21. desember 2020

Jarðhnetumauk, sápur, vetarföt og námsgögn vinsælustu gjafirnar

Það stefnir í enn eitt metár Sannra gjafa frá Íslandi til barna í neyð þessi jólin og hefur fólk á öllum aldri nýtt sér vefverslun UNICEF á Íslandi til að kaupa fallegar jólagjafir sem bæta líf barna um allan heim.

Skákmaraþonið verður samtals 30 klukkustundir og safnað fyrir góðu málefni.

Það stefnir í enn eitt metár Sannra gjafa frá Íslandi til barna í neyð þessi jólin og hefur fólk á öllum aldri nýtt sér vefverslun UNICEF á Íslandi til að kaupa fallegar jólagjafir sem bæta líf barna um allan heim. Íslensku jólasveinarnir hafa líka uppgötvað hversu sniðugar gjafirnar eru í litla skó úti í glugga.

Á sannargjafir.is er að finna mikið úrval af hjálpargögnum á borð við bóluefni, hlý vetrarföt, jarðhnetumauk, teppi, námsgögn, moskítínet og hlífðarfatnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Gjöfin er keypt í nafni þess sem þú vilt gleðja og UNICEF sér síðan til þess að koma hjálpargögnunum til barna þar sem þörfin er mest. Í fyrra bárust jólagjafir frá Íslandi víða um heim, til dæmis til Kambódíu, Búrkína Fasó, Eþíópíu og Venesúela. Börn í Afganistan fengu handsápur, í Líbanon, Súdan og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó voru börn bólusett gegn mislinum og skólum í kassa var dreift til barna í Jemen, Malaví og Níkaragúa svo nokkuð sé nefnt.

„Allar gjafirnar eiga það sameiginlegt að bæta líf barna sem þurfa á að halda. Það er því ótrúlega fallegt að finna þessa miklu samkennd og þennan mikla stuðning hér á landi. Það stefnir allt í metsölu á Sönnum gjöfum þessi jólin og því greinilegt að almenningur og fyrirtæki láta sig heilsu og réttindi barna um allan heim varða,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.

Það tekur enga stund að klára jólagjafirnar í vefverslun UNICEF, www.sannargjafir.is. Einnig er hægt að kaupa Sannar gjafir í verslunum Lindex.

Hér má sjá vinsælustu gjafirnar hjá UNICEF þetta árið:

Jarðhnetumauk:
Vítamínbætt jarðhnetumauk gegnir lykilhlutverki á svæðum þar sem börn eru í lífshættu vegna vannæringar, meðal annars í Bangladess, Suður-Súdan og Jemen. Jarðhnetumaukið inniheldur öll nauðsynleg næringarefni, vítamín og steinefni sem börn þurfa og gerir kraftaverk fyrir vannærð börn. Í flestum tilfellum þurfa börn einungis þrjá pakka á dag í fáeinar vikur til að ná fullum bata.

Handsápur:

Eins einfalt og það hljómar þá bjargar einfaldur handþvottur milljónum lífa á ári hverju. Að þvo hendur regulega með sápu og vatni er ein áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu mannskæðra sjúkdóma. Of mörg börn hafa ekki aðgang að hreinu vatni og sápu sem gerir þau sérstaklega berskjölduð á tímum kórónaveirunnar.

Vetrarfatnaður:

Veturinn er kominn víða um heim og í mörgum flóttamannabúðum. Fyrir fjölskyldur á flótta getur verið erfitt að útvega hlý föt fyrir öll börnin. UNICEF dreifir hlýjum vetrarfatnaði og teppum meðal annars í flóttamannabúðum þar sem kalt er í tjöldum um nætur. Gjöfin inniheldur úlpu, hlífðarbuxur, flíspeysu, skó, trefil og húfu fyrir eitt barn

Námsgögn:

Menntun er öflugasta vopnið gegn fátækt og hungri, stuðlar að lækkun barnadauða, er mikilvæg til að ná jafnrétti kynjanna – og er lykillinn að bjartari framtíð okkur öllum til heilla. Að tryggja menntun barna og bregðast við áhrifum kórónaveirunnar á lokun skóla víða um heim er eitt af forgangsatriðum UNICEF.

Ofurhetjupakkinn:

Ofurhetjupakkinn er kjörinn fyrir ofurhetjur á öllum aldri sem vilja bæta líf varnarlausra barna og hjálpa til við að vernda þau gegn lífshættulegum sjúkdómum. Ofurkraftarnir felast í bóluefnum og vítamínbættu jarðhnetumauki, en með þá að vopni getur Ofurhetjupakkinn pakkað saman öllum sínum helstu erkióvinum, líkt og mænusótt, vannæringu og stífkrampa.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn