09. október 2023

UNICEF til staðar á hamfarasvæðum Afganistan og undirbýr vetraraðstoð

Aðstæður í vesturhluta Afganistan eru erfiðar eftir jarðskjálfta af stærðinni 6,3 sem reið yfir 7. október síðastliðinn

Um klukkan 11 að morgni til 7. október síðastliðinn reið jarðskjálfti upp á 6,3 yfir í vesturhluta Afganistan og fannst helst í héruðunum Herat, Badghis og Farah. Heildartala látinna og særðra hefur ekki verið staðfest en upplýsingar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, áætla að nokkur hundruð manns, þar af konur og börn, hafi látist og særst.  

Fulltrúi UNICEF í Afganistan, Fran Equiza, vottar fjölskyldum þeirra sem misst hafa nákomna samúð sína þegar hann segir að UNICEF í Afganistan geri nú allt í þeirra valdi til þess að aðstoða þau sem urðu fyrir áhrifum skjálftans.  

UNICEF til staðar á hamfarasvæðum 

Teymi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Afganistan aðstoðar slasaða á heilsugæslustöðvum, útdeilir neyðarlyfjum og útvegar neyðartjöld á þeim svæðum þar sem þörf er á. Til viðbótar hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sent 10 þúsund hreinlætispakka, 5000 neyðarpakka fyrir fjölskyldu, 1500 sett af hlýjum vetrarfatnaði auk teppa og annarra heimilismuna sem þörf er á, sérstaklega fyrir þau sem urðu verst úti í skjálftanum.  

„Eins og alltaf þegar neyð brýst út sýnir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, samstöðu með börnum og fjölskyldum sem þurfa á aðstoð að halda,“ segir Equiza.  

Harður vetur framundan: UNICEF undirbýr vetraraðstoð 

Samhliða neyðaraðgerðum vegna hamfaranna undir UNICEF nú umfangsmikla vetraraðstoð sína í Afganistan. Markmið hennar er að veita 111 þúsund fjölskyldum lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð í komandi vetrarhörkum þar sem frostið í landinu getur víða náð -33 gráðum. 

Vetraraðstoð UNICEF í Afganistan mun fela í sér að tryggja að fjölskyldur hafi aðgengi að nauðsynlegum vistum og grunnþjónustu til að sinna velferð barna. Þetta felur í sér næringarríka fæðu, hreint vatn, hreinlætisvörur, föt, skóla- og sjúkragögn og hita. Heilsugæslustöðvar verða studdar sérstaklega yfir veturinn og loks verður fjölskyldum sem á þurfa að halda veittur tímabundinn framfærslustyrkur til að vega upp á móti áhrifum efnahagskreppu og skulda heimilanna sem og hættunni á að börn verði send út á vinnumarkaðinn, neydd í hjónaband eða þau flosni upp úr námi. Þá er ljóst að í kjölfar nýlegra náttúruhamfara í Afganistan megi gera ráð fyrir að neyð almennings á hamfarasvæðum verði enn meiri. Veturinn verður því miður harður fyrir mörg börn í Afganistan og því ljóst að fjármagn til verkefna þar í landi mun kom sér vel í þessum umfangsmiklu vetraraðgerðum. 

Þú getur hjálpað 

UNICEF hefur verið á vettvangi fyrir konur og börn í Afganistan í rúm 65 ár og verður þar áfram að aðstoða í þeirri miklu þörf sem þar ríkir. Með þínum stuðningi hjálpar þú UNICEF að tryggja afgönskum fjölskyldum nauðsynlega mannúðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfaranna og vernd og hlýju fyrir komandi vetrarhörkur.  

Sendu SMS-ið BARN í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur. 

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög er: 701-26-102030 Kennitala: 481203-2950. 

Við tökum einnig við styrkjum í gegnum AUR appið í númerið: 123 789 6262. 

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn