05. september 2023

Börn í 48 af 49 Afríkuríkjum eru í mikilli hættu vegna loftslagsbreytinga

Ný skýrsla á vegum UNICEF sýnir að þrátt fyrir þá hættu sem blasir við börnum í Afríku renna aðeins 2,4 prósent af alþjóðlegu fjármagni til loftslagsmála til aðgerða í þágu barna

Ungur drengur að leik í flóttamannabúðum í Tsjad

Samkvæmt skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Time to Act: African children in the climate change spotlight, sem kom út 1. september síðastliðinn, eru börn í 48 af 49 ríkjum Afríku í mikilli eða mjög mikilli hættu á áhrifum loftslagsbreytinga. Í greiningunni voru ríki metin út frá því hversu útsett börn væru fyrir loftslags- og umhverfisáföllum eins og hvirfilbyljum og hitabylgjum, en einnig hversu berskjölduð þau eru fyrir slíkum áföllum, meðal annars út frá aðgengi að nauðsynlegri þjónustu. Greiningin sýnir fram á að börn sem búa í Mið-Afríkulýðveldinu, Tsjad, Nígeríu, Gíneu, Sómalíu og Gíneu-Bissá eru í mestri hættu.

Einnig kemur fram að aðeins 2,4 prósent alls fjármagns sem ætlað er að sporna gegn loftslagsáhrifum sé sérstaklega ætlað börnum, eða um 71 milljón Bandaríkjadala á ári. Börn eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir áhrifum loftslags- og umhverfisáfalla þar sem þau eru líkamlega verr í stakk búin til þess að lifa af hættur líkt og flóð, þurrka, storma, og hitabylgjur, ásamt því að vera viðkvæmari fyrir eitrunum og mengun.

Börn í löndum Afríku bera þungann af skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga

Lieke van del Wiel, aðstoðarforstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Austur- og Suður-Afríku segir það vera ljóst að yngstu meðlimir afrísks samfélags beri þungann af skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga.  „Börn eru síst fær til þess að takast á við loftslagsbreytingar vegna viðkvæmni þeirra og lélegs aðgengis að grunnþjónustu. Sterkari áhersla á fjármögnun fyrir þennan hóp er nauðsynleg, svo börn séu í stakk búin að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, í dag, sem og í framtíðinni,“ segir Lieke van del Wiel.

Til þess að sporna gegn þessari þróun hafa UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ásamt Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) unnið að verkefnum með það að markmiði að styðja við samfélög víðsvegar um Afríku í því að takast á við afleiðingar loftslagsvandans.  Sem dæmi má nefna verkefni sem sett var af stað á Sahel-svæðinu í kjölfar bylgju banvænna loftslagshamfara árið 2022. Verkefnið hefur síðan þá náð til 3 milljóna einstaklinga, þar af 2,7 milljóna barna, og tryggt þeim nauðsynlega þjónustu, sérstaklega í kjölfar loftslagsáfalla.

UNICEF, ásamt Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) vinna nú einnig með ungu fólki, stjórnvöldum, samtökum og einkageiranum að því að hanna og innleiða sáttmála um græn störf fyrir ungt fólk (e. Green Jobs for Youth). Verkefnið hefur það að markmiði að þróa 1 milljón nýrra grænna starfa, umbreyta 1 milljón núverandi starfa og aðstoða 10 þúsund ungmenni við að stofna ný græn fyrirtæki fyrir árið 2030.

Róttæk aukning í fjárfestingu í sjálfbærri framtíð ungs fólks í Afríku nauðsynleg

Roze Mwebaza, svæðisstjóri fyrir Afríku fyrir Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna, segir ungmenni bera minnsta ábyrgð á loftslagsbreytingum en börn í Afríku finni mest fyrir afleiðingum þeirra. „Til að sjá árangur verðum við að sjá róttæka aukningu í fjárfestingu í sjálfbærri framtíð ungs fólks í Afríku,“ segir Roze Mwebaza.

Börn í Afríku eru í mestri hættu á áhrifum loftslagsbreytinga en eru vanrækt vegna takmarkaðrar fjárhagslegrar aðstoðar sem þörf er á til þess að hjálpa þeim að aðlagast, lifa af og bregðast við loftslagsvánni. Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð og langtímaverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í löndum Afríku og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim. Smelltu hér til að sjá hvernig þú getur orðið heimsforeldri strax í dag.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn