03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu

Aldrei verið mikilvægara fyrir alþjóðasamfélagið að gleyma ekki börnum Mið-Afríkulýðveldisins

„Nú þegar fágætt tækifæri gefst er stærsta ógnin að máttarstólparnir, sem þessi börn reiða sig á, alþjóðlegir styrkjendur, fjölmiðlar og upplýstur almenningur snúi baki við þeim og horfi í aðra átt að öðrum krísum sem eiga sér stað á sama tíma.“ Þetta var meðal þess sem fram kom í ávarpi Meritxell Relano Arana, fulltrúa UNICEF í Mið-Afríkulýðveldinu í Palais des Nations í Genf í gær.

Þar fór hann yfir stöðu „gleymdu barnanna“ í landinu sem hafa mátt búa við samfellda fjölkrísu í áratug. Raunar er það svo að landið er í fyrsta sæti í áhættumati 191 þjóðar yfir lönd sem eru í mestri hættu á mannúðarkrísu og hamfara. 

„Tíu ár af samfelldum átökum og óstöðugleika í Mið-Afríkulýðveldinu hafa sett allar þrjár milljónir barna ríkisins í hættu,“ sagði Arana og benti á aðeins örfá dæmi: 

  • 1 af hverjum 2 börnum hafa ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
  • Aðeins um 37% barna ganga reglulega í skóla.
  • 61% ungra stúlkna eru giftar fyrir átján ára aldur.
  • Nær 40% barna glíma við langvarandi vannæringu. 

„Veikir innviðir og sífelld ógn vegna átaka og ofbeldis eru aðeins til að auka þessa ógn við réttindi barna. Sú staðreynd að krísan í Mið-Afríkulýðveldinu hefur dregist svona á langinn og að aðrar neyðaraðstæður hafa því miður skapast og eru í gangi á sama tíma þýðir að börn ríkisins hafa orðið nær „ósýnileg“. En sársauki þeirra og missir er óumdeilanlegur.“ 

Von í sjónmáli

En Arana segir að það sé þó von og nú standi málin á krossgötum og þetta sé augnablikið fyrir alþjóðasamfélagið að fylkja sér að baki börnum Mið-Afríkulýðveldisins og stýra málum til betri vegar. 

Það megi fyrst og fremst rekja til nýrrar þróunaráætlunar stjórnvalda í landinu auk aukinnar áherslu á réttinda barna sem geri það að verkum að UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og samstarfsaðilar hafi nú grundvöll til að þrýsta á um breytingar til hins betra. Stærsta ógnin, segir Arana líkt og fyrr segir, sé ef alþjóðasamfélagið snýr baki við þessu tækifæri. 

„Og lof mér að orða þetta eins skýrt og ég mögulega get leyft mér. Það myndi þýða að mjög mörg börn myndu deyja, og framtíð enn fleiri barna yrði eyðilögð. Barn er barn og það hefur aldrei verið mikilvægara fyrir alþjóðasamfélagið að muna það og gleyma ekki börnum Mið-Afríkulýðveldisins.“

Komdu í hóp Heimsforeldra UNICEF í dag og leggðu þitt af mörkum.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn