06. september 2023

Árangur á Afríkuhorninu: UNICEF afléttir neyðarstigi

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur aflétt neyðarstigi sem sett var á vegna ástandsins á Afríkuhorninu þann 14. september í fyrra.  Þetta er til marks um þann góða árangur sem náðst hefur með samtakamætti stofnunarinnar og samstarfsaðila í Kenía, Sómalíu og Eþíópíu á þessum tíma.

Fyrir rétt tæplega ári síðan var Afríkuhornið sett á þriðja og hæsta neyðarstig UNICEF vegna sögulegra þurrka og yfirvofandi hungursneyðar sem höfðu áhrif á 36,8 milljónir einstaklinga, þar af ríflega 20 milljónir barna. Á 3. neyðarstigi er allur stuðningur við viðkomandi svæði og viðbragð innan UNICEF á heimsvísu stóraukið til að bregðast við meiriháttar neyðarástandi.

Frá því í september í fyrra hefur UNICEF aukið viðveru sína á vettvangi og tryggt 5,9 milljónum einstaklinga aðgengi að hreinu vatni, 3,7 milljónum kvenna og barna heilbrigðisþjónustu og meðhöndlað alvarlega bráðavannæringu hjá tæplega 1,5 milljónum barna víðs vegar um Kenía, Sómalíu og Eþíópíu. UNICEF hefur einnig fjárfest umtalsvert í sjálfbærum vatnsinnviðum og uppbyggingu innviða til að aðstoða samfélög að bregðast við afleiðingum hamfarahlýnunar og loftslagsbreytinga líkt og þurrkum og uppskerubresti til frambúðar.

Þó neyðarstig hafi verið afnumið á Afríkuhorni frá og með deginum í dag er ástandið í norðurhluta Eþíópíu enn metið á viðkvæmu stigi. Neyðarstigið þar hefur því verið lækkað í stig tvö þar sem meira en 1 milljón manns eru enn á vergangi í Tigray og yfir 20 milljón manns standa enn frammi fyrir fæðuóöryggi.

UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun vegna ástandsins á Afríkuhorni í fyrra og ljóst að þau sem lögðu neyðarsöfnuninni lið, sem og Heimforeldrar UNICEF, eiga þátt í þeim góða árangri sem náðst hefur á svæðinu á þessum tíma.

Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð og langtímaverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í löndum Afríku og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim. SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ HVERNIG ÞÚ GETUR ORÐIÐ HEIMSFORELDRI STRAX Í DAG. 

Fleiri
fréttir

01. desember 2023

Stríðið gegn börnum heldur áfram
Lesa meira

01. desember 2023

Ellefu skólar hlutu viðurkenningu sem Réttindaskóli og- frístund UNICEF á Alþjóðadegi barna
Lesa meira

30. nóvember 2023

Fundur norrænna bæjarstjóra í Barnvænum sveitarfélögum upphafið að frekari samvinnu
Lesa meira
Fara í fréttasafn