02. febrúar 2024

Sögur af sorg og missi: 17.000 fylgdarlaus börn á Gaza

Frásögn Jonathan Crickx, samskiptastjóra UNICEF í Palestínu, þar sem hann hitti hóp barna sem misst hafa allt

Barn við neyðarskýli í Gaza. MYND/UNICEF

Jonathan Crickx, samskiptastjóri UNICEF í Palestínu, deildi upplifun sinni af Gaza á blaðamannafundi í Genf í morgun. Í ávarpinu, sem ber yfirskriftina „Sögur af sorg og missi“, greinir Crickx frá því að minnst 17 þúsund fylgdarlaus börn séu nú á Gaza og upplifun sinni af viðtölum við börn sem hann hitti. Meðfylgjandi er frásögn hans: 

---------------------------------------

„Ég sneri aftur til Gaza í vikunni. Ég hitti mörg börn sem öll höfðu sína hrollvekjandi sögu að segja. Af þeim tólf börnum sem ég hitti og ræddi við hafði rúmlega helmingurinn misst fjölskyldumeðlim. Þrjú þeirra höfðu misst foreldri, þar af tvö sem höfðu misst báða foreldra. Á bak við alla þessa tölfræði er barn sem þarf að horfast í augu við nýjan og skelfilegan raunveruleika.

Missti fjölskyldu sína og útlim

Hin 11 ára gamla Razan var með fjölskyldu sinni heima hjá frænda sínum þegar húsið varð fyrir sprengjuárás á fyrstu vikum stríðsins. Hún missti nærri alla sína fjölskyldu. Móður sína, föður, bróður og tvær systur. Razan særðist svo illa á fótlegg í árásinni að það þurfti að fjarlægja hann. Eftir aðgerðina kom ígerð í sárið. Hún er nú í fylgd frænku sinnar og frænda og öll hafa þau neyðst til að flýja til Rafah.

Í miðstöð fyrir fylgdarlaus börn hitti í tvö ung börn, sex og fjögurra ára. Þau eru frændsystkin og öll fjölskylda þeirra var drepin í desember síðastliðnum. Stúlkan, sem er fjögurra ára, var augljóslega enn í miklu áfalli.

Ég hitti þessi börn í Rafah. Við óttumst að ástand barna sem misst hafa foreldra sína sé enn verri í norðri og fyrir miðju Gaza.

Í stríðsátökum er algengt að nánast fjölskylda og ættingjar annist börn sem misst hafa foreldra sína. En í augnablikinu, vegna skorts á mat, vatni og húsaskjóli, er þessi ættingjar í erfiðri stöðu og það er skelfileg áskorun að annast önnur börn á sama tíma og þau eiga í erfiðleikum með að sjá fyrir sínum eigin börnum og fjölskyldu. Í slíkum aðstæðum er nauðsynlegt að til staðar sé tímabundið úrræði til að annast börn og á sama tíma tryggja að þau haldi tengslum við ættingja sína og að hægt sé að rekja ferðir þeirra og sameina þegar ástandið lagast.  

Razan, líkt og önnur börn sem upplifa svo skelfilega hluti, er enn í áfalli. Í hvert sinn sem hún rifjar upp það sem gerðist brotnar hún niður og verður úrvinda. Staða hennar er sérstaklega erfið því hreyfigeta hennar er afar takmörkuð og sérfræðistuðningur og endurhæfingarþjónusta ekki til staðar.

Áhrif á andlega heilsu barna er bersýnileg. Þau sýna einkenni mikils og viðvarandi kvíða, þau hafa varla matarlyst, þau þjást af svefnleysi og upplifa tilfinningalegt uppnám og ofsahræðslu í hvert skipti sem þau heyra sprengingu.

Milljón börn þurfa sálfélagslegan stuðning

Áður en þessi átök hófust áætlaði UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að rúmlega 500 þúsund börn á Gaza þyrftu á sálfélagslegum stuðningi að halda. Í dag er áætlað að sú tala sé komin yfir milljón.    

UNICEF og samstarfsaðilar hafa veitt rúmlega 40 þúsund börnum og 10 þúsund forráðaaðilum sálrænan stuðning síðan árásir hófust. Ég sótti einn af þessum tímum og það var léttir að sjá börn fá tækifæri til að leika sér, teikna, dansa, syngja og brosa. Það hjálpar þeim að takast á við þessar skelfilegu aðstæður. En auðvitað er þetta langt frá því að vera nóg þegar við sjáum hvert umfang vandans er. 

Vopnahlé er eina leiðin til að hægt sé að veita þessum börnum þann félagslega og sálræna stuðning af þeirri stærðargráðu sem þau þurfa á að halda. Árið 2022, áður en þessi átök hófust, veittu barnaverndarklasar sem UNICEF leiddi nærri 100 þúsund börnum stuðning. Það er hægt að skala þessa aðstoð upp núna. Við höfum gert það áður. En við við núverandi öryggis- og mannúðaraðstæður er það ómögulegt.  

Og áður en ég lýk máli mínu vil ég bæta einu við í lokin. Þessi börn hafa ekkert með núverandi átök að gera. En það eru þau sem þjást, eins og ekkert barn ætti að nokkurn tímann að þjást. Ekki eitt einasta barn, sama hverrar trúar, þjóðernis, tungumáls, kynþáttar það er, ekkert barn ætti nokkurn tímann að þurfa að upplifa ofbeldi eins og sást þann 7. október og það ofbeldi sem þau hafa upplifað síðan.“

Fleiri
fréttir

11. desember 2024

Samstarfssamningur ríkislögreglustjóra og UNICEF á Íslandi undirritaður
Lesa meira

07. desember 2024

Búðu til pláss: TAKK
Lesa meira

06. desember 2024

Yfir helmingur barna á Íslandi nýtur góðs af verkefnum UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn