22. mars 2021

1 af hverjum 5 börnum í heiminum líða vatnsskort

Ný gögn sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gaf út á Alþjóðadegi vatnsins varpa ljósi á að vatnsskortur í heiminum er kominn á hættustig. Meira en 1,4 milljarðar manna, þar af yfir 450 milljónir barna í yfir 80 löndum, búa í dag á svæðum þar sem er mikill eða mjög mikill vatnsskortur.

Ný gögn sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gaf út á Alþjóðadegi vatnsins varpa ljósi á að vatnsskortur í heiminum er kominn á hættustig. Meira en 1,4 milljarðar manna, þar af yfir 450 milljónir barna í yfir 80 löndum, búa í dag á svæðum þar sem er mikill eða mjög mikill vatnsskortur. Þetta þýðir að eitt af hverjum fimm börnum í heiminum hefur ekki nóg vatn til að uppfylla daglegar þarfir sínar.

Öruggt drykkjarvatn er nauðsynlegt fyrir líf og heilsu barna og óhreint vatn getur valdið veikindum eða jafnvel dauða. Vatnsbornir sjúkdómar á borð við kóleru og niðurgangspestir draga árlega hundruð þúsunda barna til dauða á meðan önnur missa af skólagöngu þar sem þau þurfa að ganga langar vegalengdir á hverjum degi til að sækja vatn fyrir sig og fjölskyldur sínar. Þegar vatnsauðlindir minnka geta börn að sama skapi ekki þvegið hendur sínar til að verjast sjúkdómum.

Til að bregðast við vatnskrísu heimsins hefur UNICEF hleypt að stað nýju átaksverkefni, Water Security for All, til að virkja alþjóðasamfélagið og nýsköpunarfyrirtæki í að bregðast við ástandinu. Hægt er að kynna sér niðurstöður skýrslunnar hér.

Vatnshreinsitöflur á sannargjafir.is

Innan við þrjú prósent af vatnsauðlindum heimsins eru ferskvatn sem verða sífellt af skornari skammti. Áratugir af ofnotkun vatns og mengun ferskvatnsbirgða hefur aukið álagið á vatnsból heimsins og breytt úrkomumynstur og öfgar í veðurfari vegna hamfarahlýnunar aukið vatnsskortinn enn frekar. Á sama tíma hefur þörfin fyrir vatn aukist vegna fólksfjölgunar, þéttbýlismyndunar og aukinnar eftirspurnar frá meðal annars landbúnaði, iðnaði og orkuframleiðslu. Engin merki eru um að slík eftirspurn muni minnka á næstu árum.

Skýrla UNICEF beinir sjónum sínum sérstaklega að 37 „heitum reitum“ þar sem aðstæðurnar eru einna verstar fyrir börn og þar sem grípa þarf til aðgerða tafarlaust. Á þessum lista eru meðal annars Afganistan, Búrkína Fasó, Eþíópía, Haítí, Jemen, Kenýa, Nígería, Níger og Pakistan. Með átaksverkefninu leggur UNICEF áherslu á eftirfarandi umbætur:

1) Örugg og aðgengileg vatnsveitukerfi: Tryggja aðgengi að öruggri vatnsveitu sem er sjálfbær, nálægt heimilum fólks og er stjórnað af fagmennsku;

2) Vatnsveita og hreinlætisaðstaða sem þolir loftslagsbreytingar: Samfélög þurfa vatns- og hreinlætisaðstöðu sem þolir áföll vegna loftslagsbreytinga og nota græna orkugjafa;

3) Snögg viðbrögð: Bregðast þarf snemma við mögulegum vatnsskorti með fyrirbyggjandi aðgerðum, mati á auðlindum og skilvirkari notkun vatns;

4) Samvinna sem stuðlar að friði og stöðugleika: Styðja þarf samfélög og hagsmunaaðila til þess að vatns- og hreinlætisþjónustu sé stjórnað af sanngirni, auki félagslega samheldni og pólitískan stöðugleika og stuðli að friði. Á átakasvæðum þarf að koma í veg fyrir árásir á vatnsveitukerfi.

UNICEF útvegar hreint vatn á hverjum degi, á hamfarasvæðum, átakasvæðum og sem hluta af vatns- og hreinlætisverkefnum í yfir 90 löndum um allan heim. Áhersla er meðal annars lögð á að tryggja samfélögum og skólum hreinlætisaðstöðu og vatnsdælur, veita fræðslu um hreinlætisvenjur og útdeila vatnshreinitöflum sem breyta óhreinu vatni í drykkjarhæft á örskotsstundu.

Á hverju ári hefur fólk á Íslandi brugðist við vatnsskorti barna um allan heim með því að gefa vatnshreinsitöflur í gegnum Sannar gjafir UNICEF. Í fyrra voru keyptar 958 þúsund vatnshreinsitöflur á Íslandi sem duga til að hreinsa tæplega 4,8 milljónir lítra af vatni!

Þú getur hreinsað 50 þúsund lítra af vatni með því að kaupa vatnshreinsitöflur hér. UNICEF sér síðan um að koma hreinu drykkjarvatni til barna sem þurfa á að halda.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn