21. júní 2022

UNICEF veitir 1,6 milljón barna neyðaraðstoð vegna flóða í Bangladess

Milljónir íbúa í neyð - Minnst átta börn látið lífið í hamförunum

Fjórar milljónir einstaklinga, þar af 1,6 milljón barna, sem eru innlyksa vegna skyndiflóða í norðausturhluta Bangladess þurfa nauðsynlega á neyðaraðstoð að halda. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er á vettvangi til að veita börnum vernd, dreifa hreinu vatni og sjúkragögnum.

„Börn þurfa öruggt drykkjarvatn tafarlaust. Það er eitt af forgangsverkefnum núna að koma í veg fyrir banvæna vatnsborna sjúkdóma,“ segir Sheldon Yett, fulltrúi UNICEF í Bangladess, í tilkynningu.

UNICEF hefur þegar sent 400 þúsund vatnshreinsitöflur sem tryggt geta 80 þúsund heimilum hreint vatn í viku. UNICEF vinnur einnig með stjórnvöldum í Bangladess að margvíslegum neyðaraðgerðum vegna ástandsins.

Í Sylhet hefur flætt inn í nær allar heilbrigðisstofnanir og tilkynningum um vatnsborna sjúkdóma fjölgar hratt. Börn eiga sömuleiðis í mikilli hættu á að drukkna í vatnselgnum – en drukknun var fyrir ein af helstu dánarorsökum barna í landinu.

Ríflega 36 þúsund börn hafa leitað skjóls í yfirfullum neyðarskýlum ásamt fjölskyldum sínum. Skólum hefur verið lokað og enn eina ferðina verður mikið rask á menntun barna sem var ekki á bætandi eftir rúmlega 18 mánaða skólalokanir vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Sem stendur er staðfest að minnst átta börn hafi látið lífið vegna flóðanna.

„Hugur okkar er hjá fjölskyldum og ástvinum þeirra barna sem látið hafa lífið í þessum hamförum. Eins og gefur að skilja eru börn viðkvæmasti hópurinn í alvarlegum aðstæðum sem þessum. UNICEF vinnur hörðum höndum að því, með stjórnvöldum og samstarfsaðilum, að mæta öllum helstu þörfum barna við þessar erfiðu aðstæður,“ segir Yett.

UNICEF telur að nú vanti 2,5 milljónir dala til að sinna neyðarviðbragði vegna flóðanna og tryggja börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi mannúðaraðstoð.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn