13. nóvember 2023

UNICEF: Eitt af hverjum þremur börnum upplifir alvarlegan vatnsskort

Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF ógna loftslagsbreytingar andlegri og líkamlegri heilsu barna um heim allan. Vatnsframboð fer minnkandi og að sama skapi er drykkjarvatns- og vatnshreinsunarþjónusta víðsvegar ófullnægjandi og setur börn í mikla hættu.

Eitt af hverjum þremur börnum, eða um 739 milljónir um allan heim, búa nú þegar á svæðum þar sem vatnsskortur er mikill eða mjög mikill og geta loftslagsbreytingar gert aðstæður enn verri, segir í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Skýrslan ber yfirskriftina The Climate Changed Child og er gefin út fyrir leiðtogafundinn um loftslagsbreytingar, COP28, varpar ljósi á þá gífurlegu ógn sem steðjar að börnum vegna varnarleysis þeirra vegna loftslagsbreytinga. Ein helsta ógnin er vegna vatnsskorts, ógn við sjálfbærni vatnsbóla þegar eftirspurn er meiri en framboð og grunnvatnsmengunar.

Skýrslan, sem er viðbót við skýrslu UNICEF um barnaverndaráhættur árið 2021, dregur fram hvernig börn bera þungan af áhrifum loftslagsbreytinga. Vegna loftslagsáhrifa eru börn viðkvæmari fyrir sjúkdómum, loftmengun og öfgaveðri líkt og flóðum og þurrkum. Líkami barna mótast eftir umhverfinu sem þau lifa í og eru lungu barna til dæmis viðkvæmari heldur en fullorðinna fyrir loftmengun.

„Afleiðingar loftslagsbreytinga eru hrikalegar fyrir börn. Líkami þeirra er sérstaklega viðkvæmur fyrir menguðu lofti, lélegri næringu og ofsahita. Heimur okkar er að breytast og vatnslindir eru að þorna upp. Skelfilegir veðuratburðir eru að verða sterkari og tíðari og hefur það einnig áhrif á andlega og líkamlega heilsu barna. Börn þurfa á breytingum að halda en þarfir þeirra eru alltaf settar til hliðar,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

436 milljónir barna standa frammi fyrir tvöföldum vatnsskorti

Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að stærsti hluti barna sem verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga búa í Miðausturlöndum, Norður-Afríku og Suður-Asíu sem þýðir að þau búa við takmarkaðar vatnsauðlindir, árstíðabundnar veðurfarsbreytingar, þurrkahættu og slæma magnstöðu grunnvatns.

436 milljónir barna standa frammi fyrir tvöföldum vatnsskorti sem eykur varnarleysi þeirra og stofnar heilsu þeirra og vellíðan í hættu. Vatnsskortur er ein helsta dánarorsök barna undir fimm ára sem hægt er að koma í veg fyrir.

Skýrslan sýnir einnig að þau sem verða fyrir mestum áhrifum búa í lág- og millitekjuríkjum í Afríku sunnan Sahara, í Mið- og Suður-Asíu og Austur- og Suðaustur-Asíu. Árið 2022 bjuggu 436 milljónir barna á svæðum sem stafar mikil ógn af grunnvatnsmengun (e. water vulnerability). Þau lönd sem eru hvað viðkvæmust eru Níger, Erítrea, Jórdanía, Búrkína Fasó, Jemen, Tsjad og Namibía, þar sem 8 af hverjum 10 börnum verða fyrir áhrifum.

Nauðsynlegt að fjárfesta í drykkjarvatni og hreinlætisþjónustu

Fjárfestingar í hreinu drykkjarvatni og hreinlætisþjónustu eru nauðsynlegar til þess að vernda börn gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Loftslagsbreytingar leiða til aukinnar ógnar við sjálfbærni vatnsbóla en árið 2050 er spáð að 35 milljónir fleiri barna til viðbótar muni finna fyrir áhrifum þess, sem kallast „Water Stress.“ Það er þegar framboð vatns annar ekki eftirspurn. Þar eru Miðausturlönd, Norður-Afríka og Suður-Asía sem standa frammi fyrir mestu breytingunum.

Börn hunsuð í umræðum um loftslagsbreytingar

Þrátt fyrir að vera sá hópur sem verður helst fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, eru börn oft hunsuð í umræðum um loftslagsvandann. Til dæmis er aðeins 2,4 prósent af öllu alþjóðlegu fjármagni sem ætlað er til loftslagsmála varið í aðgerðir sem taka mið af börnum.  

Í tilefni COP28 sem er framundan, hvetur UNICEF þjóðarleiðtoga og alþjóðasamfélagið til þess að taka ákvarðanir sem varða loftslagsmál með börn í huga. Þar á meðal kallar UNICEF eftir því að rætt verði við börn um loftslagsbreytingar og að tryggja að tjónasjóður og fjármögnunarfyrirkomulag í kjölfar loftslagsáhrifa séu barnvæn  og með réttindi barna að leiðarljósi.

Fyrir utan COP28, hvetur UNICEF aðila til að grípa til aðgerða til að vernda líf, heilsu og velferð barna, þar á meðal með því að aðlaga nauðsynlega félagslega þjónustu, uppfylla alþjóðleg sjálfbærniviðmið og loftslagssamninga.

„Börn og ungmenni hafa stöðugt kallað eftir því að tekið sé mark á rödd þeirra þegar rætt erum loftslagsvandann en þau hafa nánast ekkert formlegt hlutverk í ákvarðanatöku um málefnið. Sjaldan er tekið tillit til þeirra í núverandi loftslagsaðlögunar-, mótvægis- eða fjármálaáætlunum og aðgerðum. Það er því sameiginleg ábyrgð okkar að hlusta á börn þegar ráðist er í alþjóðlegar loftslagsaðgerðir,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Fleiri
fréttir

10. september 2024

Enginn fyrsti skóladagur hjá 45 þúsund fyrstubekkingum á Gaza
Lesa meira

06. september 2024

Sorglegur endir á fyrstu skólavikunni í Úkraínu
Lesa meira

04. september 2024

189 þúsund börn bólusett á Gaza: Vilji er allt sem þarf
Lesa meira
Fara í fréttasafn