Vision.

„Umfang vandans er sífellt að aukast, þannig að nú er virkilegt áhyggjuefni að Sýrland týni heilli kynslóð ungmenna sem farið hefur á mis við menntun,“ segir Peter Salama, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum, sem heldur utan um No Lost Generation-átakið.

Auk þess að safna fjármagni í tengslum við ráðstefnunina í London verður lögð áhersla á að þrýsta á stríðandi fylkingar að láta af árásum á skóla í Sýrlandi. Þar eru morð, mannrán og handtökur á nemendum og kennurum algeng, sem og handahófskenndar árásir á skóla. Fjórða hver skólabygging er ónothæf vegna þess að hún hefur skemmst, verið eyðilögð eða tekin til annarra nota, eins og að hýsa fólk á flótta eða þjónusta herinn.

Hvert framlag skiptir máli

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi er enn í fullum gangi. Hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 (1.900 kr). Hér má einnig finna margvíslegar styrktarleiðir.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn