10. febrúar 2023

UNICEF á hamfarasvæðum: Stöndum við bakið á börnum í neyð

Íslenska þjóðin sýnt samhug með börnum í neyð vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi – Hvert einasta framlag skiptir máli núna og getur bjargað mannslífum

Fjölskylda í Rumaila í Jableh-héraði norðvesturhluta Sýrlands stendur við rústir byggingar sem hrundi til grunna í jarðskjálftunum.

Tala látinna vegna skjálftanna stóru í Tyrklandi og Sýrlandi þann 6. febrúar síðastliðinn er nú komin yfir 20 þúsund. Hundruð þúsunda barna og fjölskyldna lifa nú við brýna neyð. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er á vettvangi hamfaranna og vinnur að nauðsynlegum neyðaraðgerðum í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda vegna þessa harmleiks. Það felur meðal annars í sér að koma hjálpargögnum, hreinu vatni, aðstoð, skjóli og vernd til þessa gríðarstóra hóps ásamt samstarfsaðilum.

Íslenska þjóðin hefur brugðist vel við neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi og þökk sé Heimsforeldrum, sem með mánaðarlegum framlögum styðja við starf UNICEF í þágu barna um allan heim, hefur UNICEF getað brugðist skjótt við og af krafti í neyðaraðstoð sinni við afar krefjandi aðstæður.

„Það hefur verið ómetanlegt fyrir okkur hér á Íslandi og kollega okkar í Tyrklandi og Sýrlandi að finna þennan stuðning frá almenningi. Aðstæður á vettvangi eru ólýsanlega erfiðar og okkar samstarfsfólk er að vinna í kappi við tímann til að tryggja öryggi barna og koma hjálpargögnum til þeirra og fjölskyldna þeirra. Á sama tíma eru þau að syrgja vini og ástvini sem hafa látist eða slasast í skjálftunum. Hvert einasta framlag skiptir máli núna og getur bjargað mannslífum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.

Á þeim fjórum dögum sem liðið hafa frá hamförunum hafa safnast tæpar 9 milljónir króna í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi og er þá ótalið allt það fjármagn sem rennur í aðgerðirnar frá mánaðarlegum framlögum 26 þúsund Heimsforeldra hér á landi. 

-------

Við hvetjum öll sem tök hafa á að styðja börn á hamfarasvæðum skjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi sem nú þurfa á aðstoð okkar að halda. Til að styrkja biðjum við þig að:

Senda SMS-ið STOPP í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 krónur.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102040 kennitala: 481203-2950

Við tökum einnig við styrkjum í AUR appinu í númerið: 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef

Drengur í Rumaila í Jableh-héraði norðvesturhluta Sýrlands fylgist með rústabjörgun í hverfinu sínu.

Þúsundir íbúa í Sýrlandi og Tyrklandi hafa misst heimili sín í þessum hamförum og er nauðsynlegt að ná til þeirra sem eru á vergangi eins fljótt og auðið er. Börn og fjölskyldur sofa á götum úti, í verslunarmiðstöðvum, skólum, moskum og samgöngumiðstöðvum á meðan önnur halda til undir berum himni af ótta við að snúa aftur heim. Þúsundir fjölskyldna eru því berskjaldaðar fyrir náttúruöflunum sem á þessum árstíma færa þeim frost, kulda, snjó og rigningu.

UNICEF segir að á hamfarasvæðum Sýrlands hafi miklar skemmdir orðið á mikilvægum innviðum, þar á meðal mörgum vatnsdælustöðvum og fráveitukerfum í búðum þar sem fólk sem flúið hafði heimili sín fyrir jarðskjálftanna býr. Allt þetta eykur verulega líkur á sjúkdómahættu og veikindum.

Skemmdir á vegum og öðrum samgönguinnviðum hafa einnig torveldað rústaleit og björgun á svæðunum sem og almennt mannúðarstarf.

Ung stúlka situr á gangstétt í Al-Fayd hverfinu í Jableh-héraði. Þar er kalt og hún óttast um afdrif fjölskyldu sinnar og vina.

Fyrsta viðbragð UNICEF

UNICEF vinnur að mannúðaraðstoð á hamfarasvæðum í nánu samstarfi við samstarfsaðila og að því að meta umfang neyðarinnar. UNICEF hefur komið fyrir hjálpargögnum í norðvesturhluta Sýrlands sem verið er að dreifa eins og langt og mögulegt er.

Forgangsatriði UNICEF er að tryggja að börn og fjölskyldur hafi aðgengi að hreinu og öruggu drykkjarvatni og hreinlætisþjónustu sem er nauðsynleg á fyrstu stigum neyðar til að koma í veg fyrir útbreiðslu hinna ýmsu sjúkdóma. Meðan tjón á vatnsdreifikerfi er metið hefur UNICEF útvegað vatn með vatnsflutningabílum.

Annað forgangsverkefni UNICEF er vernd barna. Það felst meðal annars í að bera kennsl á fylgdarlaus börn og þau sem orðið viðskila við foreldra og vinna að því að sameina þau aftur við fjölskyldur sínar. Veita áfallahjálp og sálrænan stuðning. Þá er ónefnt mikilvægi þess að tryggja þeim næringu. Á ofangreint einnig um við verkefni UNICEF í Tyrklandi.

Stöndum við bakið á börnum í neyð

Ljóst er að umfang hamfaranna og afleiðingar munu halda áfram að koma í ljós á komandi sólarhringum. Ljóst er þó að mannúðarneyðin sem á þessum svæðum ríkir mun aðeins aukast og hvert framlag til góðs í þau risavöxnu verkefni sem UNICEF og samstarfsaðilar standa frammi fyrir nú þegar og á komandi dögum.

Við hvetjum öll sem tök hafa á að styðja börn á hamfarasvæðum skjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi sem nú þurfa á aðstoð okkar að halda. Til að styrkja biðjum við þig að:

Senda SMS-ið STOPP í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 krónur.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102040 kennitala: 481203-2950

Við tökum einnig við styrkjum í AUR appinu í númerið: 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn