04. mars 2024

Börn deyja úr ofþornun og vannæringu á Gaza

„Þessi sorglegu og skelfilegu dauðsföll eru mannanna verk, fyrirsjáanleg og hefði verið hægt að koma í veg fyrir“

Ung stúlka í Rafah. Mynd/UNICEF

„Þessi sorglegu og skelfilegu dauðsföll eru mannanna verk, fyrirsjáanleg og hefði verið hægt að koma í veg fyrir,“ segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, í yfirlýsingu vegna þeirrar staðreyndar að minnst tíu börn hafa látið lífið síðustu daga vegna ofþornunar og vannæringar á Kamal Adwan-sjúkrahúsinu í norðurhluta Gaza.

„Dauðsföllin sem við óttuðumst eru byrjuð, nú þegar vannæring fer sem eldur í sinu um Gaza-ströndina. Það eru líklega fleiri börn en þau sem látist hafa síðustu daga sem berjast nú fyrir lífi sínu á einum af þeim fáu sjúkrahúsum sem eftir eru á Gaza og líklega enn fleiri börn í norðurhlutanum sem geta enga aðhlynningu fengið.“

Bein afleiðing aðgangshindrana

Khodr segir umfangsmikinn skort á næringarríkri fæðu, öruggu drykkjarvatni og læknisþjónustu beina afleiðingu af þeim aðgangshindrunum og hættum sem torvelda mannúðaraðgerðir Sameinuðu þjóðanna. Ástandið sé sérstaklega slæmt í norðurhlutanum þar sem aðgangshindranir séu nú að kosta börn og fólk lífið. UNICEF og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) skimuðu fyrir vannæringu barna í norðurhlutanum í janúar og þá voru nærri 16 prósent barna undir tveggja ára að glíma við bráðavannæringu. Í Rafah í suðurhlutanum, þar sem meiri neyðaraðstoð hefur verið í boði en í norði, var hlutfallið 5 prósent. 

„Mannúðarstofnanir eins og UNICEF verða að fá tækifæri til að vinda ofan af þessari mannúðarkrísu, koma í veg fyrir hungursneyð og bjarga lífi barna. Til að það sé hægt verður að tryggja fleiri inngönguleiðir sem gerir okkur kleift að flytja hjálpargögn inn á Gaza frá fleiri svæði, þar á meðal norðurhluta Gaza. Samhliða verður að tryggja öryggi og óhindrað aðgengi og umferð til að dreifa hjálpargögnum í miklu magni án allra tafa,“ segir Khodr.

Stundin sem varað var við runnin upp

„Síðan í október hefur UNICEF varað við því að tala látinna á Gaza myndi hækka gríðarlega ef mannúðarkrísa yrði til og fengi að aukast óheft. Ástandið hefur aðeins versnað og í síðustu viku vöruðum við við því að yfirvofandi væri sprenging í dauðsföllum barna ef næringarkrísa fengi að grassera. Nú er sú stund runnin upp og líklegt verður að teljast að tölurnar muni aðeins hækka ef þessar árásir hætta ekki og leyst verður úr þeim hindrunum sem standa mannúðarstarfi fyrir þrifum.“

„Það er óbærilegt að horfa upp á úrræðaleysið og örvæntinguna í augum sjúklinga og lækna sem vita að lífsbjargandi hjálpargögn eru aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð en þeim er meinað aðgengi að þeim. Það sem er enn verra er sár grátur barna sem hægt og sígandi eru að deyja fyrir augum heimsbyggðarinnar. Líf þúsunda barna er undir því komið að til nauðsynlegra aðgerða sé gripið tafarlaust.“

Styrktu neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Gaza núna.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn