04. desember 2023

Framkvæmdastjóri UNICEF: Gaza aftur orðið hættulegasti staður jarðar fyrir börn

„Í dag er Gaza-svæðið aftur orðið að hættulegasta stað á jörðu fyrir börn. Eftir sjö daga hlé frá hryllilegu ofbeldi og árásum hafa árásir hafist á ný. Fleiri börn munu vafalaust deyja í kjölfarið,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastýra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, yfirlýsingu í kjölfar þess að árásir á Gaza hófust á ný fyrir helgi eftir tímabundið vopnahlé.

„Fyrir hlé var sagt að meira en 5.300 palestínsk börn hafi verið drepin á 48 dögum af stanslausum sprengjuárásum. Utan þessa fjölda eru þau börn sem enn er saknað og hugsanlega eru grafin undir sprengjurústum,“ segir Russell.

Russell óttast einnig að ef ofbeldið heldur áfram á þessum mælikvarða og sama offorsi megi gera ráð fyrir að fleiri hundruð börn til viðbótar muni láta lífið og slasast daglega.

Ef ekki er hægt að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð, eins og vatn, mat, afhendingu sjúkragagna og búnaðar, teppi og hlý föt til þeirra sem þurfa á því að halda, stefni í enn frekari mannúðarhamfarir.

„Þetta þarf ekki að vera svona – í sjö daga var smá von fyrir börn sem föst eru í þessari skelfilegu martröð,“ segir Russell.

Á meðan hléinu stóð var um 30 börnum sleppt úr gíslingu á Gaza og fengu þau að sameinast fjölskyldum sínum örugglega á ný. Mannúðarhléið gerði það einnig að verkum að hægt var að afhenda aukna neyðaraðstoð til íbúa á Gaza. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og samstarfsaðilar gátu því stutt við fjölskyldur og börn í neyð og hafið fjölskyldusameiningu á svæðinu.

„Þetta var ekki nærri nóg til að mæta umfangi neyðarinnar sem er á svæðinu, en þetta var byrjun. Nú þurfum við aukið öruggt og fyrirsjáanlegt aðgengi til að ná til þeirra barna sem hafa slasast, hafa verið á flótta og orðið fyrir áföllum. Einnig þurfum við að koma vistum til barna sem eru viðkvæm fyrir kulda og því blauta veðri sem er framundan,“ segir Russell.

„Börn þurfa varanlegt vopnahlé ef þau eiga að komast af. Við skorum á alla aðila að tryggja að börn fái vernd og aðstoð, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar mannúðarlaga. Öll börn í Palestínu og Ísrael eiga skilið frið og von um betri framtíð.“

Þú getur stutt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi:

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur (Síminn og Nova).
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950
AUR í númerið: 123 789 6262 eða @unicef.
Þú getur líka styrkt neyðarsöfnunina á Sannargjafir.is

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn