09. september 2023

UNICEF í viðbragðsstöðu vegna hamfara í Marokkó

Öflugur jarðskjálfti að stærðinni 6,8 varð aðfararnótt laugardags

UNICEF sem og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru í viðbragðsstöðu í kjölfar öflugs jarðskjálfta sem varð í Marokkó aðfaranótt laugardags. Skjálftinn var 6,8 að stærð en einnig fylgdi öflugur eftirskjálfti upp á 4,9 í kjölfarið.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega þúsund manns látið lífið og særðir eru hátt í 700. Í dag, laugardaginn 9. september, hefur umfangsmikil leit í rústum að eftirlifendum skjálftanna staðið yfir. Ljóst er að gríðarlegur fjöldi fólks er enn fastur í rústum heimila sinna og neyðarástand á hamfarasvæðinu mikið.

Sameinuðu þjóðirnar í viðbragðsstöðu

Ríflega 380 þúsund manns búa innan 48 kílómetra radíus frá upptökum skjálftanna og björgunarsveitir víða í vandræðum með að komast að afskekktum fjallaþorpum þar sem samgönguleiðir hafa laskast og rústir hindra aðgengi.

Anónío Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, gaf í dag út yfirlýsingu þess efnis að Sameinuðu þjóðirnar væru í viðbragðsstöðu og reiðubúnar að aðstoða stjórnvöld í Marokkó. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna eru í sambandi við yfirvöld til að styðja við mat á aðstæðum og viðbragð. Vinna stendur yfir við að fá á hreint hvar Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra geti veitt nauðsynlega aðstoð á komandi klukkustundum og dögum.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, setur börn ávallt í forgang í neyðaraðstæðum enda eru börn ávallt viðkvæmasti hópurinn í hamförum sem þessum. Ljóst er að börn og fjölskyldur eru nú á vergangi vegna náttúruhamfaranna og gætu þurft á skjóli, vatni, heilbrigðisþjónustu, vernd og sálrænni aðstoð að halda.

Það er við aðstæður sem þessar sem mánaðarleg framlög Heimsforeldra UNICEF sanna gildi sitt og gera UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast skjótt við þegar hamfarir verða og neyðaraðstæður skapast um allan heim. UNICEF er í viðbragðsstöðu til að aðstoða börn og fjölskyldur í Marokkó.

Fleiri
fréttir

20. september 2023

Tugþúsundir súdanskra barna í lífshættu
Lesa meira

19. september 2023

Aukið ofbeldi ógnar þúsundum barna í Port-au-Prince á Haítí
Lesa meira

15. september 2023

Tæplega 300.000 börn á hamfarasvæðum Daníels í Líbíu
Lesa meira
Fara í fréttasafn