11. mars 2022

Barnvæn sveitarfélög í öllum landshlutum

Grundarfjarðarbær, Múlaþing og Strandabyggð bætast í hóp þeirra sveitarfélaga sem vinna verkefnið Barnvæn sveitarfélög UNICEF sem stutt er af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

11. mars 2022 Grundarfjarðarbær, Múlaþing og Strandabyggð bætast í hóp þeirra sveitarfélaga sem vinna verkefnið Barnvæn sveitarfélög UNICEF sem stutt er af mennta- og barnamálaráðuneytinu. Sveitarfélögin munu þannig innleiða Barnasáttmálann með markvissum hætti í alla sína stjórnsýslu og starfsemi með stuðningi frá UNICEF á Íslandi.

Með þátttöku þessara sveitarfélaga má nú finna sveitarfélög sem vinna að verkefninu í öllum landshlutum en Strandabyggð er fyrsta sveitarfélagið á Vestfjörðum til að hefja þessa vinnu og Grundarfjarðarbær fyrst sveitarfélaga á Snæfellsnesi.

Múlaþing bætist í hóp Fjarðabyggðar og Vopnafjarðahrepps á Austurlandi sem þýðir að nú búa nær öll börn á Austurlandi í sveitarfélagi sem vinnur að viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag.

Ungmennaráð UNICEF ásamt Páli Vali Björnssyni við afhendingu Barnaréttindaverðlaunanna 2016

Sveitarfélög sem nú taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög:

 • Höfuðborgarsvæðið: Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær
 • Suðurnes: Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar
 • Suðurland: Hrunamannahreppur, Rangárþing eystra, Sveitarfélagið Hornafjörður og Ölfus
 • Austurland: Fjarðabyggð, Múlaþing og Vopnafjarðarhreppur
 • Norðurland: Akureyri og Svalbarðsstrandarhreppur
 • Vestfirðir: Strandabyggð
 • Vesturland: Akranes, Borgarbyggð og Grundarfjarðarbær

Í þeim 20 sveitarfélögum sem nú vinna að verkefninu Barnvæn sveitarfélög búa yfir helmingur barna á Íslandi.

Sveitarfélögin vinna m.a. að eftirfarandi markmiðum:

 • að auka þekkingu barna og fullorðinna á réttindum barna
 • að auka tækifæri barna til þess að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif á málefni og ákvarðanir sveitarfélagsins sem hafa áhrif á börn
 • að auka jafnræði með því að afla gagna um velferð barna og byggja á þeim
 • að koma því inn í verklag og stefnur að það sem er barninu fyrir bestu sé sett í forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á börn
 • að gera úrbætur á umhverfi og þjónustu sveitarfélagsins útfrá barnvænni nálgun


Sveitarfélögin móta sér aðgerðaáætlun þar sem aðgerðum sem snúa að þessum markmiðum er forgangsraðað. Þegar allar aðgerðir hafa verið unnar getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Verkefnið er hugsað sem hringrás en ekki átaksverkefni en það er eilífðarverkefni að hlúa að réttindum barna. Þannig felur viðurkenning UNICEF ekki í sér vottun, heldur er hún staðfesting á því að átt hafi sér stað ákveðin vinna, réttindum barna til hagsbóta. Í dag hafa tvö sveitarfélög hlotið viðurkenninguna, Akureyri árið 2020 og Kópavogur 2021.

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er hluti af opinberri stefnu um Barnvænt Ísland sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor en markmiðið er að öll sveitarfélög innleiði Barnasáttmálann á markvissan hátt. Mikilvægt að öllum sveitarfélögum standi til boða markviss ráðgjöf og fræðsla við innleiðinguna og því styður hið opinbera við verkefnið Barnvæn sveitarfélög.

Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn