05. júní 2024

Hamfaraflóð í Afganistan ógna lífi og velferð barna

UNICEF kallar eftir aukinni fjárfestingu í viðbúnaði vegna náttúruhamfara og til að auka þolgæði samfélaga til að takast á við sívaxandi áhrif loftslagsbreytinga á líf barna

Hinn 8 ára gamli Deen Mohammad situr í rústum heimilis síns í Shaikh Jalal þorpinu í Baghlan-héraði. Fjölskylda hans flúði upp á þak þegar flóðin urðu og litlu mátti muna að illa færi þegar faðir hans og bróðir lentu í vatnselgnum. Þeir sluppu blessunarlega en heimili fjölskyldunnar er ekki íbúðarhæft. © UNICEF/Meerzad

Tugþúsundir barna í Afganistan hafa orðið fyrir áhrifum af ítrekuðum skyndiflóðum í Afganistan undanfarið, þá einkum og sér í lagi í norðurhluta landsins í héruðunum Baghlan og Badakshan og vesturhéraðinu Ghor. Minnst 350 hafa látið lífið, þar á meðal á annan tug barna, 7.800 heimili hafa eyðilagst og rúmlega 5 þúsund fjölskyldur neyðst til að flýja heimili sín.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, brást þegar í stað við hamförunum og flutti hreint vatn og hreinlætishjálpargögn á hamfarasvæðin. Auk þess voru færanleg heilbrigðis- og næringarteymi send á vettvang til að hlúa að særðum og sjúkum. Hlý teppi, fatnaður og margvíslegur heimilisbúnaður til eldunar var einnig afhentur fjölskyldum sem misst höfðu allt sitt. UNICEF veitti einnig fjölskyldum beina fjárhagsaðstoð til að útvega nauðsynjar.

Veðuröfgar aukast

Öfgafullt veðurfar í Afganistan er að sögn UNCIEF skýr birtingarmynd aukinna loftslagsbreytinga og hamfarahlýnunar enda geisuðu miklir þurrkar á mörgum af þessum sömu svæðum í fyrra. Rannsóknir sýna að tíðni og styrkur veðuröfga í Afganistan er að aukast með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á afkomu og velferð íbúa og innviða.

„Alþjóðasamfélagið verður að stórauka framlag og fjárfestingu sína til stuðnings samfélögum til að draga úr og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir Dr. Tajudeen Oyewale, fulltrúi UNICEF í Afganistan. „Á sama tíma þurfa UNICEF og önnur mannúðarsamtök að búa sig undir nýjan raunveruleika með tilliti til hamfara af völdum þessara loftslagsbreytinga. Vaxandi tíðni og alvarleiki þessara veðuröfga kallar á að UNCIEF og aðrar mannúðarstofnanir hafi bolmagn til að stíga hraðar inn í með viðbragðsaðgerðir og umfangsmeiri mannúðaraðstoð. UNICEF þarf samhliða því að byggja upp þolgæði samfélaga til að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinganna og þar með draga úr þörf þeirra á mannúðaraðstoð.

Börn í Afganistan í viðkvæmri stöðu

Afganistan er í 15. Sæti af 163 þjóðum á áhættumati UNICEF fyrir börn vegna loftslagsbreytinga (e. Children‘s Climate Risk Index) sem þýðir að það er ekki aðeins hætta á náttúruhamförum þar heldur eru börn í Afganistan í sérstaklega viðkvæmri stöðu þegar þær verða.

„Miklar rigningar ættu ekki sjálfkrafa að þýða hamfarir fyrir börn í Afganistan. Við þurfum að forgangsraða sérstökum þörfum barna í allri ákvarðanatöku, grípa til aðgerða gagnvart þeim þegar í stað og verja börn fyrir framtíðarhamförum á sama tíma og við fjárfestum í grunnþjónustuinnviðum sem þau reiða sig á. UNICEF þakkar öllum samstarfsaðilum sínum fyrir rausnarlegan stuðning sinn sem hefur gert okkur kleift að vera til staðar og veita börnum og fjölskyldum í Afganistan mannúðaraðstoð á erfiðum tímum,“ segir Oyewale að lokum.

Þegar þú ert Heimsforeldri UNICEF styður þú starfsemi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um allan heim og gerir kleift að bregðast við neyðaraðstæðum sem og sinna langtímauppbyggingu samfélaga. Sem Heimsforeldri er mánaðarlegt framlag þitt að eigin vali í þágu réttinda og velferðar barna er það dýrmætasta sem UNICEF fær til að sinna þessum verkefnum.
Komdu í hóp Heimsforeldra strax í dag.


Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn