01. október 2024

Framkvæmdastjóri UNICEF: 80 börn látin og 300 þúsund á flótta

UNICEF ítrekar ákall sitt um frið og vopnahlé og minnir á ábyrgð þjóða gagnvart alþjóðlegum mannréttindalögum

Ungur drengur stendur við rústir eftir árás í Beirút á dögunum.

„Síðastliðna viku hafa að minnsta kosti 80 börn látið lífið í árásum í Líbanon og hundruð særst. Samkvæmt tölum yfirvalda hefur ein milljón einstaklinga neyðst til að flýja heimili sín, þar af rúmlega 300 þúsund börn,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu í dag vegna stigmögnunar árása í Líbanon og versnandi stöðu barna í landinu.

„Þúsundir barna og fjölskyldna búa nú á götunni eða í tímabundnum skýlum. Mikill fjöldi hefur flúið heimili sín án nauðsynja. Mannúðaraðstæður versna með hverjum klukkutímanum,“ segir Russell.

„UNICEF og samstarfsaðilar okkar eru á vettvangi í Líbanon að ná til barna og fjölskyldna með nauðsynlega og lífsbjargandi aðstoð. Teymi okkar eru að afhenda vatn, sjúkragögn, dýnur, hlý teppi, hreinlætispakka og nýburaaðstoð. Við erum að veita heilbrigðis- og næringarþjónustu, barnavernd, og sálrænan stuðning fyrir börn og fjölskyldur.“

„En samhliða auknu ofbeldi eykst þörfin fyrir mannúðaraðstoð. Frekari stigmögnun átaka, eða innrás, í Líbanon mun gera hörmulega stöðu barna þar enn verri. Allt verður að gera til að forðast að slíkt gerist.“

„UNICEF heldur áfram að kalla eftir friði og stöðvun árása og átaka. Við ítrekum ákall okkar til allra aðila að börn og nauðsynlegir innviðir njóti verndar og tryggt verði að mannúðarstofnanir geti með öruggum hætti náð til allra þeirra sem á aðstoð þurfa að halda í samræmi við skyldur þeirra gagnvart alþjóðlegum mannréttindalögum.“

UNICEF afhendir hjálpargögn á vettvangi í Líbanon.
Ungir drengir leika sér á barnvænu svæði UINCEF í skjólshúsi fyrir fólk á flótta.
UNICEF afhendir dýnur, hlýjan vetrarfatnað og aðrar nauðsynjar.
Fleiri
fréttir

04. nóvember 2024

UNICEF fordæmir blóðuga helgi í Norður-Gaza
Lesa meira

01. nóvember 2024

Bólusetningar í Norður-Gaza halda áfram á morgun
Lesa meira

31. október 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna lagasetningar Ísrael gegn UNRWA
Lesa meira
Fara í fréttasafn