14. ágúst 2024

Aukinn ofsahiti ógn við líf og réttindi barna

Tæplega hálfur milljarður barna upplifir að minnsta kosti tvöfalt fleiri mjög heita daga en afar þeirra og ömmur

Ofsahiti og tíðni hitabylgja í heiminum er að aukast hratt með alvarlegum áhrifum á heilsu og vellíðan milljóna barna, samkvæmt nýrri greiningu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Eitt af hverjum 5 börnum – um 466 milljón börn – búa nú á svæðum þar sem fjöldi mjög heitra daga hefur tvöfaldast, samanborið við fjölda daga fyrir sex áratugum síðan.

Börn eru hvað berskjölduðust þar sem líkamar þeirra eru mun viðkvæmari fyrir miklum hita. Ungir líkamar hitna hraðar og kólna hægar og mikill hiti er sérstaklega hættulegur fyrir börn vegna þess að hitinn hraðar hjartsláttartíðni. Álag hita á líkamann skapar sérstaka ógn við heilsu og vellíðan barna og barnshafandi kvenna, sérstaklega þar sem aðgengi að dryggjarvatni er ábótavant og leiðir til að kæla sig eru ekki tiltækar. Álag vegna mikils hita hefur verið tengt fylgikvillum á meðgöngu, andvana fæðingum, lágri fæðingarþyngd og fyrirburafæðingu.  Of mikið hitaálag stuðlar einnig að vannæringu barna, hitatengdum sjúkdómum og gerir börn viðkvæmari fyrir smitsjúkdómum sem dreifast við háan hita eins og malaríu. Vísbendingar sýna að hitaálag hefur einnig áhrif á taugaþroska, andlega heilsu og vellíðan barna.

Í Malí fer hitinn yfir 35 gráður meira en 200 daga ársins

Greining UNICEF byggir á samanburði meðalhita á árunum 1960 til 2024 sem sýnir að fjöldi mjög heitra daga, þar sem hitastig er meira en 35 gráður, er að aukast fyrir næstum hálfan milljarð barna. Mörg þeirra barna búa á svæðum þar sem skortur er á innviðum eða þjónustu til að þola slíkan hita til lengri tíma. Mesta aukningin hefur orðið í Vestur- og Mið-Afríku þar sem 39% barna á svæðinu upplifa að meðaltali þriðjung ársins við hitastig yfir 35 gráður, og er ástandið verst í Malí þar sem slíkur hiti nær 212 dögum á ári.  

Ofsahiti hefur meiri áhrif á börn þegar hitinn varir í lengri tíma. Greining UNICEF sýnir að börn verða nú fyrir áhrifum alvarlegri, lengri og tíðari hitabylgja. Í 100 löndum er meira en helmingur barna að upplifa tvöfalt fleiri hitabylgjur í dag en fyrir 60 árum. Í Bandaríkjunum, til dæmis, verða 36 milljónir barna fyrir tvöföldun hitabylgja miðað við fyrir 60 árum síðan og 5,7 milljónir verða fyrir þrefalt fleiri.

Áskoranirnar sem börn standa frammi fyrir vegna ofsahitans margfaldast með áhrifum hamfarahlýnunar á matar- og vatnsöryggi, truflun á mikilvægri þjónustu við börn, þar með talið menntun og heilsugæslu, og hættunni á auknum fólksflótta vegna náttúruhamfara.

Loftslagskrísan er eitt stærsta og brýnasta verkefni heimsbyggðarinnar. Á næstu mánuðum verða öll aðildarríki Parísarsamkomulagsins að leggja fram nýjar innlendar loftslagsáætlanir (Nationally Defined Contributions) sem munu marka stefnu loftslagsaðgerða næsta áratuginn. UNICEF skorar á leiðtoga, ríkisstjórnir og einkageirann að grípa þetta tækifæri og koma á brýnum og djörfum loftslagsaðgerðum sem tryggja réttindi allra barna til að lifa í hreinu, heilbrigðu og sjálfbæru umhverfi.

"Ríkisstjórnir verða að bregðast við til að ná tökum á hækkandi hitastigi og það er einstakt tækifæri til þess núna. Þar sem ríkisstjórnir eru nú að vinna innlendar aðgerðaráætlanir í loftslagsmálum geta þær gert það með þeim metnaði og þekkingu sem börn í dag og komandi kynslóðir hafa og munu þurfa til að að lifa í þeimi heimi sem þau erfa," segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF.

Fleiri
fréttir

10. september 2024

Enginn fyrsti skóladagur hjá 45 þúsund fyrstubekkingum á Gaza
Lesa meira

06. september 2024

Sorglegur endir á fyrstu skólavikunni í Úkraínu
Lesa meira

04. september 2024

189 þúsund börn bólusett á Gaza: Vilji er allt sem þarf
Lesa meira
Fara í fréttasafn