06. nóvember 2023

UNICEF í Palestínu: Svona er staðan á Gaza

Landsskrifstofa UNCIEF í Palestínu hefur birt nýja stöðuskýrslu um ástandið á Gaza og aðgerðir UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á vettvangi.  Hér verður helstu atriðum skýrslunnar gerð skil

Hræðileg átök hafa haldið linnulaust áfram á Gaza síðustu daga. Loft- og sprengjuárásir hafa því staðið yfir frá 7. október síðastliðnum en þann 26. október hófust einnig hernaðaraðgerðir á jörðu niðri. 2. nóvember síðastliðinn var greint frá því að 9.061 Palestínumenn, þar af 3.760 börn hafi verið drepin á svæðinu frá upphafi átakanna.

22.961 Palestínumenn hafa særst og þar af 7.695 börn. Meira en 2.000 manns, þar af 1.150 börn, er saknað og talin grafin í rústum húsa. Yfirstandandi loftárásir torvelda björgunaraðgerðir og annað mannúðarstarf sem og skortur á eldsneyti og takmarkað fjarskiptasamband á svæðinu.

Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) áætlar að 1,4 milljónir manna séu á flótta á Gaza og að helmingur þeirra séu börn. Þar af eru yfir 690 þúsund manns sem dvelja í 149 skólum á vegum Sameinuðu þjóðanna og 121 þúsund manns hafa fundið skjól á sjúkrahúsum, kirkjum og opinberum byggingum.

Börn varnarlaus, án menntunar og skólar jafnaðir við jörðu

Af þeim rúmlega 2,2 milljónum sem búa á Gaza er helmingurinn börn.  Íbúar á svæðinu hafa ekki lengur öruggan aðgang að vatni og hreinlætisaðstöðu vegna árása og eyðileggingar. Einnig eru 155 þúsund þungaðar konur og nýbakaðar mæður á Gaza sem þurfa nauðsynlega á heilsugæslu að halda. Samkvæmt upplýsingum UNICEF eru ríflega 337 þúsund börn á svæðinu yngri en fimm ára.

Stríðsátökin hafa hrakið flesta lækna og heilbrigðisstarfsmenn á Gaza á flótta og þar af leiðandi er stór hluti sjúkrahúsa mannaður með almennu starfsfólki. Sjúkrahúsin þjást einnig af eldsneytisskorti, sem leiðir til takmarkaðrar notkunar lífsnauðsynlegu tækja sem særðir þurfa á að halda.

Að minnsta kosti 625 þúsund börn hafa ekki lengur aðgang að skóla þar sem fjölmargir skólar hafa verið jafnaðir við jörðu. 25 árásir á skóla hafa verið staðfestar, aðeins í síðustu viku, en alls hafa 253 skólar orðið fyrir skemmdum á Gaza.

Aukin átök og ofbeldi á Vesturbakkanum

Ástandið á Vesturbakkanum, þar á meðal í austurhluta Jerúsalem, fer einnig versnandi. Aukið ofbeldi hefur átt sér stað síðustu vikur vegna hernaðaraðgerða í Jenin og Nur Shams flóttamannabúðunum. Aðgangstaksmarkanir hafa tekið gildi fyrir Vesturbakkann sem einangrar palestínsk samfélög enn frekar og takmarkar aðgengi þeirra að nauðsynlegri þjónustu. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) greinir frá auknu mannfalli á Vesturbakkanum, að minnsta kosti 130 Palestínumenn hafa verið drepnir síðan 7. október, þar af 40 börn. Eins eru 200 skólar á Vesturbakkanum ekki starfræktir vegna aðgangstakmarkana og öryggisástæðna eftir stigmögnun átaka á Gaza svæðinu.

Upplýsingar frá Ísrael herma að í það minnsta 1.400 Ísraelar og erlendir ríkisborgarar hafi verið drepnir, þar af meira en 30 börn, og meira en 6.500 manns hafa særst. Engar sundurliðaðar upplýsingar liggja enn fyrir um ísraelsk börn sem hafa drepist eða særst. Að sögn ísraelskra yfirvalda var 242 Ísraelsmönnum rænt inn á Gaza-svæðið og eru þeir enn í haldi, þar á meðal um 30 börn.

Stöðuyfirlit frá Gaza

  • 1,4 milljón manns á Gaza eru í neyð
  • 1 milljón barna verða fyrir áhrifum átakanna á svæðinu
  • 1,4 milljónir manna eru á flótta innan Gaza
  • 3.760 börn hafa verið drepin á Gaza frá því átök hófust
  • Yfir 2,2 milljónir manna hafa ekki lengur öruggan aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu
  • 253 skólar hafa orðið fyrir skemmdum á Gaza svæðinu frá því átök hófust
  • 55 prósent af vatnsveitu Gaza þarfnast viðgerðar og eru nú óstarfhæfar
  • Hernumdi Vesturbakkinn stendur frammi fyrir mikilli aukningu á ofbeldi og átökum og hafa í það minnsta 40 börn látið lífið frá 7. október

Hvað hefur UNICEF gert á Gaza?

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur

  • stutt vatnsflutninga sem útvegað hefur milljón manns, þar af 560 þúsund börnum, vatn  
  • afhent lyf og sjúkragögn til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem skilar sér til um 94 þúsund manns
  • veitt lyf sem nýtist við meðhöndlun á vannæringu
  • veitt 3.500 börnum barnavernd með geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegum stuðningi
  • dreift 918 hreinlætissettum og 12 vatnsgeymum sem gagnast um 1.586 fjölskyldum
  • tryggt vernd eftir fremstu getu fyrir fylgdarlaus börn á Gaza svæðinu og Vesturbakkanum
  • veitt 1.160 börnum barnaverndarþjónustu á Vesturbakkanum sem hafa orðið fyrir barðinu á aukni ofbeldi síðustu daga

Neyðarsöfnun UNICEF

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn vegna átaknna á Gaza er enn í fullum gangi!
Þú getur lagt neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Gaza lið með því að senda SMS-ið NEYÐ í númerið 1900 til að styrkja um 2.900kr (Síminn, Hringdu og Nova). 
Eða styrkt með frjálsu framlagi 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950 

 

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn