07. júní 2023

Börn í stríði: 315 þúsund alvarleg brot síðastliðin 18 ár

UNICEF greinir frá því að minnst 120 þúsund börn hafa látið lífið eða særst alvarlega í stríðsátökum víðs vegar um heiminn frá árinu 2005

Hvert einasta stríð, er stríð gegn börnum. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir að 315 þúsund alvarleg brot gegn börnum á stríðshrjáðum svæðum hafi verið staðfest af Sameinuðu þjóðunum á árunum 2005-2022. Sláandi áminning um þau skelfilegu áhrif sem stríð og vopnuð átök hafa á börn um allan heim.

Þjóðarleiðtogar, styrktaraðilar og mannúðarstofnanir hittust í Ósló í Noregi í vikunni á ráðstefnu um vernd barna á átakasvæðum þar sem UNICEF greindi frá niðurstöðum úttektar sinnar á brotum stríðandi fylkinga gegn börnum á rúmlega 30 átakasvæðum í Afríku, Asíu, Mið-Austurlöndum og Suður- og Mið- Ameríku.

Niðurstöðurnar, sem byggja á upplýsingum frá upphafi skráninga árið 2005 út árið 2022, eru vægast sagt skelfilegar: 

  • Rúmlega 120 þúsund börn hafa látið lífið eða særst.
  • Minnst 105 þúsund börn hafa verið neydd í hermennsku eða önnur vopnuð átök.
  • Rúmlega 32.500 börnum hefur verið rænt.
  • Rúmlega 16 þúsund börn hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi. 

Sameinuðu þjóðirnar staðfesta einnig að rúmlega 16 þúsund árásir hafi verið gerðar á skóla og sjúkrastofnanir á þessu tímabili auk þess sem 22 þúsund tilfelli eru skráð þar sem börn er meinað aðgengi að mannúðaraðstoð.

Hvert stríð er stríð gegn börnum

„Þegar upp er staðið er hvert einasta stríð sem háð er, stríð gegn börnum,“ sagði Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Það hefur skelfilegar afleiðingar á líf barna að upplifa stríðsátök og það eru áhrif sem breyta lífi þeirra. Við vitum öll hvað þarf til að vernda börn frá stríðsátökum, en heimsbyggðin er ekki að gera nóg. Ár eftir ár skrásetja Sameinuðu þjóðirnar heiftúðugar, sorglegar og alvarlegar afleiðingar stríðsátaka fullorðinna á börn um allan heim. Það hvílir á herðum okkar allra að tryggja vernd saklausra barna og að þau beri ekki þungan af stríðsbrölti fullorðinna.“ 

UNICEF hefur á þessu tímabili komið að og stutt vernd og umönnun milljóna barna á átakasvæðum og unnið þrotlaust að því að tryggja velferð þeirra. UNICEF lagði á ráðstefnunni fram ákall til þjóðarleiðtoga þar sem meðal annars er krafist þess að ríki skuldbindi sig til að tryggja vernd barna og öryggi barna samkvæmt alþjóðalögum sem og þeirra mikilvægu grunninnviða sem þau reiða sig á. Gerendur stríðsglæpa gegn börnum verði látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum og síðast en ekki síst tryggt verði fjármagn til að skala upp og tryggja mannúðarstofnunum grundvöll til að sinna þeirri gríðarmiklu neyð sem ríkir hjá því miður of mörgum börnum í heiminum í dag. 

„Viðbragð okkar til að vernda börn verður að vera í samræmi við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum. Við þurfum að gera allt sem við getum til að ná til allra þeirra barna sem á þurfa að halda,“ segir Russell að lokum.  

Gerast Heimsforeldri UNICEF.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn