30. september 2020

Viðbótarskýrsla frjálsra félagasamtaka til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna kynnt í dag

Skýrsla þessi er afrakstur tímamótasamstarfs níu félagasamtaka sem fjalla um réttindi barna með einum eða öðrum hætti. Þau eru: Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Heimili og skóli, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samfés, Ungmennafélag Íslands, UNICEF á Íslandi og Öryrkjabandalagið .

Í dag var kynnt skýrsla frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem unnið hefur verið að frá árinu 2018. Um viðbótarskýrsla við fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands til nefndarinnar er að ræða. Alls komu níu félagasamtök að ritun skýrslunnar, sem fjallar um réttindi barna með einum eða öðrum hætti.

Í gær var kynnt skýrsla sem börn á Íslandi hafa unnið um málefni sem á þeim brenna.

Frá því Ísland skilaði síðustu skýrslum sínum til Barnaréttarnefndarinnar hefur margt þróast í rétta átt en þó er margt sem bæta þarf svo börn á Íslandi geti notið allra þeirra réttinda sem getið er um í Barnasáttmálanum.

Meðal þeirra athugasemda sem koma fram í viðbótarskýrslu félagasamtakanna níu er að:

Stjórnvöld hafi ekki sinnt skyldu sinni við innleiðingu Barnasáttmálans. Lagt er til að stjórnvöld geri m.a. landsáætlun um innleiðingu sáttmálans og gefi út leiðbeiningar til þeirra sem taka ákvarðanir í málefnum barna um hvernig eigi að meta hvað sé barni fyrir bestu.

Auka þarf tækifæri barna og ungmenna til þátttöku í málefnum sem þau varðar. Stjórnvöld þurfa að sýna frumkvæði í að bjóða börnum að tjá skoðanir sínar í öllum aðstæðum og bera ábyrgð á að fræða almenning um tjáningarrétt barna óháð aldri. Sérstaklega skal tryggja aðstoð við börn af erlendum uppruna, fötluð börn, börn sem búa við fátækt og aðra hópa barna sem mæta hindrunum. Ennfremur er afar mikilvægt að íslenska ríkið undirriti og fullgildi þriðju valfrjálsu bókun Barnasáttmálans um kvörtunarleiðir til Barnaréttarnefndarinnar, og opni þannig aðgang fyrir börn til að kvarta undan meðferð stjórnvalda á málum sínum, án mismununar.

Nauðsynlegt er að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi en hingað til hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands, sem rekin er af frjálsum félagasamtökum, sinnt störfum mannréttindastofnunar

Eftirlit og samræming á starfsemi barnaverndarnefnda sé ábótavant og skuli eflt til muna. Þá skuli barnaverndarnefndir verða skipaðar fagfólki og látið verði af pólitískum skipunum. Úttekt verði gerð á barnavernd fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd.

Tryggja þarf að fötluð börn njóti tækifæra og mannréttinda sem þeim ber samkvæmt Barnasáttmálanum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, til jafns við önnur börn. Vöntun er á áreiðanlegri tölfræði um stöðu þeirra til að hægt sé að grípa til ráðstafana til að tryggja réttindi þeirra og verja fyrir mismunun og ofbeldi. Stórauka þarf tækifæri til náms, vinnu, menningar og tómstunda fyrir fötluð börn og ungmenni og jafnframt að tryggja rétt þeirra til hjálpartækja, m.a. fyrir börn sem búa á tveimur heimilum til að þau hafi raunveruleg tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu, eins og önnur börn.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn