30. mars 2022

Úkraínski Eurovision-sigurvegarinn Jamala til Íslands

Jamala, sem vann Eurovision 2016, kemur fram í söfnunar- og skemmtiþætti UNICEF Heimsins mikilvægasta kvöld 2. apríl

„Það er verið að fremja þjóðarmorð á úkraínsku þjóðinni. Engum er sýnd miskunn, ekki einu sinni börnum. Nú hafa 300 börn og ungmenni týnt lífi, að meðtöldum hörmungunum í Mariupol. Það sker mig í hjartað að heyra sögur af særðum börnum og börnum sem hafa misst foreldra sína. Tíminn er á þrotum. Ég skora á heimsbyggðina að stöðva voðaverk Rússa strax,“ segir Jamala.

Í þættinum Heimsins mikilvægasta kvöld verður fjallað um stríðið í Úkraínu og neyðaraðgerðir UNICEF í landinu. Einnig verður greint frá margvíslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar á líf barna, meðal annars í Malaví, Síerra Leóne, Indónesíu, Bangladess, Sýrlandi og Jemen. Markmiðið með þættinum er að fjölga enn í hópi heimsforeldra á Íslandi sem styðja starf UNICEF með mánaðarlegum framlögum.

Auk þess verður þátturinn sneisafullur af skemmtiatriðum með þjóðþekktu listafólki allt frá stjörnum prýddum grínsketsum Kanarí-hópsins, þar sem Annie Mist, Jón Gnarr, Steindi jr. og Bassi Maraj eiga stórleik, til glæsilegra tónlistaratriða með Páli Óskari og Diddú, Lay Low, Birgittu Haukdal, Daníel Ágústi og Sigríði Thorlacius. Nú hefur hin úkraínska Jamala bæst í hópinn. Hún kemur fram í þættinum og syngur meðal annars lagið 1944, sem vann Eurovision 2016.

Kynnar kvöldsins eru Einar Örn Jónsson og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, í myndveri RÚV, og Björg Magnúsdóttir og Guðmundur Pálsson sem standa vaktina í símaveri Vodafone og þar verður mikið um óvæntar uppákomur. Dagskárgerð er í höndum Þórs Freyssonar. Heimsins mikilvægasta kvöld

hefst á RÚV á laugardagskvöld klukkan 19.45.

Heimsins mikilvægasta kvöld er þáttur sem enginn má missa af. UNICEF á Íslandi þakkar öllum þeim fjölmörgu sem gáfu vinnu sína og lögðu samtökunum lið til að láta hann verða að veruleika. Styrktaraðilar átaksins eru Vodafone, Lindex, og Kvika banki. Einnig fær UNICEF á Íslandi styrk frá Utanríkisráðuneytinu til að halda úti öflugu kynningar- og fræðslustarfi sem er hluti af þættinum.  Auglýsingastofan TVIST vann markaðsátak herferðarinnar og útlit þáttarins. 

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn