15. júní 2023

Starfsfólk UNICEF harmi slegið yfir hörmungum á Miðjarðarhafinu

Um hundrað börn í bátnum sem hvolfdi undan ströndum Grikklands.

 „Við erum harmi slegin yfir þeim fréttum að um hundrað börn voru meðal þeirra sem sátu föst í lest skips sem hvolfdi undan ströndum Grikklands í gær, í mannskæðasta sjóslysi á Miðjarðarhafinu síðustu ár,” segir Philippe Cori, samhæfingarstjóri UNICEF fyrir viðbrögð við fólki á flótta í Evrópu. Yfirfullur báturinn var að flytja fólk sjóleiðina til Evrópu og talið er að á milli 500 og 700 manns hafi verið um borð. Mikils fjölda er enn saknað.  „Við vottum fjölskyldum barnanna og öllum þeim sem urðu fyrir áhrifum af þessu hræðilega atviki okkar dýpstu samúð.”

Í gær kom út skýrsla á vegum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sem sýnir að aldrei fyrr hafi fleiri börn verið á flótta í heiminum í dag, 43 milljónir. Stríðsátök, þurrkar, náttúruhamfarir og annars konar áföll setja börn í mikla hættu og ógna rétti þeirra til menntunar, heilsugæslu, næringar, öryggis og barnæsku.

Löndum er skylt, samkvæmt Barnasáttmálanum og alþjóðalögum, að vernda réttindi og hagsmuni barna. UNICEF heldur áfram að kalla eftir því að útvegaðar verði öruggar og löglegar leiðir fyrir fólk sem freistar þess að sækja um hæli í Evrópusambandinu og að tryggðar séu samræmdar leitar- og björgunaraðgerðir sem hjálpa til við að koma í veg fyrir dauðsföll á sjó.

 „Allt mannfall er harmleikur. Það að svo mörg börn týni lífi sínu í Miðjarðarhafinu, harmleikur sem hefði mátt koma í veg fyrir, er voðaverk sem mun ásækja þessar strendur um ókomna tíð. Það er komið nóg,“ segir Philippe Cori.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn