Réttindi barna í forgrunni

Átta leikskólar hljóta viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF

Leikskólarnir Arnarsmári, Álfaheiði, Furugrund, Grænatún, Kópahvoll, Lækur og Sólhvörf í Kópavogi og Lundarsel-Pálmholt á Akureyri hafa hlotið viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF í sumar. Viðurkenningin er staðfesting á því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið innleiddur á markvissan og meðvitaðan hátt í daglegt starf.

“Við hjá UNICEF á Íslandi óskum öllum átta leikskólunum innilega til hamingju með viðurkenninguna og sína þrotlausu vinnu til að ávinna sér hana. Að verða Réttindaskóli er ekki bara viðurkenning, heldur skuldbinding um að skapa menningu þar sem börn fá að taka þátt, tjá sig og hafa áhrif. Í þessum leikskólum fá börn tækifæri til að æfa lýðræði í verki og læra að rödd þeirra skiptir máli. Þetta er valdefling í sinni tærustu mynd – og hún hefst strax á leikskólaaldri,” segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Innleiðing Barnasáttmálans felur í sér að starfsfólk skólanna vinnur með réttindi barna á öllum sviðum – í samskiptum, leik, námi og ákvörðunum. Það krefst meðvitaðrar vinnu og samstöðu um að virða börn sem fullgilda þátttakendur í eigin lífi. Viðurkenningin sem Réttindaskóli er því ekki aðeins fagnaðarefni fyrir leikskólana sjálfa, heldur samfélagið allt. Hún sýnir að við tökum mannréttindi barna alvarlega – og að við trúum því að virðing fyrir réttindum byrji snemma.

Fleiri
fréttir

Réttindi barna í forgrunni
Lesa meira

30. júní 2025

Skrifstofan lokuð í júlí
Lesa meira

20. júní 2025

UNICEF: Sláandi aukning í fjölda vannærðra barna á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn