23. febrúar 2024

Sameiginlegt ákall til stjórnvalda vegna Gaza 

Ákall framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar, ABC barnahjálpar, Rauða kross Íslands, UN Women Ísland og Barnaheilla - Save the Children á Íslandi

Við sem veitum mannúðarsamtökum á Íslandi forystu köllum eftir sterkari viðbrögðum íslenskra stjórnvalda vegna átakanna á Gaza. Stjórnvöld verða að nýta allar mögulegar leiðir, rödd og krafta til að þrýsta á um varanlegt vopnahlé og virðingu fyrir mannréttindum og mannúðarlögum, sem eru fótum troðin fyrir allra augum.

Stríðið á Gaza er stríð gegn börnum, enginn staður í heiminum er þeim jafn hættulegur. Næringarskortur blasir við, vatnsskortur er nær alger og farsóttir yfirvofandi.  Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum eiga almennir borgarar alltaf rétt á mannúðaraðstoð og vernd í vopnuðum átökum en öllum er ljóst að þessu er ekki fyrir að fara. Stríðandi fylkingar virða í engu mannréttindi íbúa svæðisins og líf þeirra mun aldrei verða samt aftur, lifi þeir af. Eyðileggingin á Gaza er alger og hvergi er skjól fyrir almenna borgara.

Þeim lögum og reglum sem gilda um mannúðaraðstoð á stríðstímum var komið á vegna skelfilegra átaka, þar sem almennir borgarar féllu í milljónatali. Aðgerðarleysi ríkja heims vegna átakanna á Gaza grefur undan þessum lögum og það skiptir ekki einungis máli fyrir fólkið í Palestínu, heldur fyrir heiminn allan. Spyrja verður um afleiðingar þessa, hvaða mörk setur alþjóðasamfélagið í átökum  sem þessum og hvernig á að framfylgja þeim? Hvað gerist þegar almennir borgarar, þar með talin börn, eiga sér ekkert skjól og fá enga hjálp?

Við ítrekum óskir okkar um að íslensk stjórnvöld beiti sér af öllu afli á alþjóðavettvangi  til að þrýsta á um:

  • Varanlegt vopnahlé.
  • Öruggan og óhindraðan flutning hjálpargagna inn á Gaza.
  • Frjálsa för íbúa Gaza og öruggt aðgengi að hjálpargögnum og þjónustu.
  • Uppbyggingu innviða sem tryggja hreint vatn, fráveitu, heilbrigðisþjónustu og næringu.
  • Umsvifalausa og skilyrðislausa frelsun allra gísla á Gaza.
  • Áframhaldandi fjárveitingar til hjálparstofnana á Gaza, þar með talið Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar (UNRWA).

 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar

Hjalti Skaale Glúmsson, framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar

Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women Ísland

Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn