03. mars 2025

Þingmenn föndra fyrir málefni barna

Nýir talsmenn barna á Alþingi tóku þátt í skemmtilegum viðburði í Alþingishúsinu í dag

Nýir talsmenn barna á Alþingi tóku þátt í skemmtilegum viðburði í Alþingishúsinu í dag, skipulögðum af Barnaréttindavaktinni. Þetta er í sjöunda skipti sem talsmenn barna á Alþingi eru skipaðir, og koma fulltrúar úr öllum flokkum sem eiga sæti á þingi.

Á viðburðinum settu þingmennirnir sér markmið fyrir kjörtímabilið í tengslum við réttindi barna og fengu það verkefni að föndra fígúru sem minnir þau á að gæta að hagsmunum og málefnum barna á Alþingi og minna sig á að öll börn skipta máli. Þar er átt við öll börn í alls konar aðstæðum sem mörg eiga sér ekki málsvara, en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna nær til allra barna óháð uppruna og lagalegri stöðu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi í febrúar árið 2013. Þar sem engin þingnefnd á Alþingi hefur enn haft það hlutverk að fjalla heildstætt um málefni barna var óskað eftir samstarfi við þingflokka og stofna þingmannahóp um talsmenn barna á Alþingi. Árið 2014 skrifuðu þingmenn í fyrsta sinn undir yfirlýsingu og tóku að sér að huga sérstaklega að réttindum, hagsmunum og sjónarmiðum barna í störfum sínum.

Að Barnaréttindavaktinni standa níu samtök sem láta sig varða réttindi og velferð barna. Ásamt UNICEF á Íslandi eru það samtökin Barnaheill, Heimili og skóli, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn, Samfés, UMFÍ, Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtök.

Nýjir talsmenn barna á Alþingi eru:

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar / María Rut Kristinsdóttir til vara.

Kolbrún Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins / Guðmundur Ingi Kristinsson til vara. 

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins / Bryndís Haraldsdóttir til vara.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks / Þórarinn Ingi Pétursson til vara.

Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins / Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir til vara.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður Samfylkingarinnar / Eydís Ásbjörnsdóttir til vara.

 

Þingmennirnir voru rosa duglegir að leira og afraksturinn glæsilegur eins og sjá má.
Fleiri
fréttir

28. mars 2025

Heimsbyggðin geti ekki hunsað „helvíti á jörðu“ í Súdan
Lesa meira

27. mars 2025

Niðurskurður bitnar á lífsnauðsynlegri næringarþjónustu fjórtán milljóna barna
Lesa meira

25. mars 2025

Sameinuðu þjóðirnar: Áratuga framfarir í baráttunni gegn barnadauða í hættu
Lesa meira
Fara í fréttasafn